Mikilvægt að viðhalda lestrarfærni

Sumarlestur á Bókasafni Kópavogs hefst 25. maí

Bókasafn Kópavogs hefur lengi boðið upp á sumarlestur fyrir grunnskólabörn, sérstaklega ætlað börnum í 1. – 6. bekk og elstu börnum leikskólanna. Flestir þekkja mikilvægi þess að viðhalda þeirri lestrarfærni sem áunnist hefur yfir skólaárið og er sumarlesturinn flott tækifæri til að halda í þá færni og hvetja börn til að halda áfram að æfa sig yfir sumartímann.

Í ár hefst sumarlesturinn þriðjudaginn 25. maí og stendur til 23. ágúst. Verður hann með rafrænum hætti í ár þar sem börn geta farið inn á sérstaka síðu sem auglýst verður þegar nær dregur og skráð inn hvað þau er að lesa hverju sinni.

Uppskeruhátíð sumarlesturs er síðan haldin hátíðleg áður en skólarnir hefjast að nýju. Mun starfsfólk bókasafnsins dreifa bókamerkjum sem hönnuð voru fyrir þetta tækifæri í skólana og börn fá í hendurnar fyrir skólalok. Prýða myndir eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur merkin.

Starfsfólk bókasafnsins hlakkar mikið til að taka á móti sumarlestrarhestum í sumar! Verið velkomin.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar