Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri í Kópavogi, hugnast ekki fyrirhugaðar breytingar á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, hefur neikvæð áhrif á Kópavogsbæ og skapar auk þess ranga hvata hjá sveitarfélögum. Þá segir hún miður að vinna starfshópsins hafi ekki skilað tillögum sem meiri sátt ríki um. Kópavogsbær ásamt fleiri sveitarfélögum hafa stigið fram og mótmælt harðlega fyrirhuguðum breytingum.
Um miðjan mars sendi Innviðaráðuneytið öllum sveitarfélögum landsins upplýsingar um gagngerar
breytingar á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, en fyrirhugaðar breytingar miða að því að bæta gæði jöfnunar, einfalda útreikninga og skipulag sjóðsins.
Hlutverk Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga er að greiða framlög til sveitarfélaga í þeim tilgangi að jafna mismunandi tekjuöflunarmöguleika og útgjaldaþörf þeirra. Af því leiðir að framlög til sveitarfélaga eru mjög mismunandi. Jöfnunarsjóður sveitarfélaga starfar á grundvelli laga um tekjustofna sveitarfélaga og hefur ráðherra sveitarstjórnarmála á hendi yfirstjórn sjóðsins.
Kynningin á fyrirhuguðum breytingum á regluverki jöfnunarsjóðs sveitarfélaga var tekin fyrir á fundi bæjarráðs Kópavogs í síðustu viku og þar bókuðu fulltrúar meirihlutans í bæjarráði að mikilvægt væri að benda á stjórnarskrárvarinn rétt sveitarfélaga til að ráða sjálf málefnum sínum. ,,Með þessum tillögum er verið að leggja til pólitíska einstefnu að sveitarfélög eigi að hækka útsvarsprósentur bæjarbúa í botn. Ef þessi tillaga verður að veruleika þá er verið að skapa ranga hvata og hindra að sveitarfélög geti skilað ávinningi af góðum rekstri til bæjarbúa,” segir í bókuninni.
Framlagið lækkar nema bærinn hækki útsvarshlutfallið í topp
Kópavogspósturinn heyrði í Ásdísi Kristjánsdóttur, bæjarstjóra Kópavogs, og spurði hana m.a. um hvað þessar breytingar snúa og hvaða áhrif þær geta haft á Kópavogsbæ? ,,Ef frumvarpið fer í gegn í óbreyttri mynd þá munu framlög jöfnunarsjóðs til bæjarins lækka nema bærinn hækki útsvarshlutfallið í topp, eða í 14,74%. Miðað við núverandi útsvarsprósentu gæti skerðingin orðið allt að 80 milljónir króna.”
Refsa þeim sveitarfélögum sem eru í góðum rekstri
Þið nefnið einnig að með þessum fyrirhuguðu breytingum á regluverki Jöfnunarsjóðs sé verið að skapa ranga hvata og hindra að sveitarfélög geti skilað ávinningi af góðum rekstri til bæjarbúa og eiginlega verið að þrýsta á þau að hækka útsvarsprósentu bæjarbúa í botn? ,,Í frumvarpinu stendur orðrétt: „Ef sveitarfélag fullnýtir ekki heimild sína til álagningar útsvars skal lækka framlög Jöfnunarsjóðs til viðkomandi sveitarfélags að fjárhæð sem nemur mismun á hámarksálagningu útsvars og álagningu sveitarfélagsins yfirstandandi árs,“ segir Ásdís og heldur áfram: ,,Við getum því ekki betur séð en að hér sé ætlunin að refsa þeim sveitarfélögum sem eru í góðum rekstri og eru ekki að fullnýta skattstofn sinn. Ekki aðeins er verið að leggja pólitíska stefnu þess efnis að sveitarfélög eigi að hækka útsvarsprósentu sína í botn heldur er verið að skapa ranga hvata í rekstri sveitarfélaga með tilheyrandi kostnað fyrir skattgreiðendur bæjarfélagsins.”
Kópavogsbær greiddi
1,8 milljarða króna umfram til jöfnunarsjóðs
En hver var hlutdeild Jöfnunarsjóðs í útsvari Kópavogs árið 2022 og hvað greiddi sjóðurinn í framlög til Kópa- vogsbæjar það ár – greiðir Kópavogsbær hærri upphæð í sjóðinn en hann fær til baka sem framlög? ,,Endanlegt útsvar vegna 2022 verður gert upp á haustmánuðum. Ef við hins vegar horfum til sl. áramóta, þá voru útsvarstekjur 33 milljarðar króna, greiðslur til jöfnunarsjóðs tæplega 4 milljarðar og tekju- færslur á greiðslum frá jöfnunarsjóði um 2,2 milljarður. Við erum því að greiða 1,8 milljarða króna umfram til jöfnunarsjóðs. Rétt er að hafa í huga að framlög frá sjóðnum til bæjarins koma á móti ákveðnum útgjöldum, s.s. þjónustu við fatlaða, til reksturs grunnskóla o.fl.”
Þið bendið á stjórnarskrárvarinn rétt sveitarfélaga til að ráða sjálf málefnum sínum í bókun ykkar í bæjarráði, hvert eru þið að fara með því og er þetta einhver dulin hótun? ,,Þetta er vinsamleg ábending um að sveitarfélög hafa ákveðinn rétt samkvæmt stjórnarskrá (78. gr.) og okkur þykir stundum eins og Alþingi umgangist þennan rétt nokkuð frjálslega,” segir Ásdís.
78. gr. Stjórnarskár Íslands. [Sveitarfélög skulu sjálf ráða málefnum sínum eftir því sem lög ákveða.
Tekjustofnar sveitarfélaga skulu ákveðnir með lögum, svo og réttur þeirra til að ákveða hvort og hvernig þeir eru nýttir.]
En hvort og hvernig þá getur Kópavogsbær brugðist við þessum fyrirhuguðu breytingum? ,,Kópavogsbær mun senda inn umsögn við frumvarpið með viðeigandi athugasemdum.”
Greitt 28 milljarða til sjóðsins en fengið 15 milljarðar til baka
Hefur Kópavogsbær í gegnum árin ávallt greitt hærra í Jöfnunarsjóðinn heldur en framlögin sem hann hefur fengið úr honum? ,,Já, það má segja það a.m.k. í fjölmörg ár hefur bærinn greitt meira í sjóðinn en hann hefur fengið útgreitt. Í þessu samhengi má nefna að greiðslur til sjóðsins frá 2013-2022 eru um 28 milljarðar króna en greiðslur frá sjóðnum eru um 15 milljarðar.”
Kópavogsbær betur settur án jöfnunarsjóðsins?
Væri Kópavogsbær betur settur án jöfnunarsjóðsins? ,,Ef ekki væri neinn jöfnunarsjóður, þá er ljóst að bærinn kæmist af með lægri brúttótekjur en í dag,” segir Ásdís að lokum.
Jöfnunarsjóður sveitarfélaga
Jöfnunarsjóður hefur markaðar tekjur sem ráðast af skatttekjum ríkis og sveitarfélaga. Hann fær sem nemur 2,111% af innheimtum skatttekjum ríkissjóðs og tryggingargjöldum og 0,264% af álagningarstofni útsvars sl. tekjuárs.
Til viðbótar rennur til sjóðsins ákveðin hlutdeild af útsvarsstofni hvers árs: 0,77% vegna reksturs grunnskóla og 0,99% vegna málefna fatlaðs fólks. Framlög jöfnunarsjóðs til sveitarfélaga skiptast í jöfnunarframlög, þ.á m. vegna reksturs grunnskóla og vegna málefna fatlaðs fólks, bundin framlög, þ.á m. til samtaka sveitarfélaga og sérstök framlög, þ.á m. til að greiða fyrir sameiningu sveitarfélaga.