Nýsköpun í Kópavogi

Markaðsstofa Kópavogs bauð kjörnum fulltrúum Kópavogsbæjar og forsvarsfólki fyrirtækja í bænum til fundar um nýsköpun á dögunum.

Ásdís Kristjánsdóttir Bæjarstjóri flutti framsögu þar sem hún lagði áherslu á mikilvægi nýsköpunar og talaði sérstaklega um stafrænan Kópavog. Hún benti á að í málefnasamningi nýs meirihluta í Kópavogi, komi fram skýr áhersla á eflingu nýsköpunar í Kópavogi en í málefnasamnignum, Áttaviti til árangurs, segir m.a. ,,Fjölbreytt fyrirtæki sem skapa verðmæt störf eiga heima í Kópavogi. Við viljum skoða uppbyggingu nýsköpunarseturs Kópavogs í vestur- eða austurbæ Kópavogs. Auk þess sem við ætlum að skoða hátækniklasamyndun í efri byggðum. Við viljum einnig efla samstarf við háskólana.“

Stefán Reynisson framkvæmdastjóri hátæknifyrirtækisins Teledyne Gavia, sem framleiðir kafbáta á Kársnesi, var gestur fundarins. Hann fór yfir ævintýralega sögu fyrirtækisins frá því að stofnendur gerðu tilraunir með fjarstýrða kafbáta í baðkari í heimahúsi, til dagsins í dag, þegar fyrirtækið er orðið leiðandi aðila á heimsvísu í þróun og framleiðslu á mannlausum kafbátum sem notaðir eru til rannsókna og björgunarastarfa í hafdjúpunum.

Stefán Reynisson framkvæmdastjóri Teledyne Gavia.

Kafbátar fyrirtækisins sigla ómannaðir og er þeim ætlað að leysa verkefni neðansjávar, verkefni sem ekki er hagkvæmt að framkvæma með stærri og dýrari lausnum. Viðfangsefnin geta verið viðskiptaleg, hernaðarleg eða tengd björgunarstörfum. Kafbátarnir eru búnir skynjurum og öðrum hátæknibúnaði til að skoða, mynda og rannsaka svæði neðansjávar. Bátarnir eru samsettir úr nokkrum sérhæfðum einingum, sem hægt er að skipta út og setja inn nýja sérhannaða huta í staðin, en þessi eiginleiki eykur sveigjanleika og notagildi bátanna mikið. Í framleiðslu eru þrjár tegundir báta sem vega frá 70 kg. til 1.000 kg. Bátar frá fyrirtækinu hafa m.a. verið notaðir við sprengjuleit neðansjávar, til að leysa ýmis verkefni við olíuleit og vinnslu auk þess að hafa nýst við leit að flökum eftir flug- og sjóslys. Markaðssvæði fyrirtækisins er heimurinn allur og núverandi viðskiptavinir eru ríkisstjórnir og stórfyrirtæki í Evrópu, Ameríku og Asíu.

Hjá fyrirtækinu starfa um 30 manns og sinnir um helmingur þeirra eingöngu vöruþróun og prófunum. Margir starfsmenn eru með mikla og sérhæfða menntun og ljóst að ekki er mikið framboð af störfum sem krefjast þeirra þekkingar á Íslandi. Störf sem Teledyne Gavia og önnur fyrirtæki í hátæknigeiranum skapa eru því mjög mikilvæg fyrir atvinnulífið í Kópavogi og á Íslandi.
Mjög góðar undirtektir voru við framsögu Stefáns og í kjölfarið komu margar spurningar og út frá þeim spunnust skemmtilegar umræður.

Fundurinn var vel sóttur og þakkar Markaðsstofa Kópavogs Ásdísi og Stefáni fyrir þeirra framsögu og þátttakendum fyrir mætinguna.

Á myndinni eru: Björn Jónsson framkvæmdastjóri Markaðsstofu Kópavogs, Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri í Kópavogi og Stefán Reynisson framkvæmdastjóri Teledyne Gavia.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar