Hamraborg Festival er lifandi listahátíð sem haldin er árlega í lok ágústmánaðar mitt í hjarta Kópavogs. Hátíðin fer nú fram í fjórða sinn, frá 29. ágúst til 5. september, en á dagskránni verður gríðarlegur fjöldi viðburða, sýninga og listasmiðja. Þátttakendur taka yfir verslunar- og skrifstofurými, veitingastaði, menningarhús og almannarými á Hamraborgarsvæðinu.
,,Frá því að hátíðin hóf göngu sína hefur markmiðið verið að fagna mannlífi og menningu Hamraborgar, sérkennum hennar, sögu og arkitektúr, auk þess að efla tengsl við nærsamfélagið og íbúa svæðisins. Þá hefur frá upphafi verið lögð áhersla á að bjóða fjölbreyttum hópi listafólks tækifæri til að taka þátt, ekki síst með tilliti til þess að svæðið sjálft einkennist af miklum fjölbreytileika,” segir Sveinn Snær Kristjáns-son einn af forsvarsmönnum hátíðarinnar í Hamraborg.
Hamraborgarfestival á sterkt bakland
,,Hamraborgin sjálf er svo rík af sköpunarkrafti, litríkri sögu og skemmtilegu mannlífi. Þess vegna skiptir það svo gríðarlegu máli að við njótum þess mikla stuðnings sem Kópavogur veitir okkur. Við eigum sterkt bakland við gerð hátíðarinnar, frábæran hóp af fólki sem vinnur með okkur á einn hátt eða annan í aðdraganda hátíðarinnar og á meðan henni stendur. Í ár höfum við til dæmis fengið dýrmæta styrki frá Kópavogsbæ, Myndlistarsjóði og Barnamenningarsjóði sem skipta sköpum, ekki aðeins fyrir okkur heldur fyrir rækt menningar og lista á svæðinu,” segir hann.
Byrjað að deila nöfnum rúmlega 60 listamanna
Og hvernig miðar undirbúningi? ,,Við erum að leggja lokahönd á dagskrá hátíðarinnar um þessar mundir og erum að byrja að deila nöfnum þeirra, rúmlega 60 listamanna sem taka þátt í Hamraborg Festival í ár. Við hvetjum öll til að fylgjast með á samfélagsmiðlunum instagram og facebook.”
Treflar í litum hátíðarinnar
Treflar í litum hátíðarinnar, rækilega merktir Hamraborginni litu dagsins ljós í fyrra í fyrsta sinn á hátíðinni. ,,Það var svo rosalega vel tekið á móti þeim að við ákváðum að endurtaka leikinn í ár. Enn eru treflarnir í litum hátíðarinnar – bleikum, svörtum og hvítum, en skarta nú nýrri hönnun sem okkur hlakkar gríðarlega til að deila með viðstöddum,” segir Sveinn og bætir við að lokum: ,,Við erum gríðarlega spennt að deila með ykkur þessu gnægtarhorni af myndlist, tónlist og gjörningum! Sjáumst í Hamraborginni á hátíðlegri opnun föstudaginn 30. ágúst.”
Hamraborgarfestival verður svo kynnt frekar í Kópavogspóstinum sem kemur út 22. og 29. ágúst og inn á vefsíðunni: www.kgp.is