Á morgun, laugardaginn 26. október verður boðið upp á skemmtilega hrekkjavökutónleika í Salnum undir yfirskriftinni Jazzhrekkur. Flutt verður spriklandi skemmtileg jazztónlist undir yfirskriftinni Jazzhrekkur en lögin fjalla um fyrirbæri sem tengjast hrekkjavöku: til dæmis drauga, nornir, afturgöngur og kóngulær! Flytjendur eru Ingibjörg Fríða Helgadóttir, söngkona, Sunna Gunnlaugsdóttir, píanóleikari og kontrabassaleikarinn Leifur Gunnarsson en hann samdi tónlistina.
Það mega allir mæta í skemmtilegum hrekkjavökubúningum á tónleikana. Þeir þurfa ekki að vera flóknir; t.d. er hægt að mála könguló á kinnina eða taka með sér nornahatt. Og svo er tilvalið að æfa nornahláturinn.
Aðgangur er ókeypis og öll hjartanlega velkomin á meðan húsrúm leyfir.
Fjölskyldustundir á laugardögum eru styrktar af lista- og menningarráði Kópavogsbæjar.