Okkar Kópavogur: Hugmyndasöfnun hafin

Hugmyndasöfnun í samráðsverkefninu Okkar Kópavogur er hafin. Frá 15. september til 14. október verður hægt að setja inn hugmyndir á hugmyndavef verkefnisins. Á því tímabili verða einnig haldnir íbúafundir um allan bæ þar sem fólk getur komið sínum hugmyndum á framfæri.
Íbúar eru hvattir til þess að gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn og koma sínum hugmyndum á framfæri á hugmyndavef verkefnisins.

„Það er frábært hversu góð þátttaka hefur verið í Okkar Kópavogi og hversu hugmyndaríkir íbúar Kópavogs eru. Okkar Kópavogur hefur verið lyftistöng fyrir bæinn og verður gaman að sjá hvaða hugmyndir skila sér að þessu sinni,“ segir Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs.
Meðal þess sem íbúar völdu í ársbyrjun 2020, síðast þegar kosið var í Okkar Kópavogi, eru æfingaaðstaða við Himnastigann sívinsæla, umferðaljós sem sýna mynd af kópnum sem Kópavogur er kenndur við, aparóla við Vatnsendaskóla og kaldur pottur í Salalaug.

„Við viljum fá sem flestar hugmyndir og hvetjum unga sem aldna til þess að taka þátt. Foreldrar geta til dæmis sest niður með börnunum sínum og stutt þau í að setja inn hugmynd,“ segir Sigrún María Kristinsdóttir verkefnastjóri íbúatengsla.

Þetta er í fjórða sinn sem Kópavogsbær stendur fyrir verkefninu, en því var fyrst hleypt af stokkunum vorið 2016. Íbúar Kópavogs hafa tekið verkefninu vel og fjöldamargar hugmyndir íbúa orðnar að veruleika.

Kosið verður milli hugmynda í ársbyrjun 2022 og hefjast framkvæmdir vorið 2022 og lýkur 2023. 200 milljónum verður varið til framkvæmda verkefna, skipt í hlutfalli við stærð bæjarhluta. Framkvæmdafé skiptist á tvö ár.

Nánari upplýsingar er að finna okkarkopavogur.is.

Áhrifaríkt að mæta á íbúafundi

Fimm íbúafundir verða haldnir í tengslum við hugmyndasöfnun í Okkar Kópavogi. Á Íbúafundum mæta íbúar hverfa í Kópavogi, fá kynningu á verkefninu og ræða svo sínar hugmyndir og tillögur í smærri hópurinn. Fundurinn velur svo bestu hugmyndirnar og þær komast í kosningu sem haldnar verða í ársbyrjun 2022.

Alls fara 20 hugmyndir úr hverju hverfi í kosningu og þar af allt að sjö af íbúafundi þannig að það að mæta á fund er áhrifarík leið til að koma hugmynd á framfæri.

Íbúafundirnir verða haldnir milli kl 17.00 og 18:30 á eftirfarandi stöðum:
Fyrir íbúa á Kársnesi þriðjudaginn 21. september í Salnum.
Fyrir íbúa á Digranesi verður fundur fimmtudaginn 23. september í safnaðarsal Digraneskirkju.
Fyrir íbúa í Fífuhvammi (Lindir og Salir) mánudaginn 27. september í safnaðarsalur Lindakirkju.
Fyrir íbúa í Smárahverfi fimmtudaginn 30. september í veislusal Breiðabliks (stúkan) í Smáranum.
Fyrir íbúa í Vatnsenda þriðjudaginn 5. október í veislusal HK í Kórnum.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar