Meingallað og getur skapað ranga hvata hjá einhverjum sveitarfélögum

Fasteignamat fyrir árið 2023 hefur ekki hækkað meira á milli ára frá því fyrir hrun í það minnsta og Kópavogsbúar hafa ekki farið varhluta af því frekar en aðrir landsmenn. Samkvæmt mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunnar sem gefin var út í júní hækkar fasteignamat sérbýla í Kópavogi að meðaltali um 26,2% og fjölbýla um 23,95%, sem er meiri hækkun en á sér stað að meðaltali á öllu höfuðborgarsvæðinu þar sem sérbýli hækkar um 26% og fjölbýli um 21,7%.

Þessar miklu hækkanir á fasteignamati fyrir árið 2023 munu að öllu óbreyttu kosta fasteignaeigendur í Kópavogi hundruð milljóna, en margir og þar á meðal fjármálaráðherra, Bjarni Benediktsson, segja að núver-andi fyrirkomulag á innheimtu fasteignagjalda vera meingallaða og ósanngjarna fyrir heimili og fyrirtæki.

Kópavogspósturinn spurði Ásdísi Kristjánsdóttur bæjarstjóra í Kópavogs hvort og hvernig bærinn ætli að bregðast við þessum miklum hækkunum á fasteignagjöldum í Kópavogi? ,,Að öðru óbreyttu þýðir þessi mikla hækkun fasteignamats samsvarandi skattahækkun á íbúa og fyrirtæki bæjarins. Við því ætlum við að bregðast með því að lækka álagningarhlutfall fasteignagjalda. Við höfum gert það undanfarin ár í Kópavogi og af þeirri braut verður ekki vikið,” segir Ásdís.

En hvernig verður útfærslan á lækkun fasteignagjaldanna í Kópavogi, munu gjöldin lækka í samræmi við meðaltalshækk-un í Kópavogi eða verður lækkunin í samræmi við hækkun hvers fasteignaeigandi fyrir sig þar sem hækkunin er misjöfn á milli hverfa í Kópavogi og í raun fasteigna, en sem dæmi þá hækka fasteignagjöld sérbýla í Hjalla- og Smárahverfinu að meðaltali um 23,2% á meðan þau hækka um 31,3% í Kórahverfinu? ,,Álagningarhlutallið verður það sama fyrir alla fasteignaeigendur, en þó höldum við áfram að bjóða eldri bæjarbúum afslátt af fasteignagjöldum. Flækjustigið yrði of mikið með tilheyrandi kostnaði ef við færum að lækka fasteignaskatta hvers fasteignaeiganda í Kópavogi. Nýtt fast-eignamat tekur gildi um áramót og sama á við um gjaldskrár Kópavogsbæjar. Endanleg út-færsla á lækkun álagningarhlutfallsins kemur því til umræðu þegar við förum í gerð fjárhagsáætlunar ársins 2023, en sú vinna fer fram í haust.
Í þessu samhengi vil ég hins vegar taka fram að núverandi fyrirkomulag, þar sem fasteignaskattar eru beintengdir við fasteignamat hverju sinni, er meingallað og getur skapað ranga hvata hjá einhverjum sveitarfélögum. Sveitarfélög bera ábyrgð á því að tryggja nægt framboð húsnæðis til að sporna gegn mikilli verðhækkun fasteigna. Þau sveitarfélög sem lækka ekki álagningaprósentuna á móti hækkun fasteignamats horfa fram á vax-andi skatttekjur. Það er eitthvað skakkt við þetta að mínu mati.”

Matssvæði íbúðarhúsnæðis í Kópavogi þar sem má sjá hækkun á fasteignamati fyrir árið 2023 á sérbýli og fjölbýli

Það eru um þrjár vikur síðan þú hófst störf sem bæjarstjóri í Kópavogi, ertu búin að koma þér vel fyrir og hvernig líst þér annars á? ,,Mér líst afar vel á bæjarstjórastarfið og á fyrstu dögunum upplifi ég hversu fjölbreytt, áhugavert og spennandi starfið er. Ég hef nýtt tímann til þess að kynna mér viðfangsefnin, fundað með stjórnendum og starfsfólki Kópavogsbæjar.”

Ásamt því að vinna að tillögu um lækkun fasteignagjalda í Kópavogi fyrir árið 2023 hvað brýnu málefni bíða þín svona á upphafsdögum í starfi bæjarstjóra? ,,Það er af ýmsu að taka og eins og málefnasamningur meirihluta Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks ber með sér en þar höfum við dregið fram þau málefni sem við ætlum að setja í forgang á kjörtímabilinu. Við ætlum að nýta næstu fjögur árin vel og láta verkin tala. Nú á upphafsdögum finnst mér brýnast að efla samráð við bæjarbúa og hlusta á sjónarmið þeirra. Framundan er áhugaverð uppbygging í bæjarfélaginu sem mun styðja við þá sýn okkar að efla bæinn og búa til fallegan bæjarbrag.”

Og þú ert spennt fyrir því að kynnast bæjarbúum betur og vinna að góðum málefnum fyrir bæjarfélagið á næstum mánuðum og árum? ,,Ég hlakka mikið til þess að takast á við bæjarstjórastarfið sem verður í senn krefjandi og fjölbreytt. Kópavogur er sveitarfélag í fremstu röð og við ætlum að tryggja að svo verði áfram með því að klára þau verkefni sem við höfum sett í forgang hvort sem horft er til skólamála, íþrótta- og lýðheilsumála eða málefni aldraða svo dæmi séu tekin,” segir bæjarstjórinn að lokum.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar