Til þess að tryggja jafnt tímanlegt aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag og búsetu er mikilvægt að semja um alla nauðsynlega heilbrigðisþjónustu. Án samninga við stofnanir og fagfólk, er hætta á að tekjulægri hópar neyðist til að neita sér um nauðsynlega þjónustu. Samningar gefa okkur jafnframt frekari tækifæri til að skipuleggja þjónustuna heildstætt, tryggja samfellu og stuðla að bættum gæðum og öryggi.
Samningar við sérfræðilækna
Búið er að semja við sérfræðilækna til fimm ára sem batt enda á langt samningsleysi með ofangreindum neikvæðum afleiðingum. Samningurinn tryggir aukna greiðsluþátttöku og sparar heimilunum um það bil 3 milljarða á ári. Samningnum er jafnframt ætlað að styðja við framþróun í þjónustu sérfræðilækna með sérstakri áherslu á nýsköpun, stafræna þróun og fjarheilbrigðisþjónustu til að gera hana aðgengilegri óháð búsetu.
Samið við sjúkraþjálfara
Í kjölfarið tókust samningar við sjúkraþjálfa til fimm ára sem einnig höfðu verið samningslausir í lengri tíma með framangreindu óhagræði. Með samningnum lækkaði kostnaður þeirra sem sækja sér þjónustuna og öll aukagjöld sem lögð höfðu verið á þjónustuþega felld niður.
Þjónusta sjúkraþjálfara er okkur mikilvæg og umfangsmikil en rúmlega 62.000 einstaklingar nýttu þjónustu sjúkraþjálfara í fyrra. Við þekkjum það hversu mikilvægu hlutverki sjúkraþjálfarar gegna á mjög víðtæku sviði endurhæfingar. Ljóst er að bætt aðgengi að þjónustu sjúkraþjálfara dregur úr álagi annars staðar í heilbrigðiskerfinu og hafa jákvæð áhrif á fjölda Íslendinga.
Samningur við tannlækna og tannréttingasérfræðinga
Það voru ánægjuleg tímamót þegar fyrsti heildarsamningur um tannlækningar var undirritaður. Samningurinn tryggir greiðsluþátttöku hjá tannlæknum fyrir börn, aldraða og öryrkja til næstu fimm en einnig fjölgaði meðferðum sem greiddar eru af Sjúkratryggingum.
Samhliða samning um tannlækningar þá var gerður tímamótasamningur um tannréttingar og þjónustu tannréttingasérfræðinga. Samningurinn er sá fyrsti sem gerður eru um þjónustuna hér á landi og fól m.a. í sér nær þreföldun á styrk vegna almennra tannréttinga. Með samningnum hækkuðu styrkir til tannréttinga úr 150.000 kr í 430.000 kr. sem leiðir af sér aukið og jafnara aðgengi að þjónustunni, óháð efnahag.
Lýðheilsutengdar aðgerðir
Búið er að ljúka samningsgerð vegna lýðheilsutengdra aðgerða. Samningarnir gilda til áramóta en áfram er unnið að samningum til lengri tíma. Lýðheilsutengdar aðgerðir eru aðgerðir sem teljast ekki til bráðaaðgerða heldur eru valkvæðar þannig að hægt er að skipuleggja þær fram í tímann s.s. liðskiptiaðgerðir á hné og mjöðm, kviðsjáraðgerðir vegna endómetríósu, bakaðgerðum vegna brjóskloss og þrenginga í mænugöngum og augasteins aðgerðum.
Þessar aðgerðir eiga það sammerkt að geta komið einstaklingum aftur til heilsu og í samfélagslega virkni, og það er verðugt takmark í sjálfu sér. Það eru sameiginlegir hagsmunir samfélagsins, bæði efnahagslegir og félagslegir, að tryggja tímanlegt aðgengi að slíkri þjónustu sem veitt er á réttu þjónustustigi og styður við virkni einstaklingsins í samfélaginu.
Samhliða auknum afköstum og auknu aðgengi að þjónustunni innan íslenska heilbrigðiskerfisins hefur t.a.m. þeim sem leitað hafa út fyrir landsteinana í liðskiptaaðgerð, á grundvelli biðtímaákvæðis EES-samningsins um heilbrigðisþjónustu yfir landamæri, fækkað um rúmlega helming. Það er jákvæð þróun í samhengi við áherslur okkar í Framsókn um skilvirkni og hagkvæmni.
Þessir samningar skipta máli
Íslenska heilbrigðiskerfið byggir á félagslegum grunni þar sem jafnt aðgengi allra landsmanna að heilbrigðisþjónustu, óháð efnahag eða búsetu, er tryggt og um það ríkir samstaða í íslensku samfélagi. Það er og hefur verið stefna Framsóknar að lækka greiðsluþátttöku almennings vegna heilbrigðisþjónustu og tryggja jafnt og tímanlegt aðgengi. Með samningum sköpum við faglega umgjörð um heilbrigðisþjónustu á sama tíma og við tryggjum jafnræði í aðgengi að henni.
Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra og oddviti Framsóknar í Suðvesturkjördæmi