Reebok Fitness segir upp leigunni í sundlaugum Kópavogs

Gym heilsa mun skoða að bjóða í reksturinn að nýja

Reebok Fitness hefur látið bæjaryfirvöld í Kópavogi vita að það ætli ekki að nýta sér heimild í núverandi samning um að framlengja samning sinn um tvö ár, til 31. ágúst 2023, um rekstur og útleigu á líkamsræktaraðstöðu í sundlaugum Kópavogs, en núverandi samningur rennur út 31. ágúst nk.

Bæjarráð frestar erindinu um nýtt útboð
Á síðasta fundi bæjarráðs var lagt fram erindi deildastjóra íþróttadeildar Kópavogs þar sem óskað var eftir heimild bæjarráðs til að bjóða út í opnu útboði rekstur og útleigu á líkamsræktaraðstöðu í Sundlaug Kópavogs og Salalaug. Bæjarráð samþykkti að frestaði erindinu til næsta fundar.

Kjartan Hallkelsson eigandi Gym heilsu mun skoða þann möguleika að taka þátt í útboðinu ef af því verður en bæjarráð frestaði ákvörðun sinn um útboð á síðasta fundi ráðsins

Margir sakna okkar

Kjartan Hallkelsson, eigandi Gym heilsu ehf var með reksturinn í sundlaugum Kópavogs í 18 ár áður en Reebok Fitness tók við honum árið 2016 eftir útboð. Nú eru fimm ár síðan að þið hjá Gym heilsu þurftuð að hætta rekstri heilsurækta í sundlaugum bæjarins, hvað er að frétta af fyrirtækinu? ,,Við erum enn að reka nokkrar stöðvar tengdum sundlaugum og það gengur virkilega vel. Við erum á sömu kennitölunni og frá upphafi og reksturinn hefur alltaf verið réttu megin við núllið öll þau 23 ár sem ég hef verið rekstrarstjóri fyrirtækisins,“ segir Kjartan og bætir við: ,,Það er greinilegt að margir sakna okkar, en það er gríðarlegur fjöldi fólks sem stundaði ræktirnar í Kópavogi sem hefur haft samband við okkur og segist sakna þjónustannar okkar.“

Það var sárt að fara

Það gekk mikið á þegar þið hættuð rekstri í sundlaugum bæjarins 2016 í kjölfar útboðs bæjains? ,,Já, það er óhætt að segja það og það var sárt að þurfa að fara því það var alls ekki vilji okkar né fólksins sem stóð með okkur í baráttunni. Það er ansi grátlegt að byggja upp fyrirtæki í 18 ár og leggja líf sitt í það og svo kemur útboð þar sem skilmálarnir eru á þá leið að eingöngu má bjóða í með nýjum tækjum,“ segir hann en Gym heilsa var búin að fjárfesta jafnt og þétt öll árin og hefði viljað nota sirka helminginn af tækjum sínum áfram enda algjör sóun að gera það ekki. ,,Við vorum því í raun í verri stöðu en samkeppnisaðilar okkar þegar kom að útboðinu. Þá bíður sig inn reynslulítill aðili sem þarf að fjárfesta gríðarlega. Svo kemur á daginn eins og við vissum því miður allan tímann að dæmið gengi ekki upp og Kópavogsbær situr nú uppi með mikið tekjutap og óvissu og í raun er búið að eyðileggja alla þá uppbyggingu og vinnu sem við lögðum í stöðvarnar öll þessi ár,“ segir Kjartan.

Ber engan kala til starfsmanna Kópavogsbæjar

Nú voruð þið í öðru sæti í síðasta útboði, hefur Kópavogsbær haft samband við ykkur um að koma aftur að rekstrinum þar sem Rebook er að hætta? ,,Nei, það hefur ekki gerst en ég ber engan kala til starfsmanna Kópavogsbæjar og myndi að sjálfsögðu skoða það ef svo yrði. Samstarfið við Kópavogsbæ gekk frábærlega á meðan það var í gangi. Mikið af fólki hefur hvatt okkur til að reyna að fá reksturinn aftur þannig að það verður fróðlegt að sjá hvað gerist hjá Kópavogsbæ í framhaldinu.“

Við erum á blússandi siglingu og höfum allt sem til þarf

En hafið þið enn það sem til þarf til að geta tekið aftur við rekstrinum? ,,Algjörlega, við erum með 24 ára reynslu og þekkingu, erum búnir að sérhæfa okkur í þessum rekstri og vitum hvað þarf að gera til að hlutirnir virki. Ólíkt öðrum heilsuræktarstöðvum þá höfum við t.d. ekki hækkað verð á kortum hjá okkur í rúm fimm ár. Við erum einnig í samstarfi við sveitarfélögin að vinna eftir lýðheilsustefnu þeirra og það gengur vel. Við erum t.d. í samstarfi við Janus í Heilsueflingu og það samstarf gengur frábærlega. Þannig að við erum á blússandi siglingu.“

Skorðu lang hæst í árlegri þjónustkönnun

,,Það er ágætt að minna á það að þegar við sáum um reksturinn í Kópavogi þá gerði Gallup árlega þjónustukannanir þar sem við skoruð lang hæst allra á markaðnum og það er sennilega ekki hægt að fá betri meðmæli um reksturinn. Annars erum við bara að sigla örugglega í gegnum Covid og það er gott að hafa haft fyrirhyggju í rekstrinum í gegnum tíðina, þá hefur siglingin mun minni áhrif,“ segir Kjartan að lokum og fróðlegt verður að fylgjast með framvindu mála.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar