Skattar verða lækkaðir eins og undanfarin ár

Fjárhagsáætlun Kópavogsbæjar fyrir árið 2022 hefur verið lögð fram. Hún er tekin til fyrri umræðu í bæjarstjórn Kópavogs í síðustu viku

Fjárhagsáætlun Kópavogsbæjar fyrir árið 2022 er stefnumarkandi fjárhagsáætlunargerð. Í því felst að við gerð fjárhagsáætlunar var tekið mið af stefnum og aðgerðaáætlun sviða bæjarins, mælanlegum markmiðum, mælingum og aðgerðum.

Í fjárhagsáætluninni er lögð rækt við grunnþjónustu sveitarfélagsins auk þess sem öflug framkvæmdaáætlun fylgir henni. Áhersla á málefni barna endurspeglast í fjárhagsáætluninni. Þar má nefna byggingu nýs Kársnesskóla, nýjan leikskóla við Skólatröð, verkefnið Okkar skóli sem felur í sér að börn ráðstafa fjármagni til að bæta aðstöðu í skólum og aukið fjármagn til barnaverndar.

89,3 milljónir rekstrarafgangur

Gert er ráð fyrir 89,3 milljón króna rekstrarafgangi á samstæðu Kópavogsbæjar árið 2022 en 13,7 milljón króna afgangi í A-hluta. Ekki er gert ráð fyrir óreglulegum tekjum í fjárhagsáætlun Kópavogsbæjar. Þess má þó geta að stefnt er að úthlutun fjölbýlishúsalóða í Glaðheimum árið 2022 en fjármagn sem fæst fyrir þær verður nýtt til að lækka vaxtaberandi skuldir.
 

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs segir Kópavogsbær muni skila rekstrarafgangi á næsta ári sem sýnir að okkur tókst vel til með ætlunarverk og markmið síðasta árs sem var að tryggja góða umgjörð um rekstur bæjarins.

„Við munum skila rekstrarafgangi á næsta ári sem sýnir að okkur tókst vel til með ætlunarverk og markmið síðasta árs sem var að tryggja góða umgjörð um rekstur bæjarins. Þetta var áherslumál í fyrra og mikil áskorun vegna áhrifa Covid-19.  Samvinna bæjarfulltrúa við gerð fjárhagsáætlunarinnar hefur reynst einstaklega farsæl og á sinn þátt í góðri afkomu Kópavogsbæjar. Við höfum tekist á við áskoranirnar án þess að draga úr þjónustu og framkvæmdum,“ segir Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri.

Sjöunda árið í röð er fjárhagsáætlun unnin í samstarfi allra flokka í bæjarstjórn.

Launakostnaður hækkar um 1,8 milljarð

Launakostnaður Kópavogsbæjar fer úr 20,2 milljörðum í tæpa 22 milljarða og nemur hækkunin um 8,7%. Hækkunin skýrist að stærstum hluta af kjarasamningsbundnum launahækkunum en einnig af fjölgun verkefna.  Auk hefðbundinna launahækkana var samið um styttingu vinnuviku og lengra orlof.
 
Gert er ráð fyrir að íbúum fjölgi um 2,5% árið 2022 og verði því orðnir ríflega 40.000 í árslok.

Fasteignaskattur lækkar um 5,7%

Skattar verða lækkaðir eins og undanfarin ár. Lagt er til að fasteignaskattur á íbúðarhúsnæði lækki um 5,7%, eða úr 0,212% í 0,20%. Fasteignaskattur á atvinnuhúsnæði lækkar um 2%, úr 1,47% í 1,44. Sorphirðugjald hækkar vegna aukinna útgjalda við sorphirðu og -eyðingu en á móti kemur að vatnsskattur og holræsagjöld lækka.

Útsvar fyrir árið 2021 verður óbreytt eða 14,48%.

2 milljörðum verður varið í byggingu Kársnesskóla 2022

Framkvæmt fyrir 5,5 milljarða árið 2022

Framkvæmt verður fyrir 5,5, milljarða árið 2022 samkvæmt áætlun.
Nýr Kársnesskóli við Skólagerði er í byggingu auk þess sem nýr leikskóli mun rísa samhliða. Verður 3,6 milljörðum króna varið í það verkefni á næstu þremur árum. Á árinu 2022 verður 2 milljörðum króna varið í byggingu skólans.  

Byggður verður nýr leikskóli við Skólatröð, áætluð fjárfesting árið 2022 vegna þess eru um 250 milljónir króna.

Á næstu þremur árum er áætlað að verja um 1.280 milljónum króna í nýbyggingu leikskóla.
Á árinu 2022 verður um 350 milljónum króna varið í að klára endurbætur á Kórnum en verkefnið er komið vel á leið og gert er ráð fyrir að notkun á húsnæðinu hefjist fljótlega. Húsnæðið er hugsað fyrir skólastarf að hluta í Hörðuvallaskóla og bætta þjónustu við íbúa í efri byggðum.
Um 1,7 milljörðum króna verður varið í gatnagerð og tengd verkefni á næsta ári.

Barnvænt samfélag

Áhersla verður lögð á að efla lýðræðisleg vinnubrögð með nemendum og virka þátttöku barna í ákvarðanatöku.
Á árinu fer af stað nýtt verkefni „Okkar skóli“ sem svipar til verkefnisins „Okkar Kópavogur“ og miðar að því að nemendur taki sjálfir ákvörðun um ráðstöfun fjárheimildar til að bæta aðstöðu í grunnskólanum. 
Markvisst verður unnið að innleiðingu laga um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna.

250 milljónir í kaup á félagslegu húsnæði

Á áætlun ársins 2022 er gert ráð fyrir 250 milljónum króna í kaup á félagslegu húsnæði en þessir fjármunir eru hugsaðir sem 12% framlag á móti 18% framlagi frá ríkinu.
Varið verður 150 milljónum króna í nýtt sambýli með sjö íbúðum auk þjónustu vegna samnings bæjarins við velferðarráðuneytið vegna Kópavogsbrautar 5a. 
Þá  verður nýtt húsnæði við Fossvogsbrún tekið í notkun en í því verða sjö íbúðir fyrir fatlaða einstaklinga.

Milljarður í viðhald á fasteignum

Töluverð útgjaldaaukning er í málafloknum eða um 870 milljónir sem koma til vegna aukinnar þjónustu í nýju húsnæði en einnig vegna áhrifa styttingar vinnuvikunnar hjá vaktavinnufólki.
 

Gert er ráð fyrir að verja um rúmum milljarði króna í viðhald fasteigna þar sem áhersla verður lögð á fyrirbyggjandi viðhald með umhverfisvænum lausnum. Einnig verður unnið markvisst að bæta loftgæði í stofnunum bæjarins.

Himnastiginn verður endurbættur

Gert er ráð fyrir fjármagni í áætlun til reksturs Geðræktarhúss í húsnæði gamla Hressingarhælisins.  Þar mun fara fram fræðsla og færniþjálfun er lítur að því að bæta andlega vellíðan í samræmi við markmið lýðheilsustefnu bæjarins um aukna geðrækt.

Himnastiginn verður endurbættur og verður upphitaður og upplýstur. Himnastiginn eru tröppur frá Kópavogsdal upp að Digranesheiði sem eru afar vinsælar til íþróttaiðkunar.

Uppbygging skíðasvæðis í Bláfjöllum á dagskrá en hún er samstarfsverkefni sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu.

Þá verður íbúalýðræðisverkefnið Okkar Kópavogur fram haldið. Áfram verður unnið að því að bæta umhverfi bæjarins, góður og stíga. Útisvæði við menningarhús Kópavogsbæjar verður hannað og mun hönnun taka mið af starfsemi húsanna.

Unnið verður að því að minnka matarsóun í grunnskólum með markvissum hætti.

Bíða nýrrar þjóðhagsspáar

Endanleg ákvörðun um gjaldskrár bíður nýrrar þjóðhagsspár og verður því tekin fyrir í seinni umræðu um fjárhagsáætlun.

Þá hefur ekki verið sett inn í fjárhagsáætlun kostnaður vegna hlutdeild Kópavogsbæjar í rekstri byggðasamlaga, en það ber að gera það eftir breytingu á reglugerð um fjármál sveitarfélaga. Leiðbeiningar um framkvæmd liggja ekki fyrir og bíður útfærslan annarrar umræðu.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar