Náttúran sem sögupersóna á Listahátíð Vatnsdropans

Vatnsdropinn Listahátíð leitast við að draga fram þann boðskap sem klassískar norrænar barnabókmenntir hafa að bera í tengslum við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og umhverfismál. Vatnsdropinn er alþjóðlegt þriggja ára verkefni sem Kópavogur stofnaði til í samstarfi við H.C. Andersen safnið í Danmörku, Múmín safnið í Finnlandi og Undraland Ilon Wiklands í Eistlandi. Í Vatnsdropanum vinna börn frá öllum samstarfslöndum sem Ungir sýningarstjórar út frá verkum Astrid Lindgren með teikningum eftir Ilon Wikland, H.C. Andersen og Tove Jansson. Verkefnið snýst um að valdefla börn, gera þau að virkum þátttakendum í starfssemi menningarstofnana á sínum eigin forsendum.

Bókmenntir og umhverfisvernd

Umhverfisvernd byrjar á því að þekkja og þykja vænt um sitt nærumhverfi, eins og börnin sem þekkja hvern krók og kima af Ólátagarði og Múminálfarnir sem þekkja dalinn sinn. Í verkum H.C. Andersen eru sögupersónurnar oft náttúrufyrirbæri, dýr eða plöntur sem segja sögurnar. Í Vatnsdropanum spurðu hinir Ungu sýningarstjórar sig hvað gerðist ef við færum að hugsa um náttúruna sem sögupersónu, með sín eigin gildi og markmið en ekki bara sem sögusvið fyrir mannfólkið?

Krakkarnir fengu fræðslu um snertifleti umhverfismála við hversdagsleikann en líka ráð frá fólki sem hefur sérhæft sig í að koma skilaboðum á framfæri í gegnum menningu og fjölmiðla. Hvernig fær maður fólk til að gefa umhverfismálum gaum? Er það bara með tölfræði eða geta sögur, tónlist, myndlist og ljóð haft áhrif? Þarf kannski bæði vísindalega og listræna nálgun? Til að svara þessum spurningum og fleirum til, héldu þau ráðstefnu með ýmsum sérfræðingum og leituðu svara við hugðarefnum sínum. Eftir að hafa fengið yfirsýn yfir allskonar möguleika þá völdu Ungu sýningarstjórarnir sinn boðskap og sína miðlunaraðferð sem nú er orðin að listahátíð Vatnsdropans. Boðskapinn og miðlunaraðferðir áttu þau að tengja við Heimsmarkmið nr. 15, Líf á landi sem og sækja sér innblástur í hinar norrænu klassísku barnabókmenntir en annars fengu þau alveg frjálsar hendur og stuðning við að gera hugmyndir sínar að veruleika.

Göngutúr sem listform

Sem hluti af undirbúningsferli hátíðarinnar fóru Ungu sýningarstjórarnir í göngutúr um nærumhverfi Menningarhúsanna í Kópavogi. Á leið sinni æfðu þau sig í því að horfa í kringum sig eins og þau væru að uppgötva umhverfið í fyrsta sinn.

Við það að labba eða keyra alltaf sömu leið í skólann eða vinnuna gleymum við kannski að taka eftir umhverfinu okkar, en þegar maður fer út og gengur stefnulaust þá á maður möguleika á því að uppgötva nærumhverfið sitt. Hvert löbbum við þegar við leyfum hjartanu ráða? Hvernig líður okkur þegar við löbbum meðfram hraðbraut? Hvernig líður okkur að labba innan um tré? En við sjóinn? Okkar nánasta umhverfi hefur áhrif á það hvernig við hugsum og högum okkur, hvort sem við erum meðvituð um það eða ekki.

Rusl, ljósmyndir og listræn plokkáskorun #Vatnsdropinn

Í göngutúrnum kviknaði áhugi nokkurra innan hópsins á rusli sem gægðist undan snjónum. Þær Þóra og Inga ákváðu að halda göngutúrnum áfram og vopnaðar myndavélum ákváðu þær að setja sig í spor runnanna, mosans, trjánna og grassins, lífríkissins í bænum og reyna að ímynda sér hvað náttúrunni finnst um allt þetta rusl. Afrakstur þessara göngutúra og vinnu má sjá á sýningu þeirra Í Gerðarsafni; Óboðinn gestur, ljósmyndasýning og listræn plokkáskorun. Þær hvetja alla til að fara út og taka myndir af því sem við sjáum daglega í hversdagsleikanum. Þær ætla líka að stofna til listrænnar plokkáskorunar á degi plokksins, 24 apríl. Hvetja fólk til að fara út að plokka og taka myndir af því sem það finnur, setja það á samfélagsmiðla og merkja #Vatnsdropinn. Þannig segja þær að allir geti tekið þátt í að skapa listahátíð á samfélagsmiðlum og vakið um leið athygli á nærumhverfi okkar.

Það voru margir hugarflugsfundir sem Ungu sýningarstjórarnir unnu í ferlinu

Börnum er annt um líffræðilegan fjölbreytileika

Ein af grunnstoðum verkefnisins er Heimsmarkið Sameinuðu þjóðanna og í ár var það markmið nr. 15, líf á landi. Eftir að Ungu sýningarstjórarnir höfðu velt fyrir sér fjöldanum öllum af mögulegum nálgunum að því viðfangsefni stóð dýravernd upp úr sem eitt af mikilvægu málefnum dagsins í dag. En hvaða dýr eru í útrýmingarhættu á Íslandi og hvað er verið að gera til að hjálpa þeim? Ungu sýningarstjórarnir í Vatnsdropanum höfðu heyrt af dýrum í útlöndum sem eru í útrýmingarhættu, dýrum eins og pandabjörnum, nashyrningum og tígrisdýrum og að sjálfsögðu geta krakkar á Íslandi gert allskonar til þess að hjálpa þeim, vakið athygli á málefninu, safnað undirskriftum og/eða peningum. En hvað er hægt að gera til að passa upp á líffræðilegan fjölbreytileika á Íslandi og þau dýr sem eru í útrýmingarhættu hér? Það kom sér vel að vera með bækistöð í Menningarhúsunum og geta skellt sér á Náttúrufræðistofu Kópavogs þar sem mikinn fróðleik er að finna um dýralíf á Íslandi. Þó að ekki séu til tígrisdýr á Íslandi þá eru hér jafn spennandi og fágæt dýr og sagan af geirfuglinum kennir okkur að við getum ekki tekið tilvist þeirra sem gefnum hlut.

Hlaðvarpið Dropinn

Hluti hópsins, þær Ágústa, Birta, Elena, Karen, Lóa, Matthildur og Sóllilja, ákvaðu að miðla sínum boðskap í hlaðvarpi sem þær skrifuðu og tóku upp sjálfar. Þær fengu til sín sérfræðing í líffræðilegum fjölbreytileika, líffræðinginn Jóhannes Bjarka Urbancic Tómasson og spurðu hann spjörunum úr. Þær uppgötvuðu að líf á landi er mjög samofið lífinu í sjónum og að örlög margra dýra veltur á velgengni plönturíkisins. Við hvetjum alla sem vilja læra meira um hið magnaða, einstaka, viðkvæma en þrautseiga vistkerfi okkar á Íslandi og hvernig við getum verndað það, að hlusta á hlaðvarpið Dropann í Náttúrufræðistofu Kópavogs. Eins er það væntanlegt á vef Vatnsdropans.

Matthildur, Karen Sól og Sóllilja taka viðtal við Jóhannes fyrir hlaðvarpið

Ljóðabók náttúrunnar

Tveir Ungir sýningarstjórar þau Héðinn og Agla, ákváðu að kynnast betur fuglategundum á Íslandi, fyrst með því að lesa fræðigreinar en síðan með því að teikna myndir og semja um þá ljóð. Ljóðabók náttúrunnar er ljóðabók með ljóðum eftir Öglu og myndskreytingar eftir Héðin og er óður til íslensks lífríkis. Við þurfum að þekkja vistkerfin á Íslandi til að geta verndað þau, en það eru til fleiri leiðir til að kynnast náttúrunni en með því að rannsaka hana vísindalega. Hver þekkir náttúruna betur en rithöfundar, ljóðskáld og myndlistarfólk sem helgar líf sitt verkum sem fanga fegurð hennar? Ljóðabókin verður til sýnis á Bókasafni Kópavogs svo öll börn geti skoðað og leikið sér með formið.

Snorri Freyr leikmyndahönnuður og Héðinn vinna að útfærslu ljóðabókarinnar
Brynja er önnur af þeim sem stendur fyrir Matargatinu á Listahátíð

Krakkar vilja læra að rækta mat heima hjá sér

Þær Brynja og Sigurlín vildu fræðast um mat, hvaðan hann kemur, hvaða áhrif matarframleiðsla hefur á umhverfið og hvernig hægt er að minnka mengun af völdum hennar. Í umræðunni um náttúruna sem sögupersónu ræddi hópurinn meðal annars um ræktun af mörgum toga. Á þeirri vegferð kynntust þær Brynja og Sigurlín lífrænni ræktun, að gott sé að velja lífrænar vörur við matarinnkaup en einnig hvernig á að bera sig að við ræktun matjurta heima fyrir. Þær vilja hvetja börn og fullorðna til þess að hugsa betur út í það hvaðan maturinn okkar kemur og gera kröfu um að hann mengi sem minnst. Á listahátíð Vatnsdropans bjóða þær öllum krökkum upp á smiðju þar sem þær sýna fram á hvernig allir geta ræktað mat heima og þá um leið eldað hollan og góðan mat fyrir sig og alla fjölskylduna.

Við hvetjum alla til að leggja leið sína í Menningarhúsin á Listahátíð Vatnsdropans, kynnast náttúrunni sem sögusviði og hvernig hinir Ungu sýningarstjórar hvetja alla með sínum verkum og sinni sýn að því að gera umhverfið okkar betra og heilnæmara.

Forsíðumynd: Friðrika Eik, Birta Mjöll og Matthildur í leiðangri í Náttúrufræðistofu Kópavogs

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar