Lokun Sorpustöðvar við Dalveg

Í frétt í Kópavogspóstinum 26. október s.l. er bæjarbúum færð sú „gleðifrétt“ að í stað móttökustöðvar Sorpu við Dalveg eigi að koma verslanir og útivistarsvæði. Þetta er sagt vera í samræmi við markmið aðalskipulags bæjarfélagsins og eigi alls ekki að koma Sorpu, sem að hluta til er í eigu Kópavogsbæjar, á óvart. Afleiðingar lokunar hafa ekki verið rannsakaðar. „Eitthvað“ á að koma í staðinn, en hvað er ekki vitað. Í fljóti bragði má því ætla að varpa eigi ábyrgðinni yfir á Sorpustöðvar í öðrum sveitarfélögum með tilheyrandi óhagræði og akstri fyrir bæjarbúa og fyrirtæki í bænum.

Mikill úrgangur er fylgifiskur velsældar og neyslu. Íslendingar eru því sem næst Evrópumeistarar á þessu sviði. Úrgangur er í raun „auðlind á villigötum“. Það er nauðsynlegt, framsækið og flókið úrlausnarefni að koma úrgangi í hringrás. Allra best er að draga úr magni úrgangs og umfangi sóunar á öllum sviðum.
Ísland hefur tekið undir markmið Evrópusambandsins frá 2018 um endurvinnslu og endurnýtingu. Lög kveða á um að sveitarstjórnir ákveði fyrirkomulag söfnunar á heimilis- og rekstrarúrgangi, sjái um flutning heimilisúrgangs og að sjái um að starfræktar séu móttöku- og söfnunarstöðvar fyrir úrgang sem fellur til. Þá bera sveitarstjórnir ábyrgð á að markmiðum sem sett eru um lífrænan úrgang náist. Frá ármótum ber að flokka pappír, plast og lífrænan úrgang við hvert heimili og fyrirtæki í bænum okkar.

Árið 2018 fengu sveitarstjórnir að vita í hvað stefndi í úrgangsmálum í ársbyrjun 2023. Tími til undirbúnings hefur því verið nægur. Nýju lögin ganga í gildi eftir tæplega mánuð. Það er borin von að þau komist til framkvæmda á réttum tíma þar sem bæjaryfirvöld hafa annað hvort sofið á verðinum eða dregið lappirnar.
Eitt lykilatriði til að ná fram þeim árangri sem lög krefja bæjarfélagið um er að upplýsa og virkja alla bæjarbúa og fyrirtæki til góðra verka í úrgangsmálum. Lítið sem ekkert hefur borið á viðleitni bæjaryfirvalda í Kópavogi í þá veru. Þá þarf að breyta gjaldtöku þannig að hún hvetji til jákvæðrar breytni.
Kópavogsbær hefur fyrir mörgum árum samþykkt að gefa skuli út áætlun sem sýni hvernig sveitarfélagið hyggst að lágmarki standa við markmið lands- og svæðisáætlunar um meðhöndlun úrgangs*. Ég lýsti nýlega eftir þessar áætlun. Svarið frá bæjaryfirvöldum var að „hún er ekki til“. Sveitarfélagið fylgir því hvorki ákvæðum laga né eigin samþykktum í þessum málaflokki.

Það er fagnaðarefni ef hægt er að breyta landnýtingu í bænum þannig að meira rými skapist fyrir heilsubætandi útvist. Yfirlýsing bæjarstjóra að loka Sorpustöð bæjarins er ótímabær ef ekki koma fram sambærilegar eða betri lausnir. Allir sem koma á Sorpustöðinni við Dalveg vita að hún er bráðnauðsynleg fyrir bæjarbúa og fyrirtæki í bænum, eins og málum er háttað í dag. Það þarf ekki að vera þannig um alla framtíð. En bæjarfélagið í góðu samstarfi við fólk og fyrirtæki verður að búa í haginn fyrir þá framtíð. Við bæjarbúar bíðum eftir raunhæfum aðgerðum í úrgangsmálum.

  • (Kópavogsbær skal gefa út samþykkta áætlun sem sýnir hvernig sveitarfélagið hyggst að lágmarki standa við markmið lands- og svæðisáætlunar um meðhöndlun úrgangs. Slíkri áætlun skal vera skipt upp í tólf ára langtímaáætlun og sex ára skammtímaáætlun sem tekur mið af að ná markmiðum langtímaáætlunar. Í sex ára áætlun skal setja upp áætlun um heimtu og endurvinnslu efna. (6. gr. 5. liður í samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Kópavogsbæ].

Tryggvi Felixson

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar