Minnihlutinn leggur til hagræðingu í stjórnsýslunni og gagnrýnir lóðarúthlutanir – kallar eftir jafnræði og ábyrgð  

Á síðasta fundi bæjarráðs Kópavogs lagði Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri fram hagræðingartillögur vegna kostnaðar við nýja kjarasamninga kennara og lagði hún m.a. til lækkun launa bæjarfulltrúa og bæjarstjóra.  

Bæjarfulltrúa Viðreisnar, Theódóru S. Þorsteinsdóttur, ásamt öðrum fulltrúum minnihlutans þótti ekki nógu langt gengið og lögðu þau fram tillögur að frekari hagræðingu í rekstri bæjarins.

Tillögurnar minnihlutans fela meðal annars í að lækka launa bæjarstjóra til jafns við aðra kjörna fulltrúa, lækkun álagsgreiðslna til formanna nefnda og forseta bæjarstjórnar og að horfið verði frá greiðslum fyrir stjórnarsetu í slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. Þá er lagt til að framkvæmdum við byggingu stúku fyrir HK verði frestað og samráð við almenning aukið við fjárhagsáætlunargerð bæjarins. 

Meðfylgjandi eru breytingartillögurnar sem minnihlutinn lagði fram til viðbótar við hagræðingartillögur bæjarstjóra:  

  1. Lækka laun bæjarstjóra um 10%, áætlaður sparnaður á ársgrundvelli 3.000.000 kr.  
  2. Endurskoða upphæð akstursgreiðslna bæjarstjóra, kostnaður á ársgrundvelli er nú um 2.100.000 kr.  
  3. Gera tillögu til stjórnar slökkviliðsins þess efnis að hætt verði að greiða fyrir stjórnarsetu í slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. Áætlaður sparnaður fyrir Kópavogsbæ á ársgrundvelli um 3.000.000. kr.  
  4. Lækka álag fyrir formennsku í nefndum og ráðum sem og fyrir forseta bæjarstjórnar niður í 20% álag, áætlaður sparnaður á ársgrundvelli 4.000.000 kr.  
  5. Fresta byggingu stúku fyrir HK og endurskoða þarfagreiningu í nánu samstarfi við HK.  
  6. Kalla eftir hagræðingartillögum frá almenningi í tengslum við næstu fjárhagsáætlunargerð.  
    „Með þessum tillögum viljum við leggja áherslu á ábyrgð, hófsemi og gagnsæi í stjórnsýslu. Við viljum að sveitarfélagið sýni fordæmi með aðhaldi í eigin rekstri áður en þjónusta við bæjarbúa er skert,“ segir Theódóra í bókun minnihlutans. 
     
    Theódóra var spurð nánar um þessar hægræðingatillögur minnihlutans, en m.a. er lagt til að lækka laun bæjarstjóra og endurskoða upphæð aksturgreiðslna hans. Þá er lagt til að álag fyrir formennsku í nefndum og ráðum sem og fyrir forseta bæjarstjórnar verði lækkað niður í 20% álag og með þessari lækkun taki launin mið af raunverulegri vinnu og ábyrgð sem fylgir formennsku og forsetahlutverkum.

Erum að aðstoða bæjarstjóra við að hækka upphæðina sem gæti sparast

Hafa þessar tillögur mikil áhrif á reksturinn og er Kópavogsbær í raun greiða of há laun fyrir þessi störf og nefndarsetu að ykkar mati?  ,,Við vorum fyrst og fremst að mæta bæjarstjóra með þeim tillögum sem hún lagði fram og aðstoða hana við að hækka upphæðina sem gæti sparast. Það er jú oft gott að byrja á sjálfum sér þegar það á að fara í niðurskurð en tillaga Ásdísar var nokkuð óljós hvað hana sjálfa varðar. Okkur reiknast til að hún hafi verið að leggja til 1,8% lækkun á hennar launum en 10% á okkar launum. Við tökum því fagnandi en viljum að það gildi um bæjarstjórann líka. Launin hennar eru um 3 milljónir á mánuði. Árið 2018 lagði þáverandi bæjarstjóri fram sambærilega tillögu um að lækka laun hans og kjörinna fulltrúa um 15% og það átti við um heildarlaunin hans líka.“ 

Jafngildir um 60 kílómetra akstri hvern einasta vinnudag.

,,Hvað varðar tillögu 2 um að endurskoða akstursgreiðslur bæjarstjóra þá er kveðið á um fastar mánaðarlega greiðslur í ráðningarsamningi hennar sem nema 1.250 kílómetrum í hverjum mánuði út kjörtímabilið. Þetta er nokkuð mikill akstur og jafngildir um 60 kílómetra akstri hvern einasta vinnudag. Ég veit ekki hvert hún gæti farið vegna vinnu sinnar til að réttlæta þessar vegalengdir. Okkur finnst eðlilegt að endurskoða þetta þannig að aksturinn endurspegli raunverulega þörf, það gæti sparað okkur milljónir,“ segir Theódóra.

Okkur finnst þetta embætti töluvert yfirborgað miðað við starfsskyldur.

,,Hvað varðar tillögu 4 um að lækka álag þá eru bæjarfulltrúar eru með 462 þúsund á mánuði en forseti bæjarstjórnar er með álag og fær greitt 709 þúsund á mánuði. Okkur finnst þetta embætti töluvert yfirborgað miðað við starfsskyldur. Því óhætt að lækka álagið á forseta og aðra formenn nefnda. Við erum ekki að tala um að taka þetta álag af heldur einungis að lækka það úr 50% í 20%,“ segir hún en minnihlutinn horfir á að þetta verði launalækkun til frambúðar,“ segir hún.

Kópavogsbær er rekinn á yfir 5 milljarða króna yfirdráttarheimild

Þá viljið þið fresta byggingu stúku og keppnisvallar fyrir HK og endurskoða þarfagreiningu í nánu samstarfi við HK – hvaða sparnað sérðu fyrir þér þarna?  ,,Fyrst og fremst vegna þess að framkvæmdir hafa að mestu verið fjármagnaðar með lántökum á óhagstæðum kjörum. Ég skal útskýra það,“ segir hún og heldur áfram: ,,Nú í febrúar var sótt um að hækka yfirdráttarheimildina úr 4 milljörðum í yfir 5 milljarða til að tryggja greiðsluflæði. Veltufjárhlutfall A-hluta bæjarsjóðs er það lágt að það er í raun orðið varhugavert. Veltufé frá rekstri dugar varla til að greiða afborganir lána en þá á eftir að fjármagna allar fjárfestingar sem hefur verið gert nær alfarið með lántökum. Í áætlunum hefur verið og mun verða 4-5 milljarða króna lántaka á hverju einasta ári. Bæði í formi langtímalána og rándýrum skammtímalánum. Óhagstæð skammtímalán eru allt of tíð. Á síðasta ári voru þau nokkur. Bara lánið í okt sl. var 1,5 milljarður til 6 mánaða og kostaði okkur um 80 milljónir bara í vexti.“

Besta hagræðingatillagan er að stöðva stjórnlausar lántökur

,,Besta hagræðingatillagan er að stöðva stjórnlausar lántökur og gera áætlun um að greiða niður skuldir. Kópavogsbær hefur á síðustu kjörtímabilum hafið vinnu m.a. við að byggja grunnskóla, leikskóla og íbúðakjarna fyrir fatlaða. Við rétt ráðum við það. Þess vegna lagði minnihlutinn fram tillögu um að fresta byggingu á nýrri stúku fyrir HK sem á að kosta skv. áætlunum 2,3 milljarða. „

Vill fresta framkvæmdum í Kórnum þar til betur árar og að bæjarsjóður fari aftur að skila betri afgang

Minnihlutinn hefur almennt ekki verið fylgjandi þessari framkvæmd við Kórinn. Hafið þið áhuga að fresta henni til nokkurra ára eða viljið þið fara strax í samtal við HK um frekari þarfagreiningu með tilliti m.a. til hagræðingar og hefja svo framkvæmdir á þessu ári, eins og stefnt er á?  ,,Það er rétt, ég hef talað um það allt þetta kjörtímabil að fresta þessari framkvæmd þar til betur árar og að bæjarsjóður fari aftur að skila betri afgang. Þar fyrir utan þá erum við í umfangsmiklum verkefnum m.a. við að byggja grunnskóla, leikskóla og íbúðakjarna fyrir fatlaða sem sveitarfélagið rétt ræður við. Til dæmis þá vinnur Kópavogsbær að byggingu fjögurra nýrra leikskóla sem hefur verið í undirbúningi lengi. Þetta er leikskólinn í Kársnesskóla (opnar haust 2025), leikskólinn við Skólatröð (opnar haust 2026) , leikskólinn við Naustavör (opnar haust 2027) og leikskóli í Vatnsendahvarfi (opnar haust 2028). Einnig er verið að byggja nýjan Kársnesskóla og nýjan grunnskóla í Vatnsendahvarfi og íbúðakjarna fyrir fatlaða sem þyrfti að ganga miklu hraðar til vinna á biðlistum. Jafnframt fékk bæjarráð erindi frá HK nýverið þar sem þau lýsa yfir vonbrigðum með skorti á samráði við félagið er varðar stúkubygginguna. Þrátt fyrir samráðshóp á síðasta kjörtímabili þá hafa þau ekkert heyrt frá Kópavogsbæ. Þau hafa ítrekað óskað eftir upplýsingum og fundum til að fá að taka þátt í umræðu um útfærslu mannvirkisins en ekki fengið viðbrögð, ekki fyrr en þau sendu inn erindi nýverið. Þau telja að það mætti útfæra þessa framkvæmd með hagkvæmari og skilvirkari nýtingu fjármagns. Mér finnst réttast að hlusta á félagið og undirbúa verkefnið miklu betur enda liggur ekkert á. Ég veit að það er þrýstingur í pólitíkinni að hefja framkvæmdir fyrir kosningar, þannig er það alltaf, en það væri óskandi að meirihlutinn sýni hér örlitla skynsemi,“ segir hún. 

Að lokum viljið þið kalla eftir hagræðingartillögum frá almenningi í tengslum við næstu fjárhagsáætlunargerð, svipað og ríkisstjórnin gerði nýverið. Teljið þið bæjarbúa luma á einhverjum góðum hugmyndin til að hagræða í rekstri sveitarfélagsins?  ,,Við vitum það ekki fyrr en á reynir en mér þætti áhugavert að fara í samráð við íbúa og starfsfólk stofnana og sjá hvað kemur út úr því.  

Þess má geta að bæjarráð samþykkti að vísa tillögum bæjarstjóra vegna hagræðingar í rekstri til nánari útfærslu á skrifstofu áhættu- og fjárstýringar í samræmi við tillöguna, auk breytingatillagna fulltrúa minnihluta og áheyrnarfulltrúa. 

Gagnrýna úthlutanir í Vatnsendahvarfi – skortir fjölbreytni og félagslegt sjónarhorn 

Theódóra sat einnig hjá þegar meirihlutinn í bæjarstjórn samþykkti úthlutun síðustu fjölbýlislóða í nýrri byggð við í Vatnsendahvarfi því engin lóð var tekin frá fyrir óhagnaðardrifin byggingarfélög. 

Í bókun minnihlutans kom fram að slíkt fyrirkomulag stuðli að einsleitni í hverfauppbyggingu og skorti á húsnæði fyrir ákveðna hópa í samfélaginu, þar sem framboð á hagkvæmu leiguhúsnæði sé af skornum skammti í Kópavogi. 

Snýr að mestu að flýta uppbyggingu íbúða og tryggja framboð húsnæðis á viðráðanlegu verði

Þið gagnrýnið að ekki hafi verið úthlutað neinum lóðum til óhagnaðardrifinna byggingarfélaga, hvers vegna er það mikilvægt? Og hvers konar fjölbreytni eða jafnvægi vantar núna í uppbyggingu nýrra hverfa í Kópavogi?  ,,Það hefur ekki verið góð staða á húsnæðismarkaði eftir margra ára óstöðugleika þar sem miklar sveiflur hafa verið í bæði húsnæðisverði og byggingu íbúða. Staða tekju- og eignalægri fjölskyldna á húsnæðismarkaði hefur farið versnandi. Það er í gildi rammasamningur milli ríkisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga um að sameinast um stefnu og aðgerðir sem og á að vera samstillt átak. Sigurður Ingi fyrrum ráðherra skrifaði undir samninginn við Samband sveitarfélaga og á að gilda til 2032.
Sveitarfélögum er gert að gera húsnæðisáætlanir til halda utan um áform þessa rammasamnings. Síðan stóð til að gera samning við einstök sveitarfélög um markmiðin. Hér á höfuðborgarsvæðinu var það einungis Reykjavíkurborg sem stóð við það en hin sveitarfélögin, sem hafa að mestu verið stýrð af Sjálfstæðisflokknum, hafa ekki staðið við að gera samning og fara alls ekki eftir þessum markmiðum í því sem átti að vera sameiginlegt átak.
Þetta snýr að mestu að því að flýta uppbyggingu íbúða og tryggja framboð húsnæðis á viðráðanlegu verði. Það á skv. rammasamningnum að leggja sérstaka áherslu á uppbyggingu hagkvæmari íbúða á viðráðanlegu verði og að hlutfall þeirra verði að jafnaði um 30% nýrra íbúða. Hagkvæmar íbúðir á viðráðanlegu verði geta m.a. verið íbúðir innan almenna íbúðakerfisins, hlutdeildarlánaíbúðir og aðrar íbúðir sem njóta einhvers konar stuðnings stjórnvalda og er ætlað að leysa úr húsnæðisþörf tekju – og eignalægri hópa. Þar með talið námsmanna, ungs fólk, fyrstu kaupendur, öryrkjar og eldra fólks,“ segir Theódóra.

Nú eru liðin 3 ár og ekkert bólar á skipulagi við Vatnsendahlíð og gengið hefur illa að leysa úr gölluðu skipulagi

,,Meirihluti Sjálfstæðisflokk og Framsóknar hafa ekki viljað einbeita sér að þessu sameiginlega átaki og vilja treysta á að aukið framboð lóða til hæstbjóðenda leysi allan vanda. Þrátt fyrir það hefur uppbygging í Kópavogi meira og minna verið fryst á þessu kjörtímabili. Þegar þau tóku við eftir kosningar 2022 þá voru áform um að það væri hægt að fjölga um 5.600 íbúðir í Kópavogi á næstu tveimur áratugum á sex svæðum í bænum. Þessi fjölgun þýðir íbúafjölgun um 15.000 en íbúar eru um 40.000 í dag. Á þessum tíma var mikil uppbygging farin af stað, t.d á Traðarreit eystri við Digranesveg, í Fannborginni, í Smáranum, í Glaðheimum, Vatnsendahvarfi og til stóð að fara á stað með skipulagsvinnu í Vatnsendahlíð svo dæmi séu tekin. Nú eru liðin 3 ár og ekkert bólar á skipulagi við Vatnsendahlíð og gengið hefur illa að leysa úr gölluðu skipulagi sem þessir sömu flokkar lögðu til á Fannborgarreitnum. Glaðheimar eru stopp. Síðan tók alltof langan tíma að klára skipulag og úthlutun lóða við Vatnsendahvarf. Skipulagsvinnan þar hófst árið 2020 og það er fyrst núna verið að úthluta þeim lóðum.“

Minnihlutanum kallar eftir að Kópavogsbær taki þátt í sameiginlegu húsnæðisátaki með ríkinu og tryggi framboð fyrir tekju- og eignalægri hópa

,,Það eina sem við í minnihlutanum erum að kalla eftir er að Kópavogsbær taki þátt í sameiginlegu húsnæðisátaki með ríkinu og tryggi framboð fyrir tekju- og eignalægri hópa. Fulltrúar Framsóknar og Sjálfstæðisflokks fóru þá leið að bjóða allar lóðirnar út og afhentu hæstbjóðanda. Samt sem áður kemur fram í húsnæðisáætlun Kópavogsbæjar að 35% skattgreiðenda séu undir tekju- og eignamörkum. Því væri eðlilegt að skipuleggja uppbyggingu með þeim hætti að þriðjungur húsnæðis henti þessum íbúum bæjarins. Það er okkar hlutverk að tryggja fjölbreytt framboð húsagerða og búsetukosta fyrir alla félagshópa. Þess vegna höfum við komið með tillögur en þeim er alltaf hafnað. Jafnvel hafnað af Framsóknarflokknum í Kópavogi sem er um leið að hafna átaki síns eigin ráðherra.“  

Það að lóðirnar séu orðnar að fjáröflun fyrir sveitarfélagið hækkar auðvitað allan húsnæðiskostnað íslenskra heimila

En er ekki mikilvægt að Kópavogsbær, fyrir hönd bæjarbúa, hámarki verð fyrir lóðir í eigu bæjarfélagsins?  ,,Húsnæði er auðvitað afgerandi þáttur í velferð fólks og ákveðnar grunnþarfir. Þess vegna þurfum við að taka mið af raunveruleika fólks, aðstæðum og að þeim líði vel. Mér finnst ekki heppilegt að vera eingöngu drifin áfram af þeirri hugsun að græða. Sveitarfélagið á að ráða við uppbyggingu fyrir alla hópa. Það að lóðirnar séu orðnar að fjáröflun fyrir sveitarfélagið hækkar auðvitað allan húsnæðiskostnað íslenskra heimila. Í sumum tilfellum er kostnaður kominn upp í 25 milljónir á hverja íbúð áður en byrjað er að byggja. Við vitum alveg hvaða áhrif það hefur. Sumir hafa jafnvel sagt að þegar lóðir seljast á uppsprengdu yfirverði sé það í raun skattur á íbúa. Ef sveitarfélög þurfa auknar tekjur þá eru til aðrar leiðir til þess,“ segir hún. 
 
Og þið teljið það ábyrgð sveitarfélagsins að tryggja húsnæði fyrir tekjulægri hópa? ,,Já, við teljum það skýra ábyrgð sveitarfélagsins að tryggja húsnæði fyrir tekjulægri hópa. Það er bæði lagaleg skylda sem og sjálfsagt grundvallaratriði í velferðarsamfélagi að allir hafi aðgang að öruggu og viðeigandi húsnæði, óháð efnahag,“ segir Theódóra að lokum.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar

Vefkökur og persónuvernd

Vefur kgp.is notast við vefkökur í þeim tilgangi að veita þér sem bestu upplifun þegar þú heimsækir okkur á vefnum.  Vefkökurnar eru vistaðar í vafranum þínum og þjóna m.a. þeim tilgangi að kerfið "þekkir þig" þegar þú kemur aftur á vefinn okkar.  Þannig þarftu t.d. ekki að fara aftur í gegnum samþykktarferlið fyrir vefkökur, ert ekki spurð(ur) aftur og aftur hvort þú vilt skrá þig á póstlista eða um aðra virkni sem þú hefur annað hvort samþykkt eða hafnað í fyrri heimsóknum o.fl. o.fl.

Þú getur stillt vefkökurnar hér til vinstri.

Með kærri kveðju,
Starfsfólk KGP.is vefsins