Mengandi iðnaður á ekki heima á grænu svæðunum okkar

Eins og margir vita liggja sveitarfélagamörk Kópavogs og Garðabæjar á Rjúpnahæð. Núverandi skipulag gerir ráð fyrir að þar sé opið svæði en með kirkjugarði og húsnæði undir samfélagsþjónustu. Nýlega kynntu bæjaryfirvöld í Garðabæ hugmyndir sínar um að taka svæðið undir iðnaðarstarfsemi. Svæði sem í dag er nýtt til margvíslegrar útivistar og tilheyrir „Græna treflinum“ sem eins og nafnið gefur til kynna tengir saman grænu svæði alls höfuðborgarsvæðisins. Svæðið er vinsælt meðal hjólreiðafólks, hestamanna, skíðafólks og fjölskyldna sem njóta náttúrunnar í stuttu færi frá heimilum sínum.

Sjónmengun, loftmengun og aukin umferð.

Rísi atvinnuhverfi Garðabæjarmegin á Rjúpnahæðinni glötum við ekki aðeins möguleikum okkar á að njóta útivistar á svæðinu heldur eru áhrifin mikil á íbúa í Kórahverfi, þá einkum íbúa í Austurkór sem búa margir alveg ofan í fyrirhugaða atvinnusvæði Garðbæinga, sem segja þó þörfina á nýju atvinnuhverfi komna til vegna þess að atvinnustarfsemin sem þar eigi að vera eigi ekki heima innan um þeirra íbúabyggð. Virðingin fyrir nágrönnum sínum er ekki meiri. Gera skipulagsfyrirætlanir þeirra ráð fyrir að umferð í nýja atvinnuhverfið verði m.a. í gegnum Austurkór sem er íbúagata með 30 km/klst hámarkshraða.

Drög að breytingartillögu Aðalskipulags Garðabæjar 2016-2030. Rauð lína breytt vaxtarmörk. Grá svæði ný athafnasvæði.

Skil markmiðið en niðurstöðuna ekki

Um leið og ég hef fullan skilning á því að Garðbæingar vilji losa um atvinnustarfsemi í einhverjum bæjarhlutum sínum furða ég mig á að lendingin sé að troða nýja atvinnusvæðinu í bakgarð okkar Kópavogsbúa. Það hlýtur að vera hægt að finna atvinnusvæðinu annan og betri stað. Við hér í Kópavogi erum nefnilega ekkert spenntari en þau hinu megin sveitarfélagamarkanna fyrir iðnaði fyrir utan stofugluggann. Það gildir bæði um íbúa Kórahverfis og meirihlutann í Kópavogi en við munum beita okkur fyrir því að fallið verði frá þessum áformum.

Andri Steinn Hilmarsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar