Okkar helsta markmið er að vinna þá leiki sem eftir eru og ef það gerist þá verðum við meistarar – segir Agla María Albertsdóttir leikmaður Breiðabliks en úrslitakeppni Bestu-deildarinnar hefst á morgun.

Breiðablik lauk síðasta deildarleiknum í Bestu deildinni með góðum sigri á Víkingi í lokaumferð Bestu deildar sl. sunnudag og framundan er æsispennandi úrslitakeppni, þar sem sex efstu lið deildarinnar leika við hvort annað, en baráttan um Íslandsmeistaratitilinn mun verða á milli Breiðabliks og Íslandsmeistara Vals. Aðeins eitt stig skilja liðin að og ef við gefum okkur að bæði liðin vinni alla andstæðinga sína þá verður hreinn úrslitaleikur á milli liðanna um titilinn eftirsótta á Valsvelli í lokaumferð úrslitakeppninnar 5. október næstkomandi.
 
En það á margt eftir að gerast að þeim tíma og fróðlegt verður að sjá hvernig úrslitakeppnin þróast.
 
Agla María Albertsdóttir hefur leikið lykilhlutverk í liði Breiðabliks undanfarin ár og hún var komin með sjö mörk í níu leikjum í sumar þegar hún meiddist 20. júní sl., en hún kom aftur til baka tveimur mánuðum síðar er hún komm inná í flottum sigri á Þrótti í síðustu viku.
 
Agla María framlengdi samninginn sinn við Breiðablik til 2026 nýverið og Kópavogspósturinn heyrði í henni hljóðið fyrir úrslitakeppnina og spurði hana hvernig staðan væri á henni.

Munar um hvern dag

Ertu búin að jafna þig alveg eftir meiðslin og að komast í þitt besta form? ,,Það eru u.þ.b. 3 vikur frá því ég mátti byrja að hlaupa aftur og munar um hvern dag sem ég næ að æfa og koma mér í leikform. Það getur verið ansi krefjandi að eiga við hnémeiðsli en ég er virkilega þakklát fyrir að ekki fór verr. Nú þegar ég hef náð mér af meiðslunum er það allt undir mér komið að nýta næstu vikur vel við að koma mér í topp leikform samhliða því að hjálpa liðinu,“ segir Agla.

Þú varst fjarverandi í tvo mánuði í sumar en ert nú kominn inn á nýju og má ekki segja að það sé á hárréttum tíma, rétt fyrir úrslitakeppnina? ,,Jú, það má segja það en ég hef auðvitað misst mikið úr og lungað af mótinu. Ég er virkilega fegin að ná lokasprettinum þar sem skemmtilegustu og mikilvægustu leikirnir eru framundan.“

Það er draumastaða að spila fyrir uppeldisfélagið

Og þú varst að framlengja samninginn þinn við Blika – kom ekkert annað til greina? ,,Mér líður afskaplega vel í Kópavoginum og hef spilað með liðinu lang stærstan hluta af mínum meistaraflokksferli auk þess að vera uppalin í félaginu. Mér þykri því vænt um félagið og er það draumastaða að vera í að spila fyrir uppeldisfélagið. Það er á sama tíma nauðsynlegt að metnaðurinn sé til staðar í klúbbnum og það hafði mikið að segja fyrir mig persónulega hvernig nýtt þjálfarateymi hefur komið inn. Mér finnst mikill metnaður vera í hópnum til þess að gera vel og fagmennska í kringum liðið.“

Finnst við eflast með hverjum leik

Nú enduðu þið deildina á góðum sigri gegn Víkingi í lokaleiknum – ertu ánægð með sumarið hjá liðinu fram að þessu? ,,Já, ég er mjög ánægð með sumarið hjá liðinu og finnst við vera að eflast með hverjum leik. Það eru bara spennandi tímar framundan í Kópavoginum.“

Úrslitakeppnin er framundan – hvernig líst þér á hana og ertu ánægð með þetta fyrirkomulag sem var tekið upp í fyrra? ,,Mér líst mjög vel á úrslitakeppnina framundan og finnst við hafa verið að stíga upp í seinustu leikjum og sýna mjög góða frammistöðu. Þetta fyrirkomulag hentar okkur afskaplega vel í ár þar sem við erum einu stigi á eftir Val sem stendur og því gott að mótið sé ekki búið. Úrslitakeppnin gefur okkur þannig tækifæri til þess að vinna Íslandsmótið og get ég því ekki verið annað en sátt með þetta fyrirkomulag. Þetta gefur okkur auk þess fleiri leiki sem skiptir máli fyrir deildina og að hún sé samkeppnishæf öðrum sumardeildum.“

Fjórir hörkuleikir í deildinni fram að leiknum á móti Val

Þið eruð aðeins stigi á eftir Íslandsmeisturum Vals eins og þú nefnir, þið stefnið að sjálfsögðu að spila hreinan úrslitaleik við þær í lokaumferðinni 5. október nk.? ,,Okkar helsta markmið er að vinna þá leiki sem eftir eru en ef það gerist þá verðum við meistarar. Hvort sem það verður í hreinum úrslitaleik á móti Val í október er alltof snemmt að segja þar sem það eru fjórir hörkuleikir í deildinni fram að leiknum á móti Val. Við tökum því bara einn leik í einu og leggjum allt í sölurnar til þess að vinna.“

Forréttindastaða að vera að berjast um Íslandsmeistaratitilinn

Nú hefur Valur bara tapað einum leik í deildinni, á móti ykkar og þið tveimur, á móti Val og Víkingi í leiknum sem þú meiddist í. Miðað við fáa tapleiki liðanna fram til þessa þá megið þið sennilega ekki misstíga ykkur fram að leiknum 5. október. Er pressan svolítið á ykkur? ,,Nei, ég upplifi alls ekki pressu, þetta er fyrst og fremst forréttindastaða að vera að berjast um Íslandsmeistaratitilinn. Þetta er staða sem allir sem spila fótbolta vilja vera í og er það því í okkar höndum að klára okkar leiki og klára mótið.“

Höfum nýtt tapið á réttan hátt

Þið töpuðu fyrir Val í úrslitaleik Mjólkurbikarsins þar sem þið fóruð í raun illa með góð færi í fyrri hálfleik og ykkur hefndist fyrir það – þú horfðir á þann leik – hvað fannst þér og eru þessi lið mjög jöfn að getu? ,,Mér fannst stemningin hjá okkur fyrir leik frábær, áttum góða spilkafla og var þetta heilt yfir mjög jafn leikur. Þetta féll þeirra megin í þetta skiptið en framfarirnar frá því í leiknum á móti þeim á Hlíðarenda voru miklar. Mér finnst við hafa nýtt tapið á réttan hátt og erum nú ennþá staðráðnari í því að klára þá leiki sem eftir eru af Íslandsmótinu.“

Blikar fagna eftir sigurleik í sumar, en liðið hefur aðeins tapað tveimur leikjum í Bestu-deildinni í sumar og liðið fer inn í úrslitakeppnina stigi á eftir Íslandsmeisturum Vals.

Má ekki segja að þið hafið styrkst töluvert á undaförnu, þú ert kominn til baka, þið fenguð svo Kristínu Dís og Samanthu Rose til ykkar fyrir lok félagsskiptagluggans – þetta er góð viðbót við öflugt lið Breiðabliks? ,,Ég er virkilega ánægð með að hafa fengið þær til okkar í glugganum og í raun nauðsynlegt að auka breiddina og fá inn gæðaleikmenn fyrir lokasprettinn. Ég þekki Kristínu Dís mjög vel enda höfum við spilað saman upp alla yngri flokkana í Breiðabliki og í meistaraflokki allt þar til hún fór í atvinnumennsku fyrir tveimur árum. Hún er fyrst og fremst frábær leikmaður og kemur með sigurhugarfar inn í hópinn sem skiptir gríðarlega miklu máli. Hún þekkir allt út og inn í Breiðabliki og hefur staðið sig gríðarlega vel frá því hún kom til okkar. Okkur hefur svo vantað upp á breiddina inni á miðju og framar á vellinum og hefur Sammy komið virkilega sterk inn og staðið sig frábærlega í fyrstu leikjunum. Ég held að hún muni reynast okkur mjög dýrmæt núna á lokasprettinum.“

En áður en þið farið að huga að lokaleiknum 5. október þá eru fjórir erfiðir leikir framundan og þið hefjið leik í úrslitakeppninni á morgun, föstudag þegar Víkingur, sem endaði í fjórða sæti Bestu deildarinnar, mætir á Kópavogsvöll. Þið eruð voruð að leggja þær af velli á sunnudaginn í alvöru leik. Verður erfitt að mæta þeim strax aftur og áttu von á svipuðum leik og sl. sunnudag? ,,Eins og þetta horfir við okkur þá eru fimm úrslitaleikir eftir af mótinu. Hvað leikinn á móti Víkingi næsta föstudag varðar þá verður það hörkuleikur eins og leikir þessara liða hafa verið í ár og í fyrra. Það er alltaf frekar sérstakt að mæta sama liðinu tvo leiki í röð en við höfum gert það nokkrum sinnum þannig það er ekki eitthvað sem slær okkur út af laginu. Við ætlum okkur sigur í þeim leik eins og öðrum leikjum sem við förum í og verður því engin breyting þar á.“

Það eru fimm leikir eftir á mótinu sem verða leiknir næstu fimm vikurnar og þar af eigið þið þrjá heimaleiki – mikilvægt eins og alltaf að fá góðan stuðning frá ykkar fólki? ,,Já, það skiptir sköpum að stemningin sé okkar megin í stúkunni. Það er alltaf góður kjarni sem mætir á leiki hjá okkur en ég trúi ekki öðru en að Blikar fjölmenni á völlinn þegar við erum í dauðafæri á að vinna titilinn.“

Ég finn fyrir mikilli þörf fyrir að vinna titil með Breiðabliki enda orðið alltof langt síðan seinast

Breiðablik vann Íslandsmeistaratititilinn síðast 2020, en þá var mótið flautað af út af Covid og þið voruð á toppnum á þeim tímapuntki. Þannig að hungrið er sjálfsagt til staðar að koma heim með Íslandsmeistaratitilinn í Kópavogin? ,,Já, það er og hefur verið markmiðið hjá okkur allt frá því nýtt þjálfarateymi tók við. Ég finn fyrir mikilli þörf fyrir að vinna titil með Breiðabliki enda orðið alltof langt síðan seinast. Við þurfum fyrst og fremst að hugsa um okkur og halda áfram að byggja ofan á góðar frammistöður í síðustu leikjum,“ segir Agla María að lokum, en fyrsti leikur Breiðabliks í úrslitakeppninni er á móti Víking á morgun, föstudaginn 30. ágúst kl. 18 á Kópavogsvelli.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar