segir Vilhjálmur Kári Haraldsson þjálfari kvennaliðs Breiðabliks sem mætir Fylki í kvöld í Pepsi-Max
Breiðablik mætti Fylki í sínum fyrsta leik í Pepsí-Max deildinni í kvöld, en eins og flestum er kunnugt tók Vilhjálmur Kári Haraldssonvið liðinu 4. febrúar sl. eftir að Þorsteinn Halldórsson tók við þjálfun kvennalandsliði Íslands og Kópavogspósturinn byrjaði að spyrja Villa um þessa atburðarrás.
Ætlaði að snúa mér að öðrum verkefnum
Má ekki segja að þú hafir tekið nokkuð óvænt við liðinu þegar Þorsteinn Halldórsson, þáverandi þjálfari liðsins, ákvað að að taka við A-landsliði Íslands í lok janúar og þú ert ráðinn í byrjun febrúar þegar undirbúningstimabilið er komið vel á veg? ,,Það má með sanni segja að þetta hafi verið óvænt því ég var búinn að gefa út að ég myndi snúa mér að öðrum verkefnum,“ segir hann.
Erfitt að hafna tækifæri sem þessu
Þurftir þú einhvern umhugsunarfrest eða stökkstu bara beint á vagninn? ,,Í rauninni ekki, þegar svona spennandi verkefni kemur upp þá er erfitt að hafna tækifæri sem þessu. Ég ráðfærði mig við fjölskylduna sem studdi mig í því að stökkva á vagninn.“
Erfitt þar sem búið er að móta liðið að mestu leyti
En hvernig var að koma inn á þessum tímapunkti, þegar undirbúningur liðsins var nokkuð vel á veg kominn? ,,Auðvitað er það alltaf erfitt þar sem búið er að móta liðið að mestu leyti en ég tel mig hafa tekið við góðu búi og er með frábært samstarfsfólk í þessu verkefni sem auðveldar hlutina.“
Mikil áskorun að byggja upp nýtt lið
Og svo að sumrinu og Íslandsmeisturunum sem þú ert tekinn við, það er ekki bara nýr þjálfari í brúnni heldur hafa orðið miklar breytingar á leikmannahópnum og stórir póstar horfið á braut úr leikmannahópnum. Þetta verður sjálfsagt mikil áskorun að halda liðinu í fremstu röð og hvernig er leikmannahópurinn sem þú hefur í höndunum í dag? ,,Það er sannarlega mikil áskorun að byggja upp nýtt lið en við teljum okkur byggja á sterkum grunni, nokkrir lykilmenn eru áfram, við fáum til baka mjög sterka leikmenn úr meiðslum og fæðingarorlofi og svo hafa nýir leikmenn verið að koma vel inn í hópinn.“
Ætlið þið að bæta við leikmönnum í hópinn? ,,Það er líklegt að því að við bætum við leikmönnum í hópinn og það skýrist vonandi fljótlega.“
Við erum á réttri leið
Á hvaða stað finnst þér liðið vera í dag – gríðarlega miklar breytingar – hvernig hefur gengið að pússla þessu saman og eruð þið tilbúin í Íslandsmótið? ,,Það hefur gengið nokkuð vel í undirbúningsleikjunum svo ég tel að við séum á réttri leið og við erum klár í slaginn.“
Verður erfiður leikur við Fylki
Fyrsti leikur Íslandsmóstsins er á móti Fylki – hvernig líst þér á þann leik? ,,Leikurinn gegn Fylki verður erfiður. Fylkir hefur bætt við sig góðum leikmönnum og hefur gengið vel hjá þeim í leikjunum í vetur.“
Og hver eru svo markmiðin fyrir sumarið hjá Breiðablik? ,,Markmiðið er að keppa til sigurs í öllum leikjum sumarsins.“
Deildin verður jafnari en í fyrra
Og verður þetta barátta við Val um Íslandsmeistaratitilinn, sem er spáð titlinum í ár, eða geta fleiri lið blandað sér í þessa baráttu? ,,Það er líklegt að deildin verði jafnari en í fyrra og fleiri lið blandi sér í baráttuna. Samkvæmt fréttum eru mörg lið til dæmis að fá til sín erlenda leikmenn sem koma vonandi með gæði í deildina og gera hana ennþá skemmtilegri,“ segir Villi en næsti leikur liðsins er við ÍBV út í Vestmannaeyjum, mánudaginn 10. maí.
Á myndinni efst eru Úlfar Hinriksson tæknilegur ráðgjafi, Aron Már Björnsson styrktarþjálfari, Vilhjálmur Kári Haraldsson þjálfari, Ólafur Pétursson aðstoðar- og markmannsþjálfari og Kristrún Lilja Daðadóttir þjálfari kvennaliðs Augnabliks.