Byggingafélag námsmanna ses. hefur óskað eftir lóðum í Kópavogi og samstarfi við Kópavogsbæ fyrir uppbyggingu á námsmannaíbúðum.
Böðvar Jónsson, framkvæmdastjóri Byggingafélags námsmanna sendi erindi á bæjarráð Kópavogs á dögunum þar sem hann lýsir yfir áhuga, fyrir hönd félagsins, á uppbyggingu námsmannaíbúða í Kópavogi og óskar eftir samtali um mögulegar lóðir og samstarfi við sveitarfélagið um uppbyggingu þeirra. Böðvar segir að bygging leiguíbúða fyrir námsmenn sé innan almenna íbúðakerfisins og er því gert ráð fyrir stofnframlögum frá ríki og sveitarfélagi.
Í erindi Böðvars kemur líka fram að samkvæmt rammasamningi ríkis og sveitarfélaga frá 2022, um aukið framboð íbúða á næstu 10 árum, sé gert ráð fyrir byggingu um 35 þúsund íbúða á landinu öllu. Ennfremur kemur fram að sérstök áhersla skuli lögð á uppbyggingu hagkvæmra íbúða, eða um 30% uppbyggingarinnar. Námsmannaíbúðir er einn hluti af slíkri áherslu.
Böðvar segir ljóst að öll sveitarfélög á landinu þurfi að leggja sitt af mörkum og leggja til lóðir til uppbyggingar til að samningurinn nái fram að ganga.
,,Byggingarfélag námsmanna ses. hefur á síðustu árum byggt fjölda íbúða í Reykjavík og Hafnarfirði og hefur nú í rekstri tæplega 900 íbúðir sem leigðar eru út til námsmanna. Byggingarfélagið þjónustar nemendur allra skóla á háskóla- og framhaldsskólastigi. Kannanir Byggingarfélagsins síðustu ár hafa leitt í ljós að aukinn áhuga námsmanna á leiguíbúðum víðar en bara í Reykjavík enda færist stöðugt í vöxt að nemendur stundi fjarnám og sæki sjaldnar tíma í staðarnámi. Krafa um uppbyggingu námsmannaíbúða víða um land er því orðoin ríkari,” segir í erindi Böðvars sem er tilbúinn til viðtals við bæinn sem fyrst svo hefja megi undirbúning að uppbyg-gingu námsmannaíbúða í Kópavogi.
Bæjarráð vísaði erindinu til bæjarstjóra til undirbúnings umræðu.