Mikilvægasta skipulagsmálið – Reykjanesbraut í stokk

Fólk kýs að búa í Kópavogi vegna þess að hér er gott að búa. Við erum miðsvæðis, þjónustustigið er hátt, stutt í stór útivistarsvæði, skólar í fremstu röð og öflug íþrótta- og tómstundastarfsemi. Það er hægt að sækja flesta þjónustu innan sveitarfélagsins, en það sem helst vantar eru götur eða hverfi þar sem hægt er að gera sér glaðan dag, setjast í drykk með vinum eða fjölskyldu, eða snæða góðan mat. Tækifæri eru fyrir hendi í nýrri Hamraborg, vestast á Kársnesi, og svo þar sem nú aka tugþúsundir bíla dag hvern, á sjálfri Reykjanesbrautinni sem nú klýfur Glaðheimasvæðið og Lindirnar annars vegar, og Smárans hins vegar.

Um miðjan þennan mánuð er að vænta niðurstöðu dómnefndar í hugmyndasamkeppni um Reykjanesbrautina, þverun hennar og svæðið í kring. Ég hlakka til að sjá hver niðurstaðan verður en hef áhyggjur af því að það verði ekki hugsað nógu stórt. Kostnaður við gerð loks, eða stokks yfir Reykjanesbrautina hleypur á tugum milljarða og því er hætt við því að horft verði til ódýrari lausna á borð við göngubrýr eða undirgöng.

Kostirnir við að leggja Reykjanesbraut í stokk gefa möguleika til uppbyggingar og til skipulags samhangandi byggðar beggja vegna Reykjanesbrautarinnar og með slíkri uppbyggingu næðist kostnaður að hluta til baka. Skapast þá um leið miklir möguleikar á breyttu skipulagi atvinnusvæðisins sunnan Smáralindar með blandaðri byggð íbúða, þjónustu og skrifstofuhúsnæðis.

Reykjanesbraut í stokk er risastórt umhverfismál og fæli í sér umhverfisgæði þar sem umferð færi ekki lengur í gegnum hverfið og býður upp á möguleika á vistvænni samgöngum.

Það er ljóst að rask verður á umferð um Reykjanesbrautina verði farið í framkvæmdir við göngubrýr eða aðrar þveranir. Ég óttast að annað Miklubrautarmál sé í uppsiglingu, þar sem voru gríðarlegar umferðartafir svo mánuðum skipti vegna framkvæmda við hljóðmön en þegar framkvæmdum var nýlokið voru kynnt áform borgarinnar að leggja veginn í stokk. Lærdómurinn sem draga má af því er að horfa til framtíðar áður en farið er í einhverjar vanhugsaðar framkvæmdir.

Það er verkefni bæjarfulltrúa okkar Kópavogsbúa að leiða þessi mál til lykta á næsta kjörtímabili. Hugsum stærra, hugsum til lengri tíma. Þannig náum við árangri.

Andri Steinn Hilmarsson, sækist eftir 2. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins 12. mars nk.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar