Öflug menning – blómlegt mannlíf!

Á nýju ári tók ný Menningar- og mannlífsnefnd til starfa í Kópavogi og erum við spennt að hefja starfið. Nefndin hefur það hlutverk að styðja áfram myndarlega við hvers konar menningarstarfsemi, efla mannlíf bæjarins, auðga, veita innblástur og stækka sjóndeildarhringinn með fjölbreyttri dagskrá sem bæjarbúum stendur til boða

Menningarmálin í Kópavogi eru í sífelldri þróun, og á þessu kjörtímabili hefur bæjarfélagið sett listir og menningu á oddinn. Tilgangurinn er að auka lífsgæði bæjarbúa með fjölbreyttu menningar- og listalífi. Fræðsla og miðlun með áherslu á upplifun eru einnig í forgrunni. Hjarta menningarstarfsins er í menningarhúsunum við Hamraborgina, en samspil og nálægð húsanna gefa tækifæri sem fá sveitarfélög geta státað af. 

Líflegt menningarlíf fyrir alla aldurshópa

Það sem hæst bar á síðasta ári var opnun á nýrri barnadeild Bókasafnsins og glænýju rými Náttúrufræðistofu. Með þessu gerðum við börnum og þeirra þörfum hátt undir höfði með skemmtilegu rými þar sem þeim gefst tækifæri til sköpunar, leiks og næðis. Tengingin milli Náttúrufræðistofu og Bókasafnsins er nýstárleg og spennandi, og býður upp á óvenjulegt samspil og áður óþekkt á Íslandi. Árangurinn lét ekki á sér standa. Gríðarleg aukning gesta inn á söfnin segir sína sögu, en um 30% aukning var á heildaraðsókn í menningarhúsin okkar árið 2024, auk þess sem aldrei hefur verið boðið upp á jafn marga viðburði, tæplega 700 talsins, samanborið við um 500 árið áður. 

Þá má ekki gleyma því að við opnuðum skúlptúrgarð við Gerðarsafn í tilefni af 30 ára afmæli safnsins, sem hefur staðið til allt frá því að safnið opnaði. Það var forseti Íslands, Halla Tómasdóttir sem opnaði garðinn á fallegum sumardegi í ágúst, en Halla ólst upp í Kópavogi. Þá eru ótaldir “fastir liðir eins og venjulega” sbr. Barnamenningarhátíð, Vetrarhátíð, Ljóðstaf Jóns úr Vör, 17. júní hátíðarhöld auk reglubundinna viðburða sem menningarhúsin okkar skipuleggja, svo sem Menningu á miðvikudögum, Fjölskyldustundir á laugardögum, Foreldramorgna og skólaheimsóknir leik- og grunnskólabarna í öll menningarhúsin allt árið um kring. Þá hefur menningar- og mannlífsnefndin það hlutverk að velja bæjarlistamann Kópavogs, leggur til verðlaunafé fyrir myndlistarverðlaun sem kennd eru við Gerði Helgadóttur, listaverkakaup Gerðarsafns, nýsköpun í tónsmíðum sem Salurinn stendur fyrir og tónleikaröðum Salarins Tíbrá, sumardjass og söngvaskáldum, svo fátt eitt sé nefnt. Síðast en ekki síst heiðruðum við Össur Geirsson, skólastjóra Skólahljómsveitar Kópavogs fyrir hans magnaða starf í þágu menningar og lista,  uppeldis og aðhlynningar barna og ungmenna um áratuga skeið. Við erum bæði þakklát og stolt af valinu á heiðurslistamanni Kópavogs.

Kröftugt menningarár 2025

Í desember sl. úthlutaði nefndin styrkjum til verkefna sem ætlað er að efla enn frekar menningarlífið í Kópavogi á þessu ári og við erum ótrúlega spennt fyrir að fá allt þetta frábæra listafólk til liðs við okkur. Styrkirnir eru bæði stórir og smáir og má t.d. nefna nýja tónleikaröð sem nefnist Kátt á línunni og fer fram á Café Catalinu, tónlistarhópurinn Negla sem mun flytja og kynna klassíska tónlist víða um bæinn fyrir áheyrendur á öllum aldri, Kaðak sem fékk styrk til að halda úti jóladagskrá í Guðmundarlundi þar sem börnum og fjölskyldum er boðið upp á afar vandaða jóladagskrá fjóra sunnudaga á aðventunni, og síðast en ekki síst Hamraborg Festival, en hátíðin er einn af hápunktum menningarárs Kópavogsbæjar og stærsta listahátíð sinnar tegundar á Íslandi. Hamraborg Festival mætir af krafti í fimmta sinn dagana 29. ágúst – 5. september í ár og býður upp á menningarveislu sem er opin öllum og hvetjum við Kópavogsbúa til að taka þátt í. 

Auk þeirra styrkja sem var úthlutað, var samþykkt að leggja eina og hálfa milljón til tónleikahalds fyrir eldri borgara í Kópavogi, aðallega á hjúkrunarheimilum og félagsmiðstöðvum aldraðra. Þá styrktum við alla kóra sem starfræktir eru í bænum, auk þess sem Leikfélag Kópavogs fær veglegan styrk fyrir þeirra árlegu uppfærslu.

Já það er af nógu að taka og erum við stolt af því að styðja við skapandi einstaklinga og listamenn í samfélaginu okkar og verður gaman að fylgjast með öllum þessum glæsilegu verkefnum blómstra og verða að veruleika í Kópavogi á komandi mánuðum. Við vonum að þið, kæru bæjarbúar, takið þátt og njótið vel. Gleðilegt menningarár!

Elísabet Sveinsdóttir, formaður  menningar- og mannlífsnefndar
Helga Hauksdóttir, varaformaður
Jónas Skúlason, stjórnarmaður

Mynd: F.v. Jónas, Elísabet og Helga

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar

Vefkökur og persónuvernd

Vefur kgp.is notast við vefkökur í þeim tilgangi að veita þér sem bestu upplifun þegar þú heimsækir okkur á vefnum.  Vefkökurnar eru vistaðar í vafranum þínum og þjóna m.a. þeim tilgangi að kerfið "þekkir þig" þegar þú kemur aftur á vefinn okkar.  Þannig þarftu t.d. ekki að fara aftur í gegnum samþykktarferlið fyrir vefkökur, ert ekki spurð(ur) aftur og aftur hvort þú vilt skrá þig á póstlista eða um aðra virkni sem þú hefur annað hvort samþykkt eða hafnað í fyrri heimsóknum o.fl. o.fl.

Þú getur stillt vefkökurnar hér til vinstri.

Með kærri kveðju,
Starfsfólk KGP.is vefsins