Nýútskrifaðir leikskólakennarar í Kópavogi 2024 

,,Við erum ótrúlega stolt af nýútskrifuðu leikskólakennurunum okkar sem útskrifuðust á dögunum frá Háskóla Íslands. Að þessu sinnu voru það 7 leikskólakennarar og óskum við þeim innilega til hamingju með útskriftina,“ segir Vigdís Guðmundsdóttir, leikskólaráðgjafi leikskóladeildar menntasviðs Kópavogs glöð í bragði.

Hlutfall leikskólakennara aukist til muna

Allir leikskólakennararnir hafa stundað nám í leikskólakennarafræðum samhliða vinnu hjá Kópavogsbæ og hafa fengið námsstyrki. ,,Góður árangur hefur verið af stefnu Kópavogsbæjar um námsstyrki og hefur hlutfall leikskólakennara aukist til muna,“ segi hún, en frá árinu 2014 hafa á annað hundrað lokið námi með námsstyrkjum frá Kópavogsbæ og hafið störf í leikskólum bæjarins. Einnig má þess geta að Kópavogsbær styrkir leiðbeinendur til þess að sækja sér menntun leikskólaliða, sem er starfstengt nám á framhaldsskólastigi. 

Í Kópavogi eru veittir námsstyrkir þeim sem hafa starfað lengur en þrjá mánuði í leikskóla og óska eftir stuðningi leikskólastjóra til að sækja um nám í leikskólakennarafræðum. Sótt er um grunnnám í leikskólakennarafræði eða meistaragráðu ofan á aðra háskólagráðu. ,,Styrkurinn felst í því að starfsfólk getur verið fjarri vinnu vegna skólasóknar eða vettvangsnáms í allt að 35 daga á skólaárinu, skólagjöld eru greidd og veittur er námsgagnastyrkur. Einnig er styrkt nám leiðskólaliða, með greiðslu skólagjalda og námsgagna auk veglegrar eingreiðslu til hvatningar við lok náms ásamt því að veita svigrúm á vinnutíma vegna vettvangsnáms,“ segir Vigdís.
 
Leikskóladeild fagnaði með nýútskrifuðu leikskólakennurunum og þeirra leikskólastjórum á dögunum. 

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar