Loftslagið þolir enga bið – taktu skrefið með okkur

Loftslagsbreytingar eru ekki bara tölfræði eða fréttafyrirsagnir – þær snerta líf okkar allra. Þær hafa áhrif á heimili okkar, fjölskyldur og framtíðina sem við viljum skapa fyrir börnin okkar. Biðstaða er ekki lengur í boði; við stöndum á tímamótum þar sem við þurfum að taka ákvarðanir sem skipta máli.

Píratar hafa lengi staðið með náttúrunni og vilja ekki aðeins vernda hana heldur tryggja að komandi kynslóðir fái tækifæri til að lifa í heilbrigðu og sjálfbæru samfélagi. Við tölum ekki bara um aðgerðir – við viljum að fólk fái raunveruleg tækifæri til að taka þátt í lausnunum. Þetta snýst um að byggja framtíð þar sem allir fá að njóta sín í sátt við náttúruna.

Orka í þágu fólksins, ekki mengandi stóriðju

Að mörgu er að huga þegar kemur að umhverfis- og loftslagsmálum. Það er ekki nóg að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda; við verðum einnig að efla stjórnsýslu loftslagsmála og styðja við nýsköpun sem skilar raunverulegum breytingum. Með því að vinna saman að þessum markmiðum getum við tryggt að Ísland verði í fararbroddi í loftslagsmálum og uppfylli alþjóðlegar skuldbindingar.

Íslendingar eiga að njóta auðlinda sinna. Píratar vilja að orkuvinnsla þjóni samfélaginu, ekki mengandi stóriðju og þess vegna forgangsröðum við almenningi og grænni nýsköpun. Orkuskipti verða að vera í þágu fólks og smærri fyrirtækja, þar sem allir njóta jafns aðgengis að endurnýjanlegri orku á viðráðanlegu verði – óháð búsetu.

Ekkert til spillis í hringrásarhagkerfi

Samgöngur eru lífæð samfélagsins og þær þurfa að vera vistvænar og aðgengilegar. Við ætlum að skapa framtíð þar sem fólk velur vistvæna ferðamáta fram yfir einkabílinn – ekki bara af því það er umhverfisvænt, heldur af því það er þægilegast. Á landsbyggðinni viljum við líka tryggja almenningssamgöngur sem raunverulega virka og efla hvata fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur. Við viljum byggja upp öruggt og grænt samgöngukerfi sem þjónar öllum, hvar sem þeir búa.

Framtíðin liggur í nýsköpun. Með því að fjárfesta í grænum sprotafyrirtækjum og stuðla að þróun umhverfisvænna lausna getum við skapað sjálfbæran iðnað sem stendur undir sér til framtíðar. Fyrr í haust lagði þingflokkur Pírata til að komið yrði á fót hringrásarstyrkjum til að draga úr kostnaði einstaklinga við viðgerðir. Það á að vera auðvelt og hagkvæmt að gera við tæki og tól í stað þess að henda þeim og kaupa ný. Þetta er lykilatriði í hringrásarhagkerfi þar sem ekkert fer til spillis.

Græn umskipti eru ekki bara nauðsyn – þau eru tækifæri. Með öflugum loftslagsaðgerðum og vistvænum samgöngum ætlum við Píratar að tryggja bjarta framtíð fyrir okkur öll. Við viljum skapa samfélag þar sem bæði jörðin okkar og við sem hér búum fáum notið okkar.

Sigurbjörg Erla Egilsdóttir, höfundur er bæjarfulltrúi Pírata í Kópavogi og frambjóðandi í 3. sæti í Suðvesturkjördæmi. 

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar