Reiknað með að íbúar Kópavogs verði 46 þúsund árið 2030

Á síðasta fundi bæjarráðs var lögð fram drög að húsnæðisáætlun fyrir Kópavogsbæ fram til ársins 2030 og er þar m.a. áætlað að íbúar verði um 46.000 árið 2030 og að íbúum muni fjölga um 3.900 frá 2019 til 2030.

Forsendur fyrir mannfjöldaspá

Íbúar í Kópavogi voru um 37.000 í upphafi árs 2019 og þann 1. september sl. voru íbúar í Kópavogi orðnir 39.520. Í Aðalskipulagi Kópavogs 2019- 2040 er uppbyggingu skipt upp annars vegar til 2030 og hins vegar frá 2031 til framtíðar (2040/ óskilgreinds tíma). Miðað er við um 2.5 íbúa í nýjum íbúðum frá 2019. Miðað er við að íbúum fjölgi um 1.9% að jafnaði að ári til ársins 2030 og að íbúar verði þá um 46.000 talsins. Áætlaðar eru um 3.900 nýjar íbúðir frá 2019-2030.

Í húsnæðisáætluninni er í lágspá gert ráð fyrir fjölgun íbúa um 1% á ári þar sem fjölgunin verði tæp 11% fram til ársins 2031. Í miðspánni er áætlað að íbúum fjölgi um 2% á ári og heildarfjölgun á sama tímabili verði um 22%.

Háspá gerir ráð fyrir um 2,3% fjölgun íbúa sem er sú þróun sem hefur verið að meðaltali sl. 10 ár og fjölgun íbúa verði tæplega 26% fram til ársins 2031. Í háspánni er einnig gert ráð fyrir að íbúum í hverri íbúð fækki úr 2,6 eins og er nú í 2,5 í samræmi við aðalskipulag.

Lýsing á atvinnuástandi

Nýta skal miðlæga legu Kópavogs og tengsl við stofnbrautakerfi höfuðborgarsvæðisins til uppbyggingar svæðiskjarnans í Smáranum í Kópavogi. Einnig eru áform um uppbyggingu og þéttingu bæjarkjarnans í Hamraborg. Þar er gert ráð fyrir auknum fjölda íbúða og verslunar- og þjónustustarfsemi á nýju þróunarsvæði. Slíkt gerir bæinn ákjósanlegan fyrir atvinnulíf og þjónustu. Fyrirtæki, stofnanir í verslun og þjónustu svo og ríkisfyrirtæki með almannaþjónustu, sem jafnan leita slíkra svæða, eru hvött til að hefja starfsemi í Kópavogi og stuðla þar með að öruggri og hraðri uppbyggingu í miðju höfuðborgarsvæðisins

Markmið Kópavogs varðandi íbúðauppbyggingu

Leitast verður við tryggja fjölbreitt framboð húsagerða og búsetukosta fyrir alla félagshópa. Allir geti orðið sér úti um fullnægjandi og öruggt húsnæði á viðráðanlegu verði.
Þétting byggðar fyrir íbúðir er skilgreind á þróunarsvæðum þar sem lögð er áhersla á blandaða land- notkun íbúða og atvinnu- og/eða miðbæjarstarfsemi.

Gert er ráð fyrir að stærsti hluti nýbygginga næstu ára verði fjölbýlishús. Lögð er áhersla á uppbyggingu 1-2 og 3 herbergja íbúða skv. áætlunum sveitarfélgasins þar sem íbúðastærð er minni en 90 m2.

Markmið sveitarfélagsins í lóðamálum

Gert er ráð fyrir að stærsti hluti nýbygginga næstu ára verði fjölbýlishús. Lögð er áhersla á uppbyggingu 1-2 og 3 herbergja íbúða skv. áætlunum sveitarfélgasins þar sem íbúðastærð er minni en 90 m2.
Áhersla er lögð á að ljúka uppbyggingu þegar deiliskipulagðra hverfa og þétta byggðina í bænum svo að hverfin verði sjálfbærari og að íbúar þurfi ekki að fara langa leið til að sækja þjónustu.

Bæjarráð samþykkti að vísa erindinu til afgreiðslu bæjarstjórnar.

Mynd: Áform eru um uppbyggingu og þéttingu bæjarkjarnans í Hamraborg. Þar er gert ráð fyrir auknum fjölda íbúða og verslunar- og þjónustustarfsemi á nýju þróunarsvæði

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar