Óður til Kópavogs

Fimmtudaginn 19. Maí verða frumflutt fimm glæný og spennandi hljóðverk sem spretta úr hljóðheimi Kópavogs. Höfundar eru í fremstu röð íslenskra tónlistarmanna, þau Gunnar Gunnsteinsson, Ingibjörg Friðriksdóttir (Inki), Ríkharður H. Friðriksson, Úlfur Eldjárn og Þóranna Björnsdóttir.

Aino Freyja Järvelä er forstöðumaður Salarins

Hávær lofgjörð til Kópavogspönksins, hiphop-skotin minningabrot úr kvennafangelsi, ómþýðar pípulagnir í Kópavogi, taktfastar raddir bæjarbúa og altarishljóð fyrir Kópavogskirkju fléttast inn í hljóðverkin sem pöntuð voru af Salnum í Kópavogi.  Verkin hljóma í ólíkum rýmum Salarins og í Kópavogskirkju þar sem lokaverk tónleikanna mun hljóma.

Aino Freyja Järvelä er forstöðumaður Salarins og stýrir hljóðverkaverkefninu. „Mér finnst að eitt af hlutverkum tónleikahúss eins og Salarins sé að stuðla að nýsköpun í tónlist og hlúa þannig að framþróun í listinni. Með því verður til nýr vettvangur fyrir allan þann fjölda tónskálda sem við erum svo lánsöm að eiga til að skapa og þróa sig sem listamenn. Óskað var eftir hljóðverkum sem á einn eða annan hátt væru innblásin af hljóðheimi Kópavogs.

Tuttugu og átta umsóknir bárust í Hljóðverk og urðu fimm hugmyndir jafnmargra tónskálda fyrir valinu. Dómnefndina skipuðu Una Sveinbjarnardóttir og Atli Ingólfsson fyrir Salinn og Karólína Eiríksdóttir fyrir Tónskáldafélag Íslands og telur Aino þau ekki öfundsverð af hlutskiptinu miðað við hversu góðar umsóknir bárust. „Tónskáldin hafa nú samið hljóðverk út frá þeim hugmyndum sem þau lögðu fram í umsóknunum. Ég er afskaplega stolt af þessu verkefni og þakklát Lista- og menningarráði fyrir að gera það mögulegt. Einnig eiga Tónskáldafélag Íslands og Tónverkamiðstöð þakkir skildar fyrir samstarfið og ráðgjöfina við að móta þetta frábæra tónskáldaverkefni Salarins.”

Óður til Kópavogs verður frumflutt fimmtudaginn 19. maí kl. 19:30 og er miðsala á www.salurinn.is.

Forsíðumynd: Hljóðskáldin

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar