Næstkomandi mánudagskvöld, 2. desember mun Samkór Kópavogs syngja inn aðventuna á tónleikum í Hjallakirkju kl. 20.00. Yfirskrift tónleikanna er „Ljós verður til“ sem sótt er í ljóð Aðalsteins Ásbergs Sigurðssonar við lag eftir Sigurð Flosason sem prýðir meðal annars vel valda og fallega efnisskrá tónleikanna.
Að þessu sinni koma einsöngvarar úr röðum kórfélaga. Þau eru Perla María Hauksdóttir, Grímur Sigurðsson og Ari Jónsson. Perla María er útlærð í klassískum söng og hefur tekið þátt í hinum ýmsu uppfærslum hjá söngleikjadeild Tónlistaskóla Kópavogs. Grímur og Ari eru mörgum kunnir eftir langan tónlistaferil í poppheiminum og um árabil einnig sem kórsöngvarar.
Orgel – og píanóleikari á tónleikunum er Sveinn Arnar Sæmundsson.
Söngstjóri kórsins frá því um síðustu áramót er Lenka Mátéová. Það hefur verið mikill fengur fyrir kórinn að fá Lenku til starfa enda vel menntuð í tónlist með mikla reynslu af kórstjórn.
Samkórinn er blandaður kór sem starfað hefur í Kópavogi allt frá árinu 1966 og hefur starfið jafnan verið öflugt, metnaðarfullt og skemmtilegt. Nýjir söngfélagar eru ávallt velkomnir. Upplýsingar um kórinn má finna á www.samkor.is og á facebook síðu kórsins. Núverandi formaður kórsins er Sigríður V. Finnsdóttir.
Ljós verður til á aðventunni. Jólaljósin skarta sínu fegursta og lýsa upp skammdegið. Ljós lifnar líka í sálum okkar, ljós sem ylja og styrkir fjölskyldu- og vinabönd.
Við kórfélagar hlökkum til að syngja ljúfa aðventutóna fyrir gesti okkar.
Verið innilega velkomin. Miðasala á Tix.is og við innganginn meðan húsrúm leyfir.
Gleðilega aðventu og jólahátíð.