Passa sömu úrræðin fyrir alla?

Við vitum öll að það passa ekki allir í sömu stærð af buxum og sama sniðið hentar ekki heldur öllum. Þess vegna göngum við í ýmsum gerðum af buxum, sumar eru þröngar, aðrar víðar, síðar eða stuttar. Þannig er þetta líka á fjölmörgum sviðum mannslífsins og ástæðan er einföld; Við erum ekki öll eins. Samt er tilhneigingin að troða okkur öllum í sömu ferköntuðu kassana hannaða út frá meðaltali og miðgildi og út frá þeirri hugsun að ein stærð henti öllum.

Fólk með fötlun er ekki allt eins

Í málefnum Velferðarsviðs þekkjum við ýmis dæmi um að þær lausnir sem boðið er upp á virka ekki fyrir alla. Gott dæmi er að finna í málefnum fatlaðs fólks. Reglugerð gerir ráð fyrir að fatlað fólk búi almennt í sjálfstæðri búsetu, með mismiklum stuðningi. Undanfarin ár hefur verið unnið að því að útrýma herbergjasambýlum og stefnan er að fólk með fötlun búi í séríbúð og njóta verndar vegna friðhelgi einkalífs og heimilis. Stefnt er að auknu sjálfstæði einstaklinganna með þessum hætti og auðvitað er virðing fyrir fólki grundvallarhugsunin á bak við þessar breytingar. Fólk með fötlun á skilið að búa við virðingu og reisn og hafa valkost um hvernig þau haga sínu lífi.

Það hefur hins vegar verið sýnt fram á að þessi lausn hentar ekki öllum. Sumum einstaklingum fer aftur í félagslegum þroska og sjálfstæði í vinnubrögðum eftir að viðkomandi er kominn í sjálfstæða búsetu. Þeir upplifa einmanaleika og draga sig inn í skelina.

Fólk sem býr við fötlun er, eins og við sem erum ófötluð, alls ekki eins. Þarfirnar eru mismunandi, fatlanir ólíkar, persónuleikarnir fjölbreyttir og reynsluheimarnir margir. Það höfum við séð þegar við hönnum stuðningsþjónustu fyrir fatlað og langveikt fólk. Sumum hentar að gerður sé þjónustusamningur við sveitarfélagið sem veitir hinum fatlaða nauðsynlega umönnun og faglega þjónustu, á meðan aðrir vilja og geta verið virkir í samfélaginu og lifa sjálfstæðu lífi án aðgreiningar og fá til þess stuðning í formi „Notendastýrðar persónulegrar þjónustu“, NPA. Sú þjónusta er enn í mótun og strandar á því að ríkisvaldið leggi fram sanngjarnt framlag til að sveitarfélögin geti uppfyllt sína lagalegu skyldur með sómasamlegum hætti. Það eru sömu stjórnmálaflokkar sem setja reglugerðir í ríkisstjórn um NPA og eru í núverandi meirihluta í bæjarstjórn Kópavogs og eiga að framfylgja reglugerðinni, en hafa ekki til þess nægjanlegt fjármagn. Við skulum muna það!

Kristín Sævarsdóttir
Skipar 7.sætið á framboðslista Samfylkingarinnar í Kópavogi

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar