Laugardaginn 11. september n.k. opnar ný samsýning listamannatvíeykisins Snæbjörnsdóttir/Wilson í Gerðarsafni.
Listamennirnir Bryndís Snæbjörnsdóttir og Mark Wilson fagna nú 20 ára samstarfi með yfirlitssýningu í Gerðarsafni.
Þau staðsetja list sína sem rannsóknar- og samfélagslist og nota gjarnan samspil manna og dýra í verkefnum sínum til að skoða málefni er varða sögu, menningu og umhverfið. Með listrannsóknum sínum kveikja þau hugleiðingar og samtal um hvernig heimurinn er að breytast og hlutverk okkar mannfólksins í þeim breytingum.
Listamennirnir nálgast listsköpun sína með vistfræðilegri og heildrænni sýn. Verk þeirra eru þverfagleg í eðli sínu og taka gjarnan form innsetninga með skúlptúrum, fundnum hlutum, vídeóverkum, hljóði, teikningum, ljósmyndum og textum. Þetta er í fyrsta sinn sem jafn yfirgripsmikið yfirlit yfir verk þeirra hefur sést. Sýningarstjóri er Becky Forsythe.
Frekari upplýsingar um verk og vinnu Bryndísar og Marks má finna á: www.snaebjornsdottirwilson.com.
Um listamennina:
Bryndís er prófessor og fagstjóri meistaranáms í myndlist við Listaháskóla Íslands. Í tengslum við rannsóknarverkefnið „Beyond Plant Blindness“ er hún jafnframt gestaprófessor við Malmö Art Academy. Árið 2009 útskrifaðist hún með doktorspróf frá Gautaborgarháskóla í rannsóknartengdri myndlist með verkefni sínu „Spaces of Encounters: Art and Revisions in Human – Animal Relations“.
Mark Wilson er prófessor við University of Cumbria í Bretlandi. Hann hefur verið fagstjóri MA námsins þar síðastliðin ár og einnig leiðbeinandi doktorsnema.
Verk þeirra hafa verið sýnd víða um heim meðal annars á Norðurlöndunum, í Bretlandi, Sydney í Ástralíu og Alaska svo dæmi séu tekin.