Stjórn handknattleiksdeildar HK hefur samið við þá Sebastían Popovic Alexandersson og Guðfinn Kristmannsson um að vera þjálfarar meistaraflokks karla til næstu þriggja ára og er samningurinn óuppsegjanlegur að beggja hálfu.
Sebastían er öllum handbolta áhugamönnum vel kunnugur enda einn litríkasti karakter sem spilað hefur handbolta hér á landi. Hann er fyrrum landsliðsmaður í handbolta og var um árabil einn albesti markmaður efstu deildar. Hann lék m.a. með ÍR, UMFA, Fram og Selfossi. Sebastían varð bikarmeistari með Fram árið 2000 eftir sigur á Stjörnunni og var að leik loknum kosinn maður leiksins. Hann hefur þjálfað meistaraflokka hjá Selfoss, Stjörnunni og Fram frá árinu 2003 með góðum árangri, einnig kom hann á fót hinni margrómuðu handbolta-akademíu FSU sem framleitt hefur marga af núverandi fastamönnum íslenska landsliðsins.
Guðfinnur er fyrrum atvinnumaður og landsliðsmaður í handbolta sem lengi vel var einn besti varnarmaður deildarinnar. Hann er borinn og barnfæddur Eyjamaður sem hefur spilað yfir 200 leiki fyrir ÍBV. Hann lék einnig með ÍR við góðan orðstír hér á landi. Guðfinnur var partur af liði ÍBV sem vann fyrsta bikarmeistaratitil í sögu félagsins árið 1991 eftir sigur á Víkingi þar sem hann fór á kostum og var besti maður vallarins. Hann lék sem atvinnumaður með Wasaiterna Handboll í efstu deild sænska handboltans þar sem hann var fyrirliði ásamt því að þjálfa liðið seinna meir.
Hann þjálfaði meistaraflokk karla hjá Gróttu tímabilið 2011-2012 og hefur einnig starfað hjá ÍR, FH og Stjörnunni og nú síðast hjá Fram þar sem hann og Sebastían hafa unnið frábært starf.
Handknattleiksdeild HK hlakkar mikið til samstarfsins og telur þá vera best til þess fallna að koma á stöðugleika hjá liðinu og festa HK í sessi í Olís-deildinni.