Fjórir grunnskólar, frístundir og félagsmiðstöðvar undirrituðu sl. fimmtudag samning við UNICEF um innleiðingu réttindaskóla, réttindafrístund og réttindafélagsmiðstöð. Á forsíðumyndinni eru fulltrúar frá Álfhólsskóla, Kópavogsskóla, Lindaskóla og Smáraskóla sem munu allir hefja innleiðingu á næstunni.
Réttindaskóli UNICEF (e. Child Right Schools) er hugmyndafræði og hagnýtt verkefni fyrir skóla- og frístundastarf sem tekur mið af samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, Barnasáttmálanum eins og hann er iðulega nefndur, og miðar að því að auka virðingu, vernd og framkvæmd mannréttinda. Skólar, frístundaheimili og félagsmiðstöðvar sem vinna verkefnið leggja sáttmálann til grundvallar í öllu starfi sínu; skipulagningu, stefnumótun og starfsháttum.
Markmið Réttindaskóla er að byggja upp lýðræðislegt umhverfi með því að rækta með markvissum hætti þekkingu, leikni og viðhorf sem hjálpar börnum að verða gagnrýnir, virkir og hæfir þátttakendur í nútímasamfélagi. Með þetta að markmiði eru grunnforsendur Barnasáttmálans útgangspunktur fyrir allar ákvarðanir í skóla- og frístundastarfi auk þess sem þær endurspeglast í samskiptum barna, ungmenna, kennara, frístundaráðgjafa og annars starfsfólks.
FIMM MÆLANLEG LANGTÍMAMARK-MIÐ RÉTTINDASKÓLA UNICEF ERU:
Aukin þekking á mannréttindum – starfsfólk og börn auka þekkingu sína á réttindum barna.
Lýðræði – börn fá reglubundin tækifæri til þess að taka þátt í ákvarðanatöku.
Eldmóður fyrir mannréttindum – börn eru hvött til þess að beita sér fyrir réttindum sínum og annarra.
Forsendur Barnasáttmálans hluti af daglegu starfi – stjórnendur vinna með markvissum hætti að því að gera sáttmálann að viðmiði í stjórnsýslu skóla- og frístundastarfs.
Samstarf – samstarf skóla við alla sem koma að uppeldi barnsins með það að markmiði að raungera réttindi barnsins.
Í Réttindaskólum UNICEF notum við hugtakið heildarskólanálgun (e. Whole School Approach) til þess að skýra hugmyndafræði verkefnisins, en hún skiptist í fjögur skref sem lýsa heildrænni nálgun á innleiðingu réttinda barna í skólastarfið.
Fyrsta skref er að börnin njóti þeirra réttinda að mennta sig.
AÐ LÆRA ERU RÉTTINDI
Skref tvö er að börn og fullorðin þekki og læri um réttindi barna.
AÐ LÆRA UM RÉTTINDI
Í skrefi þrjú læra börn um réttindi sín í umhverfi sem styður við réttindi þeirra. AÐ LÆRA Í RÉTTINDAUMHVERFI Lokaskrefið er að börn iðki réttindi fyrir sig sjálf og aðra.
AÐ LÆRA AÐ IÐKA RÉTTINDI
Rétt er að taka fram að Snælandsskóli hefur þegar fengið viðurkenningu sem réttindaskóli/frístund/félagsmiðstöð og Vatnsendaskóli fær viðurkenningu núna í nóvember.