Skammtímaveikindi minnka en langtímaveikindi aukast í leikskólum Kópavogs

Á fundi bæjarráðs Kópavogs 13. mars s.l. voru kynnt svör menntasviðs Kópavogsbæjar við fyrirspurn Bergljótar Kristinsdóttur bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar um leikskólamál í bænum. Fyrirspurnin snéri að þróun veikinda starfsfólks, áætlun um aldur barna við inntöku í leikskóla næstu tvö árin, afslætti á leikskólagjöldum og tekjuviðmið í reiknivél leikskólagjalda á vef Kópavogs.

Helstu niðurstöður úr svörum menntasviðs voru eftirfarandi.

  1. Þróun veikinda starfsfólks leikskóla
    • Skammtímaveikindi starfsfólks í leikskólum hafa minnkað úr 6,0% árið 2022 í 4,6% árið 2024 sem hlutfall af vinnutíma.
    • Langtímaveikindi hafa hins vegar aukist úr 1,62% árið 2022 í 1,87% árið 2024.
    • Innleiðing Kópavogsmódelsins, sem hófst haustið 2023, gæti haft áhrif á veikindatíðni, en of skammt er liðið til að fullyrða um áhrif þess á langtímaveikindi.

    2. Áætlun um aldur barna við inntöku í leikskóla næstu tvö árin

      • Úthlutun leikskólaplássa fyrir haustið 2025 er í undirbúningi, og mun skýrast á næstu vikum hver aldur yngstu barna verður við inntöku.
      • Áætlanir um inntöku ráðast af fjölmörgum þáttum, þar á meðal fæðingartíðni og íbúaþróun í Kópavogi.

      3. Leikskólagjöld og afslættir

        • Afsláttur af leikskólagjöldum er veittur vegna ýmissa aðstæðna.
        • Í mars 2025 fengu 263 foreldrar afslátt, þar af 113 starfsmannaafslátt og 150 tekjutengdan afslátt
        • Systkinaafsláttur var veittur fyrir 305 börn í leikskólum bæjarins.

        4. Tekjuviðmið í reiknivél leikskólagjalda

          • Tekjuviðmið í reiknivél leikskólagjalda á vef bæjarins eru rétt miðað við daginn í dag.
          • Ekki hefur verið tekin ákvörðun um breytingar á þeim á þessu stigi.
          Bergljót er ekki sátt við gjaldskrá leikskólanna, en hún telur stærstu áskorunina að koma yngri börnum inn á leikskólana

          Hefur áhrif á niðurstöður og sýnir sterka óánægju í þeim hópi 

          Kópavogpósturinn spurði Bergljótu hver tilgangurinn sé með þessari fyrirspurn um leikskólamálin í Kópavogi? ,,Í desember s.l. var kynnt könnun sem gerð var meðal foreldra leikskólabarna s.l. sumar þar sem spurt var um ánægju með ýmsa þætti sem snúa að þeirri breytingu sem gerð var á starfsemi leikskóla í Kópavogi árið 2023. Könnunin vakti upp fleiri spurningar hjá mér sem ég fékk nú svar við. Í könnuninni kom niðurstaða spurningar um heildaránægju foreldra ekki vel út en 57% voru ekki ánægð. Því þurfti að greina svörin betur. Stærsta breytan í þessu svari liggur í hækkuðum dvalarkostnaði. Þegar spurt var hvort breytingin hefði haft jákvæð fjárhagsleg áhrif á fjölskylduna voru 63% svarenda ósammála. 45% svarenda voru með 40 tíma eða meira í vistunartíma. Það hefur áhrif á niðurstöður og sýnir sterka óánægju í þeim hópi,“ segir Bergljót.

          Er ekki sátt við gjaldskrána

          Kópavogsmódelið var innleitt haustið 2023 og þú gagnrýndir það, á hvaða forsendum og finnst þér þessar niðurstöður styðja þitt mál? ,,Ég var hlynnt breytingum á starfseminni enda tel ég að miðað við aðstæður í dag með of fátt fagfólk til að reka alla þá leikskóla sem við þurfum, háa veikindatíðni, auknar kröfur um vinnutímastyttingu og undirbúningstíma stjórnenda þá varð að breyta fyrirkomulaginu til að tryggja órofið starfi innan leikskólanna. Flest hefur gengið eftir, þó ekki hvað varðar langtímaveikindi. En gjaldskrána er ég ekki sátt við,“ segir hún.

          Vill jafna byrðar greiðenda

          Viltu þá breyta gjaldkrá leikskólanna í Kópavogi? ,,Stuðningur minn við breytinguna var ekki síst vegna þess að með því fékk ég í gegn breytingu á tekjutengda afsláttarkerfinu. Bætt var við 50% afsláttarþrepi fyrir þá allra launalægstu. Af þeim sem þiggja tekjutengdan afslátt í dag eru 31% í þessu þrepi, að stærstum hluta einstæðir foreldrar. Þetta þýðir ekki að ég sé sátt við gjaldskrána eins og hún er í dag og hef margoft óskað eftir endurskoðun með það í huga að jafna byrðar greiðenda. Enginn vilji hefur verið til þess.“

          Það að koma ekki barni á leikskóla eftir fæðingarorlof er mikill streituvaldur hjá ungu fólki

          Hefurðu áhyggjur af þróun leikskólamála í Kópavogi og hvaða hugmyndir eða breytingar vilt þú sjá til að bæta leikskólamálin í Kópavogi? ,,Ég hef verulegar áhyggjur. Fyrir utan breytingu á gjaldskránni þá er okkar stærsta áskorun að ná inn yngi börnum. Börn sem voru 12 mánaða í ágúst 2024 fengu ekki inni á leikskóla og fá ekki inni fyrr en að ári liðnu þá tveggja ára gömul og sum eldri. Það að koma ekki barni á leikskóla eftir fæðingarorlof er mikill streituvaldur hjá ungu fólki í dag og hefur margvíslegar afleiðingar. Ekki hefur verið byggður leikskóli í Kópavogi síðan árið 2015 og er það löngu orðið tímabært. Þriggja deilda leikskóli á að opna í haust í Kársnesskóla sem mun sannarlega slá á mestu þörfina en opnunin stendur og fellur með mönnun. Mönnunarvandi er stærsta vandamál þessa skólastigs í dag og ætti að vera forgangsverkefni á öllum stjórnstigum að bregðast við því,“ segir Bergljót að lokum.

          Fram koma á fundi bæjarráðs í síðustu viku að bæjaryfirvöld í Kópavogi muni vinna áfram að stefnumótun í leikskólamálum og fylgjast grannt með þróun veikinda starfsfólks og inntökuskilyrðum barna. Eins og áður hefur komið fram benda niðurstöðurnar til þess að skammtímaveikindi hafi minnkað en langtímaveikindi aukist, á meðan er áfram unnið að bættu aðgengi barna að leikskólaplássum og auknum sveigjanleika í gjaldskrá.

          Mynd: Skammtímaveikindi starfsfólks á leikskólum Kópavogs hafa minnkað, en langtímaveikindi hafa hins vegar aukist á milli áranna 2022 og 2024

          Nýjustu greinarnar

          Tengdar greinar

          Vefkökur og persónuvernd

          Vefur kgp.is notast við vefkökur í þeim tilgangi að veita þér sem bestu upplifun þegar þú heimsækir okkur á vefnum.  Vefkökurnar eru vistaðar í vafranum þínum og þjóna m.a. þeim tilgangi að kerfið "þekkir þig" þegar þú kemur aftur á vefinn okkar.  Þannig þarftu t.d. ekki að fara aftur í gegnum samþykktarferlið fyrir vefkökur, ert ekki spurð(ur) aftur og aftur hvort þú vilt skrá þig á póstlista eða um aðra virkni sem þú hefur annað hvort samþykkt eða hafnað í fyrri heimsóknum o.fl. o.fl.

          Þú getur stillt vefkökurnar hér til vinstri.

          Með kærri kveðju,
          Starfsfólk KGP.is vefsins