Öflugt félagsstarf gefur margfalt meira af sér en það kostar

Félagsstarfið fyrir eldri borgara í Kópavogi er fjölbreytt og fer að miklu leyti eftir áhugasviði hópsins sem sækir hvern stað. Í öllum félagsmiðstöðvunum má finna hópa sem stunda meðal annars bridge, félagsvist, kanasta, bingó, samsöng Gleðigjafanna og svo fjölbreytta hreyfingu t.d. dans, jóga, qigong, gönguhópa og boccia.

Nýjasta viðbótin er svo Pílukastsaðstaðan sem sett var upp í samstarfi við Félag eldri borgara í Kópavogi. Á hverjum stað er svo hægt að kaupa og borða hádegismat og svo kaffi og með því seinni partinn.

Reyna að mæta áhugasviði ólíkra hópa

,,Þó í grunninn sé þjónustan svipuð á milli staðanna er reynt að mæta áhugasviði ólíkra hópa eins og hægt er. Í Gullsmára má t.d. finna fluguhnýtingarhóp, ljósmyndaklúbb og bókakynningar. Í Gjábakka er bók-bandshópur ásamt tveimur leshópum og í Boðaþingi er línudans, fuglatálgun, Poolborð og svo auðvitað er sundlaugin opin daglega sem hefur mikið aðdráttarafl,” segir Tinnar Rós Finnbogadóttir, forstöðumaður félagsmiðstöðvanna í Kópavogi.

Þrjár félagsmiðstöðvar

Í Kópavogi eru þrjár félags-miðstöðvar fyrir eldri borgara þar sem hver og ein stendur fyrir fjölbreyttu og öflugu félagsstarfi.
Boðinn – Boðaþingi 9 Gullsmári – Gullsmára 9 Gjábakki – Fannborg 8

Starfið öllum opið

Félagsmiðstöðvarnar og starfið á þeirra vegum er opið öllum. Dagskrá hvers staðar má finna á félagsmiðstöðvunum sjálfum og á Facebook síðu félagsmiðstöðvanna í Kópavogi (Félags-miðstöðvar eldir borgara í Kópavogi) eða í síma 441-9900 þar sem hægt er að velja hvaða félagsmiðstöð er óskað eftir að fá sambandi við.

Öflugt félagsstarf gefur margfalt meira af sér en það kostar

Tinna Rós Finnbogadóttir er tómstunda- og félagsmálafræðingur, en hún er forstöðumaður félagsmiðstöðvanna eins og áður hefur komið fram. Tinn lagði áherslu á félagslega velferð eldri borgara í sínu námi og þegar hún hóf störf voru hennar sýn og markmið mjög skýr. ,,Öflugt félagsstarf gefur margfalt meira af sér en það kostar, það þarf að vera byggt upp á faglegan hátt með þarfir og áhugasvið fólksins að leiðarljósi. Með öflugu starfi má lágmarka félagslega einangrun og auka þar með lífsgæði íbúanna til muna. Kópavogsbær styður vel við starf félagsmiðstöðvanna sem gerir það mögulegt að reka þrjár öflugar stöðvar af jafn miklum myndugleika og metnaði og raun ber vitni. Það er enn hópur sem býr við félagslega einangrun en með markvissu átaki má ná betur til þess hóps og bæta þeirra stöðu,” segir Tinna og bætir við: ,,Allt starf tekur mið af þörfum og áhugasviði einstaklinganna sem sækja starfið, þar með er það byggt upp af fólkinu, fyrir fólkið. Flestir ættu að geta fundið sér eitthvað sem höfðar til þeirra, ef ekki, þá er um að gera að mæta í kaffi því eins og flestir vita kvikna flestar nýjar hugmyndir í spjalli undir kaffibolla,” segir hún brosandi.

Pílukast vinsælt! Nýjasta viðbótin í félagstarfi eldri borgara er pílukastsaðstaðan sem sett var upp í samstarfi við Félag eldri borgara í Kópavogi. Á myndinni reyna Tinna Rós og Ragnar Jónasson formaður FEBK fyrir sér í pílukastinu

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar