Munar þig um 600 þúsund krónur?

Útsvarið er mikilvægasti tekjustofn sveitarfélaga og fjármagna stóran hluta reksturs sveitarfélaga, eins og skólamál, þjónustu við eldri borgara, snjómoksturinn, þjónustu við eldri borgara, þarfir fatlaðra og þar fram eftir götum. Mikilvægt er að samþætta góða þjónustu sveitarfélaga og hóflega skattheimtu og álögur. Útsvartekjur Kópavogs voru árið 2020 24,6 milljarðar króna og höfðu þá hækkað um 24% að raunvirði á hvern íbúa bæjarins frá 2014 þegar útsvartekjurnar voru 14,47 milljarðar króna.

Aðeins um skatta til sveitarfélaga

Íslenskt launafólk greiðir meira í útsvar en í tekjuskatt. Árið 2017 fengu sveitarfélögin nær 193 milljarða í sinn hlut af launatekjum í formi útsvars en ríkissjóður 139 milljarða að teknu tilliti til barna- og vaxtabóta. Lækkun útsvars er því eitt stærsta hagsmunamálið.

Hjón á meðallaunum spara sér 600 þúsund á einu kjörtímabili

Meðaltal heildarlauna á Íslandi árið 2020 voru 794 þúsund krónur. Fyrir par þar sem báðir einstaklingarnir eru á meðallaunum munar því miklu um útsvarsprósentu sveitarfélagsins sem þau búa í. Kjósi parið búsetu í Kópavogi greiða þau 14,48% útsvar en ef þau kysu sér búsetu í Garðabæ er útsvarsprósentan nokkru lægri, eða 13,7%. Yfir næsta kjörtímabil myndi parið í þessu dæmi spara sér 600 þúsund krónur í greitt útsvar á því að búa í Garðabæ.

Kópavogur á að fylgja eftir góðu fordæmi nágranna okkar í Garðabæ og lækka útsvarið. Háir skattar eru ekki ávísun á góða þjónustu. Setjum okkur metnaðarfull markmið um að lækka útsvarið í 13,7% á næsta kjörtímabili.

Andri Steinn Hilmarsson, varabæjarfulltrúi, sækist eftir 2.-3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar