Ólöf Sívertsen nýr forseti FÍ

Ólöf Kristín Sívertsen lýðheilsufræðingur og kennari var kjörin nýr forseti Ferðafélags Íslands á aðalfundi þess sem haldinn var í síðustu viku. Sigrún Valbergsdóttir verður áfram varaforseti. Nýir fulltrúar í stjórn FÍ eru þær Salvör Nordal og Elín Björk Jónasdóttir sem voru kjörnar til þriggja ára. Þá var Tómas Guðbjartsson endurkjörinn til þriggja ára.

„Að leitað væri til mín um að gefa kost á mér í embætti forseta fannst mér mikill heiður – og eftir góða umhugsun ákvað ég að svara því kalli,“ segir Ólöf. Hún hefur á undanförnum árum tekið virkan þátt í starfi FÍ og meðal annars stýrt lýðheilsuverkefnum hjá félaginu. Inntak þeirra hefur verið að hvetja fólk til fara í gönguferðir og kynnast landinu í góðum félagsskap. „Mér er mikið í mun að efla grasrótarstarfið, fá fjölskyldur og þá ekki síst börn og unglinga til að stunda útivist og hreyfingu. Þetta er afar skemmtilegt og gott, bæði fyrir líkama og sál“.
Starfsemi FÍ er og verður áfram öflug. Félagið stendur fyrir hundruðum skipulagðra göngu- og útivistarferða fyrir alla aldurshópa á ári hverju, á fjallaskála víða um land og stendur að útgáfu vandaðra rita um náttúru landsins.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar