Forvitnileg og fjörug dagskrá verður á Vetrarhátíð í Kópavogi 1. til 3. febrúar, en hátíðin samanstendur af Safnanótt, Sundlaugakvöldi og ljósalist ásamt ótal viðburðum og sýningum þar sem fjöldi listafólks tekur þátt í að skapa rafmagnað andrúmsloft í Kópavogi.
Sviðsmyndir fyrir Kópavogskirkju
Líkt og undanfarin ár verður Kópavogskirkja lýst upp með nýju ljóslistaverki á Vetrarhátíð. Í ár var myndlistarmaðurinn Eygló Harðardóttir fengin til að gera verk í samtali við form Kópavogskirkju og kirkjuglugga Gerðar Helgadóttur.
Eygló Harðardóttir er í framvarðarsveit íslenskra myndlistarmanna en hún hlaut Íslensku myndlistarverðlaunin árið 2019. Nýtt verk Eyglóar, Sviðsmyndir, er vídeóverk sem leggst eins og gegnsæ himna á Kópavogskirkju. Það er byggt upp af fimm sviðsmyndum sem voru lýstar upp og kvikmyndaðar. Verkinu verður varpað á kirkjuna föstudags- og laugardagskvöldið 2. og 3. febrúar, frá 18:30 – 24:00, bæði kvöldin.
Miðausturlensk sveifla í Salnum á Safnanótt
Líbanska söngkonan Fairuz er dýrkuð og dáð víða um heim og hefur hrifið hjörtu margra kynslóða í Miðausturlöndum með ljóðrænum textum og tímalausum melódíum.
Á Safanótt, 2. febrúar klukkan 20, fara fram tónleikar í Salnum í Kópavogi þar sem hrífandi tónlist Fairuz hljómar í flutningi einvala hóps tónlistarfólks og gestasöngvara en hljómsveitina skipa Thabit Lakh, Sigrún Kristbjörg Jónsdóttir, Alexandra Kjeld, Ásgeir Ásgeirsson, Birgir Bragason, Kristofer Rodriquez Svönuson og Erik Quick. Ókeypis er á tónleikana og öll hjartanlega velkomin á meðan húsrúm leyfir.

Mynd: Boðið verður upp á tilraunakvöld í Molanum frá 21 – 23 á Safnanótt
Sjaldgæft tækifæri til að skoða varðveislurými Gerðarsafns
Í Gerðarsafni standa yfir sýningarnar MOLTA, Venjulegar myndir og GERÐUR grunnsýning en ókeypis er á allar sýningar á Safnanótt, 2. febrúar. Boðið verður upp á listamannaleiðsögn um Venjulegar myndir með þeim Haraldi Jónssyni og Joe Keys klukkan 18 á Safnanótt og síðar sama kvöld, klukkan 21:30 mun Cecilie Cedet Gaihede bjóða upp á leiðsögn um safngeymslu Gerðarsafns. Hægt verður að fá innsýn í MOLTU, innsetningu frá 20 – 23 en um er að ræða alltumlykjandi og þverfaglega innsetningu Rósu Ómarsdóttur.
Silent diskó og spádrottning á Bókasafni
Fjölbreytt dagskrá verður í boði á Bókasafni Kópavogs á Safnanótt. Má þar nefna ljóðatrommugjörning með þeim Eyrúnu Ósk Jónsdóttur og Akeem Richards kl. 18, notalega síðkvöldstónleika með stórsöngkonunni Margréti Eir kl. 21 og áhugavert spjall með rithöfundunum Bergþóru Snæbjörnsdóttur og Braga Páli Sigurðssyni sem munu fjalla um bækur sínar Duft og Kjöt. Báðar bækurnar komu út í haust og hlutu verðskuldaða athygli. Auk þess mun dansinn duna á Bókasafni Kópavogs í Silent diskó frá 19 – 22 og hin óviðjafnanlega Sigga Kling verður á vappi með kristalskúluna frá 21 – 23.

Mynd: Bragi Páll og Bergþóra Snæbjörns fjalla um nýjar bækur sínar á Bókasafni Kópavogs
Stjörnuskoðun með Sævari Helga
Sævar Helgi Bragason býður upp á stjörnuskoðun fyrir alla fjölskylduna klukkan 19 – 20 á Safnanótt en viðburðurinn fer fram við Náttúrufræðistofu Kópavogs, ef veður leyfir. Fjölskyldan getur einnig sameinast í yndislegu náttúrubingói um Borgarholtið og skilað niðurstöðum inn á Bókasafnið. Dregið verður úr nöfnum þátttakenda að Vetrarhátíð lokinni og heppnir þátttakendur fá fallega bókagjöf í verðlaun.

Mynd: Sævar Helgi Bragason býður upp á stjörnuskoðun á Safnanótt
Baráttulúðrar í Hljóðabókasafni
Hljóðbókasafn Íslands verður með lifandi dagskrá og opið hús frá 18 – 22 en á meðal þess sem þar verður boðið upp á er tónlistaratriði með hinni frábæru Lúðrasveit verkalýðsins klukkan 19:30 auk þess sem dansarar úr Klassíska listdansskólanum bjóða upp á nýtt og spennandi dansverk inni í rými safnsins klukkan 20:30.
Y-gallerý verður með sýningaropnun klukkan 17 – 19 á Safnanótt, föstudaginn 2.febrúar en þar sýnir Bjarni Þór Pétursson ný verk. Í Molanum verður boðið upp á spennandi dagskrá þar sem tónlistarfólk, uppistandarar, dansarar og myndlistarmenn stíga á svið. Dagskráin verður frá 21 – 23.
Fjölmargt annað verður í boði á Vetrarhátíð í Kópavogi í ár en dagskrána er hægt að nálgast inni á meko.is.
Forsíðumynd: Lúðrasveit verkalýðsins verður með stuðsveiflu á Hljóðbókasafni Íslands
Elísabet Indra Ragnarsdóttir

Mynd: Haraldur Jónsson verður með leiðsögn um verk sín á sýningunni Venjulegir staðir