Símamótið er orðið risastórt vörumerki sem þúsundir stelpna munu minnast á um ókomna framtíð

Það er mikil spenna í loftinu á meðal nærri 3000 ungra knattspyrnustúlkna sem hefja leik á hinu árlega Símamóti Breiðabliks á morgun, en setning mótsins fer fram í kvöld og er reiknað með um 10-12 þúsund gestum í Smárann á meðan mótinu stendur.

Og það eru merk tímamót í ár því 40 ár eru liðin síðan Breiðablik setti þetta flotta mót af stað, en fyrsta mótið var haldið árið 1985. Upphaflega hét það Gull- og silfurmót Breiðabliks, en heitir í dag Símamót Breiðabliks eins og öllum er kunnugt um.

Kópavogspósturinn sló á þráðinn til Hlyns Höskuldssonar, formans barna- og unglingaráðs Breiðabliks til að forvitnast um mótið og undirbúning þess, en ásamt Hlyni heldur fríður hópur sjálfboðaliða utan um mótið, sem er ætlað stúlkum í 7., 6. og 5 flokki og árið 2021 var Litla Símamótið haldið í fyrsta sinn fyrir 8. flokk.

Símamótslagið er algjör negla

Eins og áður segir þá fagnar mótið 40 ára afmæli í ár og Hlynur var spurður að því hvort blásið yrði í einhverja lúðra af því tilefni? ,,Já, þetta er stór áfangi að halda mótið í fertugasta sinn. Símamótslagið sem er farið að hljóma um allt og er eitt af því sem ákveðið var að gera í tilefni afmælisins. Þetta lag er algjör negla og það kæmi mér ekki á óvart ef þetta yrði sumarsmellur ársins 2024. Á setningarathöfninni mætir svo íslenska kvennalandsliðið til að hvetja stelpurnar áfram. Fyrirliðinn okkar Glódís Perla mun svo sjá um að setja mótið þetta árið. Hver veit svo hvort landsliðstelpurnar okkar muni mæta á svæðið um helgina til að hitta á stelpurnar,” segir Hlynur.

Allir farnir að þekkja sitt hlutverk nokkuð vel

En hvernig hefur undirbúningur gengið fyrir þetta fertugasta Símamót og hvenær hófst hann? ,,Við hefjum í raun og veru undirbúninginn að næsta móti um leið og við klárum það síðasta en síðan tökum við okkur pásu fram yfir áramót. Fljótlega eftir það byrjar skipulagningin að aukast hægt og þétt. Við búum svo vel við að vera með teymi foreldra ásamt starfsfólki Breiðabliks sem er búið að gera þetta nokkrum sinnum þannig að allir eru farnir að þekkja sitt hlutverk nokkuð vel. Því verður skipulagningin auðveldari. Við fundum reglulega og förum yfir skipulagið og fundirnir verða svo oftar og reglulegri eftir því sem nær dregur mótinu. Þegar mótið sjálft fer af stað þá er það eins og stór bolti. Okkar hlutverk í mótsstjórn er svo bara að stýra honum í mark.”

Hvað er það helst sem þarf að hafa í huga þegar svona stórt og fjölmennt mót er skipulagt? ,,Það er erfitt að nefna eitthvað eitt þegar svona stórt mót er skipulagt. Við byrjum á því að rýna síðasta mót og skoða hvort það sé eitthvað sem við getum bætt. Það er alltaf eitthvað sem við getum lagað eða reynt að laga. Síðan þarf að passa að ákveðnar mikilvægar stöður séu mannaðar. Oft er þetta fólk sem hefur verið lengi með sinn verkþátt ef svo mætti segja. Á þetta t.d. við þau sem stýra mótakerfinu og dómaramálum, hlutum sem mega alls ekki klikka. En í raun og veru er öll sjálfboðavinnan ómissandi, hvort sem það er að sjá um skólana, tjald-svæðið, öryggisgæslu eða hreinlega að halda svæðinu hreinu. Allt miðar þetta að því að láta mótið rúlla snuðrulaust og að þátttakendur og gestir séu ánægðir.”

Farið yfir málið á fundi Símamótsnefndar sl. mánudag

Og það eru um 3000 þúsund þátttakendur á mótinu en þið gerið ráð fyrir miklu fleiri gestum í Smárann og Fagralund þessa daga? ,,Já heldur betur. Það má vel margfalda þessa tölu með að minnsta kosti tveimur á föstudeginum og með þremur til fjórum á laugardegi og sunnudegi því þá koma ömmur og afar og aðrir aðstandendur líka til að horfa á. Það er því nokkuð álag á þá íbúa Kópavogs sem búa nálægt mótssvæðinu. Þeir hafa sem betur fer skilning á því og eru orðnir nokkuð vanir enda hefur þetta verið á þessum árstíma í 40 ár.”

Um 450 lið frá 40 félögum og rúmlega 1600 leikir

Hvað eru mörg félög sem taka þátt á mótinu og hvað mörg lið í heildina og leikir? ,,Þetta eru um 400 lið frá um 40 félögum. Síðan eru spilaðir rúmlega 1600 leikir. Þetta eru rosalega stórar tölur þegar maður segir þetta upphátt.”

Erum mjög þakklát fyrir framlag hvers og eins – 450 foreldravaktir

Og þið hljótið að þurfa öflugan hóp af sjálfboðaliðum til að halda utan alla dagskrána. Hvað eru þetta margir sjálfboðaliðar og dómarar sem taka þátt og hjálpa til á mótinu? ,,Þetta eru um 450 foreldravaktir sem við þurfum að manna. Einnig þarf að manna dómara á 1600 leiki. Hluti af foreldravöktunum manna dómgæslu, krakkar úr 2.- 4.flokk dæma, meistarflokkar dæma og síðan er stór hópur eldri Blika sem mætir ár eftir ár til að fá að dæma leiki á mótinu. Það er rétt sem þú segir ef það væri ekki fyrir allan þennan hóp foreldra og aðstandenda sem kemur að þessu þá væri þetta hreinlega ekki hægt. Við erum því mjög þakklát fyrir framlag hvers og eins,” segir Hlynur.

Sjúkravakt mönnuð heilbrigðisstarfsfólki sinnir minniháttar hnjaski

En hvernig gengur að fá allt þetta fólk til starfa og er hlutverk þeirra fjölbreytt? ,,Foreldrar sem skrá sig fyrir vöktum fá ákveðna niðurgreiðslu á æfingargjöldum, þannig hefur það verið hjá okkur í Breiðablik í mörg ár. Hlutverkin eru svo eins mörg og þau eru ólík. Vaktirnar geta verið frá því að dæma leiki, aðstoða við morgunmat í skólum, skrásetja úrslit, pakka og afhenda mótsgjöfunum, grilla á kvöldvöku, tryggja örugga aðkomu neyðartækja inn á svæðið ásamt mörgum öðrum verkefnum. Við erum t.d. sjúkravakt sem er mönnuð heilbrigðisstarfsfólki til að sinna minniháttar hnjaski.”

Persónulega finnst mér þessi umræða um æsta foreldra fá alltof mikið vægi

Og eins og í fyrra þá ætlið þið að leggja mikla áherslu á dómaramálin og á foreldra sem eiga það sumir hverjir til að gleyma sér á hlíðlínunni og vera nöldrandi í dómaranum og jafnvel í andstæð- ingunum. Ætlið þið að beita bleika spjaldinu í ár og hvernig gekk það í fyrra? ,,Dómararnir eru með bleika spjaldið og verða í bleikum bolum með ákveðnum skilaboðum eins og í fyrra. Þetta gekk allt mjög vel í fyrra. Persónulega finnst mér þessi umræða um æsta foreldra fá alltof mikið vægi. Það eru að minnsta kosti 6000 aðstandendur sem mæta á svæðið til að horfa á stelpurnar sínar. Síðan eru kannski teljandi á fingrum beggja handa þeir sem fara fram úr sér. Það eru allir hinir foreldrarnir og aðstandendur sem gera mótið að skemmtilegari upplifun. Mér er minnistætt atvik sem ég sá í fyrra. Það var lið sem hafði tapað líklegast flestum leikjum. Í staðinn fyrir að hengja haus og svekkja sig þá bjuggu foreldrarnir til þvílíkt jákvæða stemningu þannig að stelpunum fannst eins og þær hefðu unnið mótið. Þær voru skælbrosandi og glaðar. Framkoma foreldra og aðstandenda skiptir miklu máli og lang flest eru til fyrirmyndar. Gleymum því ekki í þessari umræðu allri.”

Símamótslagið verður frumflutt „live“ í fyrsta skiptið af Siggu Ósk

Og Símamótið er ekki bara fótboltaleikir því þið verðið m.a. með skemmtidagskrá á kvöldin, hvað verður í boði þar, og svo verður ýmislegt annað í gangi á keppnisstöðunum í Smáranum og í Fagralundi? ,,Setningarathöfnin er í kvöld, fimmtudag og hún verður glæsileg að vanda þar sem Símamótslagið verður frumflutt „live“ í fyrsta skiptið af Siggu Ósk. Á laugardeginum byrjum við um kl. 17 með grillveislu í Fagralundi og í Smáranum. 5. flokkur í Fagralundi skellir sér svo í Smárabíó. Eftir grillveisluna í Smáranum verður kvöldvaka þar sem afhent verðar háttvísisverðlaun KSÍ og stuðboltarnir í VÆB halda uppi fjörinu. Símabíllinn verður á svæðinu yfir helgina með eitthvað spennandi og Fótboltaland býður upp á skemmtilega leiki á báðum svæðum. Spurningakeppni flokka verður í gangi og á laugardagskvöldi verða dregnir út veglegir vinningar frá ýmsum styrktaraðilum.”

Samstarf Breiðabliks og Símans við að efla veg og virðingu kvennafótboltans á Íslandi hefur gengið rosalega vel

Þið hafið verið í góðu samstarfi við Símann undanfarin 20 ár – og þetta samstarf og þátttaka Símans er ykkur mikilvægt? ,,Eins og kom fram hér í upphafi þá hét mótið fyrst Gull og Silfur mótið og var þannig í mörg ár. Síðan kom tímabil þar sem þetta var kallað Gullmót Járnbendingar. Undanfarin 20 ár hefur þetta verið Símamótið. Samstarf Breiðabliks og Símans við að efla veg og virðingu kvennafótboltans á Íslandi hefur gengið rosalega vel. Símamótið er orðið risastórt vörumerki sem þúsundir stelpna munu minnast á um ókomna framtíð. Síðan má ekki gleyma öðrum styrktaraðilum og síðast en ekki síst Kópavogsbæ og þeirra starfsmönnum en án þeirra væri þetta varla framkvæmanlegt.”

Bara gleði og gaman

Og þið sem komið að mótinu hlakkar væntanlega til helgarinnar og fá að upplifa stemmninguna enda sjálfsagt landsliðskonur framtíðarinnar að etja kappi á mótinu? ,,Já við hlökkum mikið til enda er þetta hápunktur sumarsins hjá Breiðabliki. Þó þetta sé gríðarlega mikil vinna fyrir þá sem koma að mótinu þá er þetta rosalega gaman og þess vegna er þetta mikið sama fólkið sem kemur að því að skipuleggja og stýra mótinu ár eftir ár. Gleðin sem ríkir er algjör því eins og segir í Símamótslaginu þá tapa sumar, aðrar jafna en allar sigra og út á það gengur þetta. Bara gleði og gaman,” segir Hlynur fullur eftirvæntingar.

Forsíðumynd. ,,Þetta eru um 400 lið frá um 40 félögum. Síðan eru spilaðir rúmlega 1600 leikir. Þetta eru rosalega stórar tölur þegar maður segir þetta upphátt,“ segir Hlynur

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar