Skammtímavistun fyrir börn með fötlun og sértæk úrræði

Börn og fjölskyldur í Kópavogi geta fengið fjölbreyttan stuðning til að mæta þörfum vegna félagslegra aðstæðna, álags, veikinda eða fötlunar. Sum börn hafa stuðningsfjölskyldu, önnur þiggja félagslega liðveislu sem hefur það markmið að rjúfa félagslega einangrun og styðja börn til þátttöku. Hópur ungmenna nýtir sér einnig eftirskólaúrræði þar sem þau verja tíma með jafningjum að loknum skóladegi.

Mörg börn eiga kost á skammtímadvöl utan heimilis með reglulegum hætti. Það er mannréttindamál fyrir barnið og einnig mikilvægt fyrir forelda sem sinna krefjandi stuðningsþjónustu við barnið, auk þess sem önnur börn í fjölskyldunni hafa þörf fyrir næði og tíma með foreldrum.

Kópavogsbær hefur í mörg ár fengið inni fyrir fötluð börn í skammtímadvöl í öðru sveitarfélagi en það er brýnt að strax á næsta ári taki Kópavogur fulla ábyrgð á þessum málaflokki og komi sér upp eigin úrræði.

Í Kópavogi eru einnig börn með fjölþættan vanda og börn sem vegna fötlunar sinnar þurfa annars konar og meiri þjónustu en unnt er að veita á heimili fjölskyldna þeirra. Í tilfellum þessara barna þarf enn eitt úrræðið, sértæka búsetu. Þessi þjónusta er til staðar í Kópavogi en hana þarf að styrkja og koma á fagþekkingu innan bæjarins í þjónustu við börn með fjölþættan vanda.

Eitt sinn var Kópavogur kallaður “velferðarbærinn”. Við þurfum að endurvekja þá hugsun hér í bæ og leggja metnað í að byggja upp félagslega þjónustu með áherslu á sértækar leiðir þannig að fatlað fólk Í Kópavogi eigi kost á bestu þjónustu sem unnt er að veita á hverjum tíma til að koma til móts við sértækar stuðningsþarfir þess. Sú þjónusta á að vera veitt af opinberum aðilum ef þess er nokkur kostur. Velferð verður ekki einkavædd!

Kristín Sævarsdóttir
Skipar 7.sætið á framboðslista Samfylkingarinnar í Kópavogi

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar