Ný stefna Kópavogs í málefnum fólks af erlendum uppruna

Síðastliðnar vikur hefur jafnréttis- og mannréttindaráð unnið að nýrri og metnaðarfullri stefnu Kópavogs í málefnum fólks af erlendum uppruna (vinnuheiti). Sú vinna er komin vel af stað og áætlað er að hún klárist núna í febrúar. Mikilvægt er að stefnan klárist eftir flotta vinnu allra nefndarmanna og starfsmanna ráðsins, enda kominn tími til að endurnýja stefnu Kópavogs í þessum málaflokki.

Núverandi Stefna Kópavogs í málefnum útlendinga var gefin út í september 2001, fyrir rúmlega 10 árum. Á þessum tíma var Sigurður Geirdal bæjarstjóri. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar í þessum málaflokki. Hlutfall fólks af erlendum uppruna fer sífellt hækkandi hér á landi, og sérstaklega hér í Kópavogi. Nýir hnútar hafa myndast og sum vandamál eru enn viðloðandi þrátt fyrir langan tíma. Eitt dæmi um viðloðandi vandamál er erfiði við að nálgast mikilvægar upplýsingar um gang mála hjá bænum og stofnunum hans á öðru tungumáli en íslensku. Þetta leiðir m.a. til þess að einstaklingar, sem hafa enga eða takmarkaða kunnáttu á íslensku, fá færri tækifæri til þátttöku í íbúalýðræði bæjarins. Þetta er sífellt stækkandi hópur, og rödd þeirra skiptir máli þegar málefni bæjarins eru til umfjöllunar. Það liggur fyrir að taka þurfi skref í átt að betri nálgun svo að allir bæjarbúar geti látið rödd sína heyrast og hafi jöfn tækifæri til þátttöku. Af öllu þessu var talið nauðsynlegt að Kópavogur geri nýja stefnu sem sýnir metnað í þessum málaflokki.

Í vinnu sem þessari er mikilvægt að hafa ákveðin leiðarljós; að mannlífið endurspegli fjölmenningarlegt samfélag byggt á virðingu og tillitssemi, að allir íbúar Kópavogs njóti jafnréttis og hafi sömu tækifæri, að stofnanir og upplýsingar verði aðgengilegar öllum íbúum og að hvers kyns mismunun þrífist ekki. Í þessu samhengi sinnir Kópavogur mismunandi hlutverkum m.a. sem atvinnurekandi, verkkaupi, samstarfsaðili, gestgjafi og stjórnvald. Hvert hlutverk skiptir máli og við þurfum að greina hlutskipti þeirra við að uppfylla ofangreind leiðarljós.

Á næstu dögum verða drög að stefnunni gerð opinber í þeim tilgangi að leita samráðs meðal íbúa bæjarins. Stefnan varðar okkur öll á einn eða annan hátt og því vil ég hvetja alla áhugasama til að láta okkur vita hvað má bæta, hverju má bæta við og fleira sem á erindi við gerð stefnunnar. Ráðið hlakkar til að deila með ykkur drögunum, fá viðbrögð og að Kópavogsbær birtir að lokum stefnu sem íbúar geta verið stoltir af.

Gunnar Sær Ragnarsson
Undirritaður er formaður jafnréttis- og mannréttindaráðs Kópavogs fyrir hönd Framsóknar

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar