Maður sækir sjálfstraustið í vinnuna sem maður er búinn að leggja inn

Íþróttakarl Kópavogs árið 2022 er Höskuldur Gunnlaugsson knattspyrnumaður úr Breiðabliki.

Höskuldur var fyrirliði meistaraflokks Breiðabliks í knattspyrnu karla sem varð íslandsmeistari með miklum yfirburðum árið 2022. Hann spilaði allar mínútur mótsins fyrir utan korter, skoraði 6 mörk og lagði upp á annan tug marka. Hann var jafnframt valinn í lið ársins í Bestu Deilda karla 2022. Höskuldur hefur verið lykilmaður og frábær leiðtogi í Breiða- bliksliðinu undanfarin ár bæði innan vallar sem utan. Liðið náði frábærum árangri í Evrópukeppni félagsliða. Undir lok tímabils bættist svo enn ein rósin í hnappagat Höskuldar þegar hann bar fyrirliðaband íslenska A landsliðsins í leik gegn Suður-Kóreu. Nokkrum dögum áður hafði hann einnig spilað heilan leik gegn Sádi-Arabíu. Hann er góð fyrirmynd fyrir yngri iðkendur félagsins, bæði hvað varðar ástundun en ekki síður hvernig hann kemur fram fyrir hönd félagsins.

Þú ert væntanlega ánægður með útnefninguna Íþróttakarl Kópavogs fyrir árið 2022? ,,Ég er auðvitað þakklátur og ánægður með útnefninguna. Þetta er mikil viðurkenning fyrir sjálfan mig og eins fyrir meistaraflokk Breiðabliks í knattspyrnu,” segir Höskuldur sem var staddur á Algarve með íslenska landsliðinu í knattspyrnu þegar Kópavogspósturinn tók hann tali.

Fyrirliði Breiðabliks og Íþróttakarl Kópavogs 2022 á fullri ferð með boltann sl. sumar

Breiðablik náði frábrærum árangri sl. tímabil, þið hreinlega rúlluðu upp Bestu-deildinni og stóðuð ykkur vel í Evrópukeppninni. Áttir þú von á að þið gætuð átt svona framúrskarandi tímabil með þessum miklu yfirburðum í Bestu-deildinni og var eitthvað sem breyttist fyrir tímabilið í fyrra? ,,Já, í hreinskilni sagt hafði ég mikli trú á því að við myndum sigra Íslandsmótið og spila jafn vel og við gerðum. Maður sækir sjálfstraustið í vinnuna sem maður er búinn að leggja inn, og við vorum heldur betur búnir að æfa vel og mikið á undirbúningstímabilinu,” segir Hösuldur og klárar að svara spurningunni: ,,Í raun og veru breyttist ekki mikið nei. Við héldum áftam að spila líkt og við gerðum seinni hluta tímabilsins 2021. Helsta breytingin var náttúrulega sú að við byrjuðum mótið af krafti, en það var slök byrjun sem felldi okkur árið áður.”

Og þú áttir frábært keppnistímabil í fyrra, fórst fyrir liðinu þínu bæði sem leikmaður og fyrirliði liðsins. Það er kannski erfitt að tala um eigin frammistöðu, en varstu að toppa sjálfan þig í sumar, þitt besta tímabil á ferlinum? ,,Já ég átti flott tímabil og er ánægður með það. Ég myndi segja að síðustu tvö tímabil hafi verið nokkuð svipuð hjá mér, en mér fannst ég einnig spila vel 2021. Tímabilið í fyrra var samt auðvitað eftirminnilegra og skemmtilegra þar sem við unnum Íslandsmeistaratitilinn með miklum yfirburðum. Eins hvað varðar mína persónulegu frammistöðu þá skilaði maður tölfræðilega séð betri afrakstri. Tvö góð tímabil í röð hjá mér persónulega er náttúrulega bara afleiðing af því að vera í frábæru liði, með toppþjálfara og gott fólk í og í kringum klúbbinn.”

Og svo var náttúrulega rjóminn ofan á kökuna valið í íslenska landsliðið í haust þar sem þú barst m.a. annars fyrirliðabandið – það hefur væntanlega verið eftirminnileg stund? ,,Það var náttúrulega mikill heiður og ég er stoltur af því að hafa fengið að leiða Íslenska A-landsliðið núna í tveimur leikjum. Þessi móment eru og verða auðvitað eftirminnileg fyrir mann.”

Og þú gast ekki verið viðstaddur íþróttahátíð Kópavogs og tekið á móti viðurkenningunni sem Íþróttakarl Kópavogs þar sem þú varst staddur á Algarve með íslenska landsliðinu. Fjölmiðlar segja að þú hafir spilað vel með liðinu og gerir tilkall til að þess að vera valinn í næsta landsliðsverkefni, sem er leikir í undankeppni EM 2024 núna í mars. Það er væntanlega markmiðið þitt að tryggja þér sæti í hópnum og varstu ánægður með eigin frammistöðu á Algarve? ,,Já, ég geng bara sáttur frá borði með mína frammistöðu í þessu verkefni. Ég spilaði seinni leikinn, á móti Svíþjóð, þar sem við átt-um flotta frammistöðu og vorum hársbreidd frá því að vinna sanngjarnan sigur. Eins þá, að undanskildum 10-15 mínútum, spilaði liðið vel á móti Eistlandi, þannig þetta var lærdómsrík og jákvæð ferð sem gefur góð fyrirheit um fram haldið.
Ég stefni að sjálfsögðu á að taka þátt og leggja mitt af mörkum í undankeppninni fyrir EM2024, sem verður öll spiluð í ár. Ég einbeiti mér núna bara að því að vera í góðu standi og vera klár ef kallið kemur.”

Þú lékst sem atvinnumaður með Halmstad BK í Svíþjóð, en komst heim að nýju eftir tvö ár. Þú ert 28 ára og átt nóg eftir, leitar hugurinn í atvinnumennskuna aftur eða heillar það þig ekki lengur eftir tímann þinn í Svíþjóð? ,,Ég spilaði í tvö ár í Halmstad, 2017-2019, og naut mín vel innan sem utan vallar. Ég meiðist illa á undirbúningstímabilinu undir lokin í Halmstad og fer því á láni í Breiðablik yfir sumarið til þess að koma mér aftur í gang. Planið var að fara aftur út til Halmstad, þar sem ég var ennþá á samning, en svo var fráfall í fjölskyldunni sem varð til þess að ég ákvað að halda mér heima, í einhvern tíma allavega.
Eins og ég hef áður sagt að þá langar mig að fara í sterkari deild og í sterkara lið, en ég er ekki að rembast að fara út bara til þess að fara út.“

Vanda Sigurgeirsdóttir formaður KSÍ óskar Höskuldi til hamingju með Íslandsmeistaratitilinn

En hvernig er annars að vera í Breiðablik í dag, hefur öll aðstaða og umgjörð breytst til mikillar muna hjá Breiðablik og kannski bara almennt hjá mörgum félögum í Bestu-deildinni? ,,Það er yndislegt að vera í Breiðablik þar sem maður er partur af stórri fjölskyldu. Ráin hefur verið hækkuð á síðustu árum en við eigum klárlega ennþá inni. Allt er þetta samt að þróast í rétta átt og það er metnaður hjá öllum í klúbbnum að hækka standardinn og kröfurnar. Fyrst og fremst búum við í Breiðablik að því að hafa frábært fólk í klúbbnum og í kringum hann.
Já, mér finnst að deildin heima sé að verða sterkari og samkeppnishæfari við deildirnar erlendis, við sjáum það til dæmis bara á góðum árangri í Evrópukeppni undanfarin tímabil.”

Nú er undirbúningur fyrir næsta tímabil í Bestudeildinni hafið, enda hefst Íslandsmótið 10. apríl nk. og það með nágrannaslag við HK á Kópavogsvelli. Áttu von á að þið getið bætt ykkur enn meira frá síðasta tímabili eða verður þetta mikil áskorun fyrir ykkur að halda sama dampi og stöðugleika? ,,Já, það er heldur betur farið að styttast í að mótið byrji aftur. Það kemur ekkert annað til greina hjá okkur en að gera enn betur í ár. Eins og ég hef talað um þá höfum við tileinkað okkur ákveðinn frammistöðukúltúr og það beinir athyglinni á að ná bætingum. Þannig við stefnum á bætingar frá síðasta tímabili og ég hef auðvitað trú á því að við getum gert það. Vissulega hafa verið breytingar og góðir leikmenn farið, en sömuleiðis eru komnir inn spennandi leikmenn sem lofa góðu.”

En svona aðeins um Íþróttakarl Kópavogs, hvað er hann að gera annað en að æfa knattspyrnu og á hvaða stefnir þú framtíðinni? ,,Ég er í framhaldsnámi við Háskólann í Reykjavík og eins rek ég lítið heildsölubakarí að nafni Gamli Bakstur. Ég stefni í raun bara á að eiga gott og innihaldsríkt líf, helst með nóg að gera, þá er ég sáttur.”

Og svona að lokum fyrir ungu kynslóðina, hvað þarf í raun að gera til að komast á þennan stað sem þú ert í dag? ,,Það er svo sem ekkert flókið sem þarf að gera. Tileinka sér þrautseigjuhugarfar, ekki óska sér að hlutirnir væru auðveldari heldur að þú sért betri og hæfari,” segir Íþróttakarl Kópavogs.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar