Vinir Kópavogs halda opinn fund í sal Siglingaklúbbsins Ýmis, Naustavör 14, fimmtudaginn 14. nóvember.
Fjallað verður m.a. um ,,skipulag í greipum frændsemi, kunningsskapar eða pólitískrar fyrirgreiðslu?“
Fyrir núverandi og komandi kynslóðir eru ákvarðanir í skipulagsmálum eitt af því sem mest áhrif hafa á lífsgæði í bæjarfélaginu. Sveitarfélög gegna lykilhlutverki við stefnumótun í skipulagsmálum og framkvæmd þeirra. Skipulagsgerð og ákvarðanir í skipulagsmálum er pólitísk stefnumótun sem krefst vandaðs faglegs undirbúnings og fjölbreyttrar þekkingar og hæfni.
En getur verið að frændsemi, kunningsskapur eða pólitísk fyrirgreiðsla hafi áhrif á skipulagsákvarðanir í sveitarfélögum á Íslandi? Takmarkar fámenn stjórnsýsla og mikil starfsmannavelta bolmagn sveitarfélaga til að taka faglegar ákvarðanir í skipulagsmálum með framtíðina og almannahagsmuni að leiðarljósi?
Ásdís Hlökk Thedórsdóttir aðjunkt og doktorsnemi við Háskóla Íslands, og fyrrverandi forstjóri Skipulagsstofnunar, segir á fundinum frá niðurstöðu stjórnsýslukönnunar sem er hluti þverfræðilegrar rannsóknar hennar í doktorsverkefni í opinberri stjórnsýslu við stjórnmálafræðideid HÍ. Í könnuninni var m.a. spurt um starfsumhverfi starfsfólks skipulags í sveitarfélögum, áherslur sveitarfélaga í skipulagsmálum, þekkingu og færni í skipulagsmálum, áhrif ólíkra hópa á skipulagsmál sveitarfélaga og einnig þrýsting ólíkra aðila á skipulagsmál sveitarfélaga.
Á síðari hluta fundarins verður fjallað um ýmis mál sem hafa verið á dagskrá bæjarstjórnar. Hvernig gengur að skipuleggja Borgarlínu? Er eitthvað að frétta af rammaskipulagi fyrir Kársnesið? Hvert stefnir með legu hjólaleiða á milli Garðabæjar og Reykjavíkur? Eru einhver áform um að lagfæra skipulagsóreiðuna á svæðinu á milli Hamraborgar og Digranessvegar? Hver er framtíð SORPU-stöðvar við Dalveg? Hvað gerist á Arnarneslandinu? Bæjarfulltrúar Vina Kópavogs, þau Helga Jónsdóttir og Kolbeinn Reginsson, segja frá og standa fyrir svörum.
Á fundinn eru boðaðir sérstaklega félagar í Vinum Kópavogs, en fundurinn er opinn og allir hjartanlega velkomnir. Boðið verður upp á kaffiveitingar.
Fundurinn verður haldinn fimmtudag 14. nóvember kl. 17:00-18:30 í sal Siglingaklúbbsins Ýmis, Naustavör 14, Kópavogi.
Mynd frá opnum fundi Vina Kópavogs 7. mars s.l., um Arnarland , hjólastíga og rammaskipulag Kársness