Ótrúlegir yfirburðir Gerplu á Íslandsmótinu í áhaldafimleikum

Gerplufólk rakaði til sín verðlaunum á Íslandsmótinu í áhaldafimleikum sem haldið var í íþróttamiðstöðinni Versölum um liðna helgi 11. og 12. júní sl. 

Í fullorðinsflokki voru tólf Íslandsmeistaratitlar í boði en Gerpla vann samtals 11 titla í karla- og kvennaflokki. Þau Thelma Aðalsteinsdóttir og Valgarð Reinhardsson hömpuðu Íslandsmeistaratitlunum í fjölþraut á laugardeginum með nokkrum yfirburðum og áttu frábæran dag bæði tvö. 

Íslandsmeistari! Valgarð Reinhardsson
Íslandsmeistari! Thelma Aðalsteinsdóttir

Í kvennaflokki var það svo Hildur Maja Guðmundsdóttir sem varð í 2. sæti og Agnes Suto í 3. sæti. Í karlaflokki voru það Jónas Ingi Þórisson sem varð annar og Martin Bjarni Guðmundsson í því þriðja. Það var því verðlaunapallur eingöngu skipaður Gerplufólki bæði í karla- og kvennaflokki.  

2. sæti. Hildur Maja Guðmundsdóttir Gerplu.
3. sæti. Agens Suto Gerplu
Meistaraflokkur karla í Gerplu

Gerpla vann 27 af 30 verðlaunasætum og fékk níu Íslandsmeistaratitla af þeim tíu sem voru í boði – MAGNAÐ!

Í úrslitum á einstökum áhöldum varð lítil breyting á sigurgöngu Gerplufólks sem mætti greinlega vel undirbúið til leiks en af þrjátíu mögulegum verðlaunasætum vann Gerpla 27 verðlaun og níu Íslandsmeistaratitla af tíu mögulegum. Alla titlana fjóra sem í boði voru í kvennaflokki og fimm titla af sex í karlaflokki. Í kvennaflokknum voru það þær Agnes Suto og Hildur Maja sem skiptu með sér áhöldunum. Agnes hampaði titlinum á stökki og tvíslá á meðan að Hildur Maja vann tvo Íslandsmeistaratitla og sigraði slá og gólf en hún varð jafnframt önnur á stökki og þriðja á tvíslá.  

Keppendur Gerplu röðuðu sér svo í sætin í kring en Thelma Aðalsteinsdóttir bætti við þremur silfurmedalíum en hún var í úrslitum á öllum áhöldum nema stökki þar sem hún framkvæmdi aðeins eitt stökk í fjölþrautarkeppninni. Dagný Björt Axelsdóttir nældi sér svo í silfur á jafnvægisslá sem er glæsilegur árangur þar sem hún var að keppa í fyrsta skipti í fullorðinsflokki.  

Í karlaflokkinum var Valgarð einnig hlutskarpastur á einstökum áhöldum þar sem hann hampaði Íslandsmeistaratitli á gólfi, stökki og svifrá og varð jafnframt annar á hringjum og tvíslá og þriðji á bogahesti. Gerpludrengir röðuðu sér svo í hin sætin en Dagur Kári Ólafsson varð Íslandsmeistari á bogahesti og tvíslá og varð annar á svifrá og þriðji á gólfi. Arnþór Daði Jónasson varð annar á bogahesti, Jónas Ingi Þórisson varð þriðji á hringjum og tvíslá, Martin Bjarni varð annar á gólfi og þriðji á svifrá og Valdimar Matthíasson varð þriðji á stökki.  

Rakel Sara Pétursdóttir Íslandsmeistari unglinga 

Í unglingaflokki var það hin unga og efnilega Rakel Sara Pétursdóttir sem kom sá og sigraði. Hún keyrði sínar æfingar af miklu öryggi og stóð óvænt efst í fjölþrautinni og hampaði þar með sínum fyrsta Íslandsmeistaratitli unglinga.

Rakel Sara Pétursdóttir Íslandsmeistari unglinga

Rakel Sara er fædd árið 2010 og á því þrjú ár eftir í unglingaflokknum. Á einstökum áhöldum varð Rakel Sara Íslandsmeistari á tvíslá og liðsfélagi hennar Kristjana Ólafsdóttir varð í þriðja sæti og Sól Lilja Sigurðardóttir í því fjórða. Þær síðarnefndu fæddar árið 2009. Ánægjulegt að eiga margar efnilegar á tvíslánni. Á jafnvægisslánni var það svo hin efnilega Ísabella Róbertsdóttir sem sigraði óvænt og hampaði sínum fyrsta Íslandsmeistaratitli en jafnaldra hennar Rakel Sara varð önnur á slánni. Í unglingaflokki karla áttum við aðeins einn keppanda að þessu sinni en það var hinn ungi og efnilegi Kári Pálmason. Hann stóð sig heldur betur vel og nældi sér í tvenn bronsverðlaun á hringjum og gólfi en hann varð í fjórða sæti á tvíslá og svifrá og í fimmta sæti á stökki. Hann endaði í sjötta sæti í fjölþrautinni. Kári er fæddur árið 2009 og á því fimm ár eftir í unglingaflokknum sem þýðir að hann er rétt að byrja.  

Gerpla var með unga keppendur bæði í unglingaflokki karla og kvenna og verður því árangur helgarinnar að teljast mjög góður og framtíðin björt hjá félaginu. 

Kári Pálmason

Það er gaman frá því að segja að árangurinn um helgina fer í sögubækurnar en það eru akkurat tíu ár síðan að Gerpla hampaði ellefu Íslandsmeistaratitlum af tólf mögulegum í áhaldafimleikum í fullorðinsflokki. Það var síðast árið 2012 sem þetta gerðist en þá voru það Róbert Kristmannsson sem vann 7 titla og Thelma Rut Hermannsdóttir sem hampaði fjölþrautartitli og varð einnig Íslandsmeistari á gólfi. Norma Dögg Róbertsdóttir varð það ár Íslandsmeistari á stökki og Tinna Óðinsdóttir á tvíslá.  

Norðurlandamót í áhaldafimleikum 2.-3. júlí 2022 

Framundan er Norðurlandamót í áhaldafimleikum sem haldið verður í Íþróttamiðstöðinni Versölum og má búast við að það verði margir iðkendur úr Gerplu í landsliði Íslands á því móti. Við hvetjum jafnframt alla til að gera sér ferð í Versali 2.júlí og sjá fremsta fimleikafólk Norðurlandanna etja kappi. Áfram Ísland!  

Forsíðumynd: Meistaraflokkur kvenna í Gerplu

Ísabella Róbertsdóttir
Dagur Kári Ólafsson

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar