Breiðablik hefur átt farsælt samstarf við N1 síðustu ár og hefur fyrirtækið átt sitt pláss á keppnistreyjum knattspyrnudeildar og verður engin breyting á því. Samningurinn var undirritaður til næstu 4 ára á Kópavogsvelli á dögunum.
Í frétt frá Breiðablik í tilefni undirritunarinnar segir m.a. að það skipti félag eins og Breiðablik gríðarlega miklu máli að eiga liðsfélaga eins og N1 hvort sem það snýr að afreksstarfi, yngri flokkum eða meistaraflokkum. N1 leggur mikið upp úr samfélagsábyrgð og eru íþróttastyrkir einn af þeim grunnstoðum.
Krónan endurnýjaði einnig samning sinn við Breiðablik og er ekki hægt annað að segja en félögin tvö styðji vel við íþróttastarf í bæjarfélaginu. ,,Breiðablik þakkar kærlega fyrir framlengingu á okkar góða samstarf sem hefur verið gæfuríkt undanfarin ár. Markmiðið er að halda áfram á sömu braut saman með stórum og smáum sigrum,” segir í fréttinni.
Mynd: Hinrik Örn Bjarnason framkvæmdastjóri N1 (t.h.) skrifaði undir fyrir hönd N1 og Eysteinn Lárusson framkvæmdastjóri Breiðabliks fyrir hönd Breiðabliks