Samfélagsverkefnið Velkomið er ætlað að efla andlega, félagslega og líkamlega heilsu barna sem hafa annað móðurmál en íslensku

Í félagsmiðstöðinni Kjarnanum í Kópavogsskóla hefur samfélagsverkefnið Velkomin verið starfrækt síðan árið 2018. Verkefnið er ætlað börnum í Kópavogi á aldrinum 10-18 ára sem hafa fjölbreyttan tungumála- og menn-ingarlegan bakgrunn og er námskeiðinu ætlað að efla andlega, félagslega og líkamlega heilsu barnanna.

Vigdís Birna Grétarsdóttir, frístundaleiðbeinandi í Kjarnanum er flokkstjóri á sumarnámskeiði Velkomin í sumar. Þetta er þriðja sumarið sem að Vigdís vinnur á námskeiðinu en hún hefur einnig starfað í gegnum Velkomin í starfi félagsmiðstöðva í Kópavogi.

Kópavogspósturinn spurði hana nánar um þetta áhugaverða verkefni.

Rík áhersla lögð á að viðurkenna og virða fjölbreytileikann

,,Velkomin er ætlað að efla andlega, félags-lega og líkamlega heilsu barna, sem miðar að því að hvetja börn með einstaklingsbundnum hætti til þátttöku í samfélaginu í gegnum íþrótta- og frístundastarf og þannig virkja og valdefla þau og hjálpa til við aðlögun þeirra inn í skóla, íþrótta- og frístundastarf og samfélagið allt. Á sama tíma er markmiðið að fræða börn með íslensku sem sitt móðurmál um fjölmenningu og efla hæfni þeirra er snýr að menningarnæmi sem gerir þeim kleift að bregðast við af virðingu og sam-kennd gagnvart fólki, til dæmis af ólíkum uppruna, þjóðernum, menningu og trúar-brögðum,“ segir Vigdís og bætir við: ,,Í gegnum Velkomin er lögð áhersla á inngildingu nemanda þar sem rík áhersla er lögð á að viðurkenna og virða fjölbreyti- leikann og gera alltaf ráð fyrir honum í öllu starfi með börnum. Í Velkomin býðst þátttakendum einnig íslenskukennsla í gegnum óformlegt nám í skemmtilegu og uppbyggilegu umhverfi. Kennslan fer fram með fjölbreyttum leiðum, leiklist, hópastarfi og fræðslu um menningarheima þátttakenda. Í kennslunni er m.a. unnið með þátttakendum í gegnum virk og markviss samskipti.“

Það kemur alltaf eitthvað af sömu krökkunum til okkar sumar eftir sumar og það er alveg frábært að fá að fylgjast með þeim. Maður sér þvílíkan mun á krökkunum eftir að þau byrja hjá okkur og þá sérstaklega þegar maður hittir þau sumarið eftir segir Vigdís Birna.

Meiri tenging við kennara, starfsfólk frístundaþjónustu og þjálfara íþróttafélaga

Auk þess að hafa starfað á sumarnám- skeiðum og félagsmiðstöðvaopnunum Velkomin hefur Vigdís nýlega tekið við hlutverki Íþrótta-og frístundatengils í gegnum Velkomin verkefnið og mun fylgja því starfi eftir inn í haustið. Velkomin verkefnið fékk nýverið styrk frá Mennta- og barnamálaráðuneytinu til þess að þróa starf Íþrótta- og frístundatengils. Markmiðið með þessum styrk og þróun á verkefninu er að leggja áherslu á stuðning og eftirfylgni með krökkunum og fjölskyldum þeirra. ,,Við höfum séð það með verkefni eins og Velkomin að það er mjög mikilvægt að geta haft skilgreindan aðila sem aðstoðar og fylgir barninu, ungmenninu og fjölskyldu þess vel eftir við aðlögun inn í skóla, frístundir, íþróttir, nám og atvinnu. Með þróun á verkefninu yrði það mikilvæg viðbót við samþættingu þjónustu við móttöku barna og ungmenna sem hafa fjölbreyttan tungumála- og menningarlegan bakgrunn í Kópavogi. Íþrótta- og frístundatengill mun starfa að mestu leyti innan skóla, frístundaþjónustu á vegum Kópavogsbæjar og íþróttafélaga, og þannig kemst á meiri tenging við kennara og starfsfólk frístundaþjónustu og þjálfara íþróttafélaga.“

Vigdís segir að Kópavogsbær hafa innleitt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og það sé annað tveggja sveitarfélaga á Íslandi sem hefur fengið viðurkenningu sem Barnvænt sveitarfélag. ,,Barnvæn sveitarfélög vinna markvisst að því að upp- fylla réttindi barna og ungmenna og Velkomin verkefnið er einstaklega gott dæmi um slíka vinnu,“ segir hún.

Mikil margföldun á þátttakendum

Hvað eru margir þátttakendur í verkefninu og hvernig hefur það gengið? ,,Velkomin verkefnið fór fyrst á stað árið 2018 og boðið upp á 4 vikna sumarnámskeið fyrir bæði börn á miðstigi og unglingastigi. Þátttakendum hefur fjölgað ár frá ári, og síðasta sumar tvöfaldaðist fjöldinn miðað við árið á undan. Í samvinnu við Vinnuskóla Kópavogs fáum við um hóp af unglingum með íslensku sem sitt tungumál í 10. bekk og 1. ári framhaldsskóla, og í gegnum Velkomin öðlast þau dýpri skilning á ólíkum menningarheimum, fjölmenningu og þjálfast í umhverfi þar sem virðing fyrir öðrum er höfð að leiðarljósi. Það að það sé svona mikil eftirspurn á námskeiðið segir okkur bara hvað það er mikil þörf á þessu verkefni,“ segir Vigdís.

Mikill munur á krökkunum eftir að þau byrja í verkefninu

Hvernig finnst þér upplifun krakkanna vera af verkefninu og hefur þetta hjálpað þeim að aðlagast betur er kemur að skóla-, íþrótta- og tómstundastarfi? ,,Það kemur alltaf eitthvað af sömu krökkunum til okkar sumar eftir sumar og það er alveg frábært að fá að fylgjast með þeim. Maður sér þvílíkan mun á krökkunum eftir að þau byrja hjá okkur og þá sérstaklega þegar maður hittir þau sumarið eftir. Við höfum til dæmis séð dæmi um þátttakanda sem byrjaði að æfa fimleika í gegnum Velkomin námskeiðið, og er núna byrjuð að æfa hópfimleika hjá Gerplu og farin að keppa með þeim. Við höfum verið í góðu samstarfi við íþróttafélögin í Kópavogi og m.a. farið í heimsóknir til þeirra á sumar námskeiðinu og félagsmiðstöðinni,” segir hún.

Krakkarnir á æfingu hjá Gerplu

Skiptir máli að fá að æfa sig í íslenskunni í öruggu umhverfi

,,Það eru svo margar svona sögur af námskeiðinu, ekki bara af krökkum sem að fara að æfa íþróttir sem að við kynntum fyrir þeim. Heldur líka krökkum sem að þorðu ekki að æfa sig að tala á íslensku af því að þeim fannst það svo vandræðalegt. Svo koma þau á námskeiðið og kynnast krökkum í sömu sporum, byrja að æfa sig að tala og koma síðan aftur næsta sumar búin að taka risastökk í íslenskunni. Það skiptir svo miklu máli fyrir krakkana að fá að æfa sig í íslenskunni í öruggu umhverfi og hitta aðra krakka sem að hafa verið eða eru í sömu sporum og þau. Þetta er svo ótrúlega stór hluti af því að þau þori að taka þessi skref að fara að æfa sig í íslenskunni, þori að eignast vini og taki þátt í íþrótta-, frístunda- og skólastarfi,” segir Vigdís.

Krakkarnir ótrúlega ólík og skemmtileg

Og er ekki skemmtilegt og gefandi að vinna í þessu verkefni með krökkunum? ,,Mér finnst þetta náttúrulega alveg dásamleg vinna. Krakkarnir eru svo ótrúlega ólík og skemmtileg, enda eru þau á aldrinum 10-18 ára og frá allskonar mismunandi löndum og menningarheimum. Það eru svo mikil forréttindi að fá að fylgjast með þeim og styðja við þau þegar þau eru að stíga þessi skref hvort sem að þau eru nýflutt til landsins eða hafa verið hérna lengur og eru orðnar fyrirmyndir fyrir hina krakkana.”

Vonast til að geta stækkað verkefnið

,,Í gegnum starf félagsmiðstöðvanna í Kópavogi erum við komin með heilsársstarf fyrir unglingana. En markmiðið er auðvitað að geta verið með heilsársstarf fyrir miðstigið líka. Eftirfylgni og stuðningur við börnin skiptir miklu máli, sem að er einmitt það sem við erum að vonast til að ná í gegn með betur með stöðu Íþrótta- og frístundatengils tengt styrknum sem við fengum nýverið frá Mennta- og barnamálaráðuneytinu,” segir hún.

Draumurinn að virkja Velkomin verkefnið inn í leikskólana og í starfi með eldra fólki

,,Draumurinn væri auðvitað að ná að virkja Velkomin verkefnið inn í leikskólana og í starfi með eldra fólki. Þetta er hópur sem að er sívaxandi og það er mikilvægt að við styðjum við þau, en reynslan hefur sýnt okkur hvað það er mikilvægt til að aðlagast á sem farsælastan hátt,” segir Vigdís að lokum.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar