Símamótið í 40 ár!

Það er hálf ótrúlegt að hugsa til þess að liðin séu 40 ár síðan fyrsta mótið sem Breiðablik hélt og hefur svo sannarlega margt þróast síðan þá. Það er ekki nóg með að mótið sé haldið í 40. sinn, heldur er Síminn einnig að styrkja mótið í 20. skipti og mætti því segja að um tvöfalt afmæli sé að ræða!

Það er því enn sem áður stór ástæða til að fagna, því það er ekki sjálfsagt að mót af þessari stærðargráðu geti farið fram ár eftir ár. Að baki því liggja óteljandi óeigingjarnar klukkustundir af hálfu sjálfboðaliða, mótsstjórnar og starfsfólks Símans sem kappkosta öll að gera mótið sem allra flottast fyrir stelpurnar okkar.

Ég man sjálf vel eftir mínu fyrsta Gull og Silfur móti árið 2002 þar sem Birgitta Haukdal spilaði á kvöldvökunni við ærandi fagnaðarlæti þátttakenda með fléttaða hausa og einnota myndavélar. Þó að fótboltaframi hafi seint verið á mínum persónulega markmiðalista var það alltaf hápunktur sumarsins að mæta á mótið þar sem var pláss fyrir okkur allar. Við hjá Símanum erum afskaplega lukkuleg með að taka þátt í að skapa þessa góðu stemningu og minningar sem hafa einkennt mótið í gegnum árin.

Við vonum að öll hafi fengið tækifæri að hlusta á Símamótslagið, Áfram stelpur (allar sigra), því við getum ekki beðið eftir að syngja það hástöfum með ykkur í Kópavoginum 11.-14. júlí!

Áfram stelpur!

Inga María Hjartardóttir
Verkefnastjóri Símamótsins hjá Símanum

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar