Með þessum breytingum erum við að leggja lokahönd á að byggja upp nýja ímynd og upplifun viðskiptavina okkar

Stórar breytingar verða hjá Rúmfatalagernum á morgun, fimmtudag, þegar nafninu verður formlega breytt í JYSK auk þess sem verslun Rúmfatalagersins á Smáratorgi verður opnuð í nýrri mynd eftir gagngerar endurbætur.

Nafnbreytingin er vissulega stór áskorun

Rósa Dögg Jónsdóttir, markaðsstjóri Rúmfatalagersins, var spurð að því af hverju verið væri að gera þessar breytingar á nafni Rúmfatalagerins og hvort þetta væri ekki hættulegur leikur enda Rúmfatalagerinn sterkt merki hérlendis? ,,Nafnabreytingin er vissulega stór áskorun og örugglega ekki óumdeild, en við teljum þetta vera rétt og jákvætt skref fyrir okkur og viðskiptavini okkar. Fyrirtækið hefur breyst gríðarlega frá opnun árið 1987 og er í dag svo miklu meira en lager af rúmfötum,” segir Rósa og heldur áfam: ,,Nafnið endurspeglar ekki lengur það mikla og góða vöruúrval sem við bjóðum upp á fyrir öll herbergi heimilisins og nafnabreytingin styður áherslur okkar á aðrar vörur en rúmföt. Með því að taka upp JYSK nafnið viljum við líka sýna að við erum hluti af einni stærstu verslunarkeðju heims sem sérhæfir sig í vörum fyrir svefninn og heimilið. Við erum hluti af sterkri heild sem telur yfir 3.300 verslanir í 48 löndum og nafnabreytingin er síðasta skrefið í viðamiklum breytingum síðustu ára með endurnýjun verslana og aukinni áherslu á þjónustu, gæði og upplifun viðskiptavina.”

Höfum fengið gríðarlega jákvæð viðbrögð frá viðskiptavinum okkar

En þið eruð ekki eingöngu að breyta nafninu því verslun á Smáratorgi fær ákveðna upplyftingu? ,,Við höfum staðið í miklum breytingum á nokkrum verslana okkar og uppfært þær í takti við útlitsstefnu JYSK á heimsvísu. Það eru breytingar m.a. á gólfefni, hillukerfum, lýsingu og uppsetningu vara þannig að viðskiptavinir okkar mega eiga von á töluverðum breytingum í þessum uppfærðu verslunum. Nú er komið að Smáratorgi, sem verður fjórða verslunin af sjö, að fá upplyftingu og verður þeim sem eftir standa breytt á næstu misserum. Við höfum lagt mikið í ímynd fyrirtækisins undanfarin ár, bæði með þessu nýja útliti verslana sem og út á við, og höfum fengið gríðarlega jákvæð viðbrögð frá viðskiptavinum okkar.”

Mikill styrkur að vera hluti af eins stórri keðju og JYSK er

Vöruúrvalið hjá ykkur hefur breyst töluvert í gegnum tíðina eins og þú nefnir, eruð þið enn að bæta við vöruúrvalið og er verslunin í raun alltaf í stöðugri þróun? ,,Það er mikill styrkur að vera hluti af eins stórri keðju og JYSK er. Vöruúrvalið er í sífelldri þróun og við njótum góðs af því að geta boðið viðskiptavinum okkar upp á nýjungar reglulega, hvort heldur sem það eru þá nýjustu trendin eða klassískar vörur. Einnig er birgðastaðan okkar ávallt góð á vinsælustu vörunum fyrir svefninn, heimilið eða á árstíðabundnum vörum eins og garð- húsgögnum og jólavöru. Við rekum jafnframt gríðarlega sterka fyrirtækjaþjónustu (B2B) og þurfum því ávallt að vera vel sett birgðalega séð.”

Getum tryggt viðskiptavinum okkar góð verð

Þið hafið ávallt boðið upp mjög sanngjörn og góð verð á ykkar vörum, hvernig stendur á því og hvernig er að viðhalda lágum verðum í þessari verðbólgu í dag? ,,Samband okkar við JYSK, sem rekur yfir 3.300 verslanir í heiminum, gerir okkur kleift að geta boðið upp á mjög sanngjörn verð. Sem hluti af alþjóðlegu fyrirtæki getum við keypt inn mikið magn og þannig tryggt viðskiptavinum okkar góð verð. Það hefur vissulega verið áskorun fyrir flest öll fyrirtæki að aðlaga sig að þeim verðbólguaðstæðum sem eru og hafa verið, en við höldum samt alltaf áfram að bjóða upp á góð verð og góð tilboð. Það er það sem við stöndum fyrir. “

Gríðarlega sterk í öllu sem snýr að svefninum

Hvaða vörur hafa svo verið vinsælastar hjá ykkur í gegnum tíðina? ,,Við höfum alltaf verið gríðarlega sterk í öllu sem snýr að svefninum enda úrvalið hjá okkur afar gott. Þau eru trúlega fá heimilin í landinu þar sem ekki finnst rúm, sæng, koddi eða sængurver frá okkur. Á sumrin eru svo garðhúsgögnin okkar feykivinsæl og gaman að sjá hversu mikil aukning hefur verið í þeim flokki undanfarin ár.”

Og þið eruð spennt að opna dyrnar að nýrri glæsilegri verslun á Smáratorgi fyrir Kópavogsbúa og íbúa annarra nágrannasveitarfélaga? ,,Við erum gríðarlega spennt að fá að sýna ykkur glæsilega og endurbætta verslun á Smáratorgi, sem bætist í hóp verslana sem hafa nú þegar farið í gegnum þessar endurbætur, en áður höfum við breytt verslun okkar á Norðurtorgi á Akureyri, að Fitjum í Reykjanesbæ og Skeifunni í Reykjavík. Þessar breytingar hafa fallið í mjög góðan jarðveg og er næsta skref í þeirri þróun og vegferð sem við erum í til þess að aðlaga okkur enn betur að þessari stóru keðju sem við erum hluti af. Með þessum breytingum erum við að leggja lokahönd á að byggja upp nýja ímynd og upplifun viðskiptavina okkar.”

Helling af opnunartilboðum og þau verða ekki af lakara taginu

Og ætlið þið að vera með einhver tilboð út af nafnabreytingunni og nýju og fersku útliti JYSK á Smáratorgi? ,,Að sjálfsögðu verðum við með helling af tilboðum og þau verða ekki af lakara taginu! Ég mæli með því að fólk skoði opnunarbæklinginn okkar, sem dreift verður í öll hús, og kíki á Smáratorg fimmtudaginn 28. september þegar við opnum aftur sem JYSK,” segir Rósa Dögg.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar