Lions í Kópavogi

Þegar Lionshreyfingin flutti starfsemi skrifstofu sinnar í Kópavoginn fluttust nokkrir Reykjavíkurklúbbanna með yfir lækinn. Einn þeirra er Lionsklúbburinn Eir, en Eir er elsti kvennaklúbburinn í landinu. Nafnið Eir er komið úr goðafræðinni, en Eir var lækningagyðja í þjónustu Freyju, samkvæmt sögunum.

Lkl. Eir hefur frá upphafi starfað að forvörnum gegn vímuefnanotkun og var um langt skeið stuðningsklúbbur við Fíkniefnalögregluna. Í dag er klúbburinn fyrst og fremst að stuðla að forvörnum gegn sjálfsskaða og sjálfsvígum og safnar fé til styrktar þeim málaflokki.

Fundirnir í Eir eru líflegir og fræðandi. Á næsta fundi sem verður þann 21. febrúar nk. verður Hanna Lilja Oddgeirsdóttir kvensjúkdómalæknir gestur og mun hún fræða konur um heilsu kvenna á og eftir breytingaskeiðið.

Fundurinn er öllum opinn, hann verður haldinn í sal Lions í Hlíðasmára 14 og mun hann hefjast kl. 18:00. Léttur kvöldverður verður fram borinn kl. 18:30 og kostar hann kr. 3.000,-. Fundurinn er opinn öllum sem hafa áhuga á málefninu á meðan húsrúm leyfir.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar