Síðastliðið haust lögðu Píratar fram tillögu í menntaráði Kópavogsbæjar um að val um grænkerafæði (vegan – án dýraafurða) skyldi tryggt í öllum mötuneytum leik- og grunnskóla auk félagsmiðstöðva eldri borgara í Kópavogi.
Hingað til hefur það verið undir hverri og einni stofnun komið hvort og þá hversu oft grænkerafæði er í boði. Alla jafna er tekið tillit til þess ef um ofnæmi er að ræða, eða tiltekinnar fæðu er ekki neytt af trúarlegum ástæðum, en ekki er á sama hátt komið til móts við þau sem kjósa að neyta ekki dýraafurða af m.a. siðferðislegum ástæðum. Þess má geta að breskir dómstólar hafa úrskurðað að þegar fólk er grænkerar af siðferðilegum ástæðum beri að líta á það sem lífsskoðun og grænkerar njóta þannig sömu lögverndar gegn mismunun og trúaðir á breskum vinnustöðum. Þetta er til eftirbreytni!
Það eru margvísleg rök fyrir því að bjóða upp á grænkerafæði í mötuneytum á vegum bæjarins. Fyrir utan það að virða sjálfsákvörðunarrétt fólks þegar kemur að því að neyta dýraafurða þá er grænkerafæði jafnframt umhverfisvænni valkostur en dýraafurðir. Þar að auki hentar það jafnframt fyrir flest algengustu ofnæmin, óþol og trúarbrögð. Það væri því tilvalið að hafa einfaldlega grænkeramat sem aðalrétt endrum og sinnum.
Í desember fór af stað vinna við úttekt mötuneyta í bænum, þar sem matvælafræðingar rýna stöðuna á framboði á grænkerafæðis í hverri stofnun fyrir sig, og veita í framhaldinu ráðgjöf um úrbætur þar sem við á. Nú styttist því vonandi í að við getum loks boðið öllum börnum og eldri borgurum í Kópavogi upp á mat í samræmi við þeirra þarfir!
Sigurbjörg Erla Egilsdóttir
Bæjarfulltrúi Pírata í Kópavogi