Mennta- og barnamálaráðherra heimsótti Waldorfskólann

Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra og formaður Heimilis og skóla, Þorvar Hafsteinsson, ásamt fríðu föruneyti komu í heimsókn í Waldorfskólann Lækjarbotnum þann 12. maí síðastliðinn.

Waldorfskólinn Lækjarbotnum er handhafi Foreldraverðlauna Heimilis og skóla árið 2022 og er heimsóknin liður í að kynnast skólastarfinu, sérstöðu þess, gæðum og áskorunum. Foreldraverðlaunin 2022 fékk skólinn fyrir Gróðursetningu plantna á skólasetningu, en nemendur, foreldrar og starfsfólk hafa gróðursett trjáplöntur ár hvert, eitt fyrir hvern nemanda, síðastliðin þrjátíu ár eða frá upphafi skólahalds í Lækjarbotnum. Foreldrafélag skólans fékk einnig viðurkenningu fyrir Vinnudag foreldra, en sá dagur er haldinn einu sinni á önn og taka foreldrar og nemendur þátt í að fegra umhverfi skólans og sinna viðhaldsvinnu á byggingum og skólalóð.

Ráðherra ræddi við foreldra og fylgdist með nemendum sem tóku þátt í Ólympíuleikunum Lækjarbotnum 2023. Liðin kepptu í kúluvarpi, kaðalstökki, spretthlaupi, hástökki og langstökki, dósakasti, kassabílaakstri, Brooklynbolta, boðhlaupi og reipitogi. Öll lið voru skipuð nemendum úr öllum árgöngum, frá 1. bekk og upp í 10.bekk og var liðsandinn því ekki síður mikilvægur en keppnisskapið.

Umhverfi skólans ber merki gróðursetningar og er svæðið gróið og blómlegt auk þess að krýna margar skemmtilegar byggingar og leiktæki. Útisvæðið gegnir veigamiklum þætti í námi og félagslífi nemenda auk þess að vera hreint ævintýraland fyrir bæði börn og fullorðna.

Forsíðumynd: F.v. Þorvar Hafsteinsson, formaður Heimilis og skóla, Þóra Björg Sigurðardóttir, íslenskukennari, Magnea Tómasdóttir, foreldri og Kópavogsbúi ásamt Ásmundi Einari Daðasyni, barna- og menntamálaráðherra og Hildur Halldórsdóttir, sérfræðingur í foreldrastarfi hjá Heimili og skóla.

Liðin kepptu í kúluvarpi, kaðalstökki, spretthlaupi, hástökki og langstökki, dósakasti, kassabílaakstri, Brooklynbolta, boðhlaupi og reipitogi.
Ráðherra glaður í bragði á tali við foreldra í Waldorfskólanum Lækjarbotnum
Ráðherra fylgdist með nemendum sem tóku þátt í Ólympíuleikunum Lækjarbotnum 2023

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar