Ótrúlega mikilvægt að stelpurnar fái að upplifa svona mót og öllu sem því fylgir segir Glódís Perla

Glódís Perla Viggósdóttir, fyrirliði íslenska landsliðsins í knattspyrnu og leikmaður og fyrirliði Þýskalands-
meistara Bayern München, ætlar að setja Símamótið í kvöld ásamt félögum sínum í íslenska kvennalandsliðinu, en eins og flestir vita þá leikur íslenska kvennalandsliðið tvö þýðingamikla leiki í undankeppni EM 2025 á föstudagskvöldið, er Þýskaland mætir á Laugardalsvöllinn og á þriðjudaginn leikur liðið gegn Póllandi ytra.

Kópavogspósturinn heyrði í fyrirliðanum, sem ólst upp í Kópavogi og lék með HK upp alla yngri flokkana, en hún man vel eftir þátttöku sinni á Símamótinu, en hún tók þátt í sínu fyrsta móti árið 2006 og hverju ári til ársins 2009.

Alltaf gaman að koma á Símamótið

En hvernig líst Glódísi Perlu að mæta á Kópavogsvöll í kvöld ásamt stöllum sínum í íslenska kvennalandsliðinu og setja Símamótið? ,,Mjög vel, það er alltaf gaman að koma aftur á Símamótið og sjá svona mikið af flottum fótboltastelpum og sjá gleðina sem fylgir svona móti.”

Og man Glódís vel eftir þátttöku sinni á Símamótinu, mikil upplifun og manstu hvernig ykkur gekk? ,,Mér fannst alltaf mjög gaman á Símamótinu því það var svona næstum því á heimavelli og það var alltaf svo gríðarlega góð stemmning með setningu mótsins og svo fékk maður að spila svo mikið af leikjum og alltaf úrslitaleikir á Kópavogsvelli sem var mjög stórt. Það gekk misvel eins og alltaf á svona mótum. Held ég hafi unnið það einu sinni og svo ekki önnur skipti.”

Hversu þýðingamikið er að halda svona stórt og glæsilegt mót fyrir stelpur á þessum aldri? ,,Það er ótrúlega mikilvægt að stelpurnar fái að upplifa svona mót og öllu sem því fylgir hvort sem það er stemmningin, sigrar eða ósigrar. Þær læra svo ótrúlega mikið af þessu, hvernig þær eiga að haga sér sem lið og takast á við allt sem gerist á svona móti.”

Ætlum að sækja okkur innblástur frá þessum ungu áhugasömu stelpum

Og íslenska kvennalandsliðið stendur í stórræðum næsta daga, landsleikur á morgun föstudag og svo aftur á þriðjudaginn, en þið ætlið samt að gefa ykkur tíma og setja Símamótið í kvöld og hafið þið jafnvel einhvern tíma til að mæta á mótið og fylgjast með? ,,Við erum að fara að spila gríðarlega mikilvæga leiki í þessari viku þar sem við erum að keppast um að koma okkur á EM þannig við erum með fullan fókus á því. Við ætlum samt að koma á setningaathöfnina rétt eins og í fyrra og vera með stelpunum þar og sækja okkur innblástur frá þessum ungu áhugasömu stelpum. Svo sjáum við til hvort við náum eitthvað að kíkja eitthvað meira á mótið eða ekki.”

Getum unnið alla á góðum degi

Eins og komið hefur fram þá leikið þið gegn Þýskaland á Laugardalsvelli á föstudaginn kl. 16:15. Þið þurfið þrjú stig úr síðustu tveimur leikjunum í undankeppninni til að tryggja ykkur farseðilinn í lokakeppni EM 2025. Hvernig er stemmningin í hópnum og stefnið þið á að sækja þessi þrjú stig á móti sterku lið Þjóðverja og tryggja ykkur inn í lokakeppni EM? ,,Við trúum því að við getum unnið alla á góðum degi þannig auðvitað er það markmiðið að tryggja okkur beint inná EM á heimavelli með okkar fólki á Laugardalsvelli. “

Þurfum að gera vel við boltann þegar við vinnum hann

Hvernig munið þið fara inn í þennan þýðingamikla leik vitandi hvað er undir, ætlið þið að reyna að halda uppi góðri pressu á sterkt þýskt lið eða liggja til baka og treysta á skyndisóknir? ,,Ég hugsa að við munum reyna að mæta þeim í pressu mómentum þegar það kemur upp en annars líður okkur ekkert ílla að verj-ast. Svo þurfum við bara að gera vel við boltann þegar við vinnum hann.”

Lang skemmtilegast þegar við gerum þessa hluti öll saman sem þjóð

Þið leikið við Þýskland á heimavelli svo stuðningur skiptir miklu máli og þið ætlið að bjóða öllum stelpunum sem taka þátt á Símamótinu frítt á völlinn? ,,Stuðningur skiptir öllu máli. Það er gríðarlegur munur þegar við finnum fyrir stuðning úr stúkunni og maður sér stemmninguna sem myndast þegar það er fullur völlur. Þá er eins og maður sé að spila nánst einum fleiri. Það er lang skemmtilegast þegar við gerum þessa hluti öll saman sem þjóð þannig við viljum hvetja fólk til að mæta og ekki bara mæta heldur vera með okkur í þessu og finna að þetta skipti máli.“

Mætið á æfingu til að verða betri

Og viltu gefa þátttakendum á Símamótinu einhver holl og góð ráð fyrir mótið og bara fyrir framtíðina í fótbolta enda allt ungar og efnilegar knattspyrnukonur að taka þátt og flestar sjálfsagt með stór framtíðardrauma? ,,Ekki mæta á æfingu bara til að mæta á æfingu. Mætið á æfingu til að verða betri,” segir fyrirliðinn að lokum og nú er bara að fjölmenna á Laugardalsvöll á morgun og styðja við stelpurnar okkar.

Forsíðumynd: ,,Við erum að fara að spila gríðarlega mikilvæga leiki í þessari viku þar sem við erum að keppast um að koma okkur á EM þannig við erum með fullan fókus á því. Við ætlum samt að koma á setningaathöfnina rétt eins og í fyrra og vera með stelpunum þar og sækja okkur innblástur frá þessum ungu áhugasömu stelpum,” segir Glódís Perla, en myndin er tekin í fyrra leik liðanna í undakeppninni.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar