Guðmundur Karl Brynjarsson, sóknarprestur í Lindakirkju er kominn í ársleyfi frá störfum við kirkjuna og mun sr. Ólafur Jóhann Borgþórsson sóknarprestur í Seljakirkju stíga inn í hans stað, en Ólafur Jóhann hefur starfað sem sóknarprestur í Seljakirkju undanfarin 18 ár.
Hver er Ólafur Jóhann og hvernig kom það til að hann ákvað að fylla tímabundið í skarðið sem Guðmundur Karl skilur eftir sig? ,,Ólafur Jóhann er fæddur og uppalinn Eyjamaður. Eiginkona mín heitir Guðbjörg Sigríður Hauksdóttir, grunnskólakennari og flugfreyja og börnin eru þrjú; Arnór Orri, Sigtryggur Örn og Ingibjörg Svana. Við höfum búið í Salahverfinu síðustu tólf árin og erum búin að festa hér rætur. Þegar ljóst var að Guðmundur Karl væri að fara í tímabundið leyfi sóttist ég eftir að fá að koma í Lindakirkju vegna þess að Lindakirkja er landsþekkt fyrir sitt fjölbreytta og skemmtilega safnaðarstarf og góða kirkjusókn. Ég verð hér bara í eitt ár og sannfærður um að ég geti lært mikið af því sem hér fer fram – og vonandi miðlað eitthvað af reynslu minni,“ segir Ólafur Jóhann er Kópavogspósturinn tók hann tali.
Þekkir vel til Lindasóknar
En þú ert nú ekki alveg ókunnugur Lindakirkju því þú varst m.a. gestur á Súpusamveru fyrir eldri borgara í kirkjunni fyrir nokkrum árum – þú hefur væntanlega upplifað þetta góða andrúmsloft sem umlykur Lindasókn eða var það bara súpan sem heillaði? ,,Ég er hreint ekki ókunnugur starfinu í Lindakirkju. Það er rétt sem þú segir, ég hefði komið þar sem gestur á eldri borgara samverur og svo hef ég oft verið með ýmsar athafnir, skírt, fermt, gift og jarðað. En auk þess hafa börnin mín sótt þar hið fjölbreytta og skemmtilega barna- og unglingastarf og fermingafræðslu. Það er sko alveg óhætt að mæla með því fyrir öll börn og ungmenni, því starfið er svo fjölbreytt og hentar öllum.“
Ég geri bara allt sem samstarfsfólkið og sóknarnefndin segir mér að gera!
Og hvaða störfum munt þú helst sinna af hendi í Lindasókn? ,,Ég geri bara allt sem samstarfsfólkið og sóknarnefndin segir mér að gera! Það er ekki einfalt að reyna að fylla skarðið sem Guðmundur Karl skilur eftir – en ég ætla að gera mitt besta. Í því felst að sinna þessum hefðbundnu prestsverkum, leiða barnamessur og kvöldmessur, taka þátt í súpusamverum og safnaðarstarfinu. Og jafnframt vera sóknarbörnum stuðningur og sáluhjálp á erfiðum tímum. Kirkjan er nefnilega athvarf í gleði og sorg og við prestarnir alltaf boðnir og búnir til þess að leggja lið.“
Að svo mörgu leyti ólíkar sóknir
En hvernig er það svona almennt, er einhver áherslumunur á sóknarstarfinu á milli kirkna eða gengur þú bara inn í sama umhverfi og þú þekkir í Seljakirkju? ,,Þó markmið allra sókna sé það sama eru aðstæður mjög mismunandi. Þó sóknarmörk Lindasóknar og Seljasóknar liggja saman þá eru þetta að svo mörgu leyti ólíkar sóknir. Seljahverfið er mjög gróið, byggt upp að mestu á áttunda og níunda áratug síðustu aldar en Lindasóknin hefur verið að byggjast upp síðasta aldarfjórðunginn eða svo. Þar að auki er íbúafjöldinn hér tvöfalt meiri en í Seljahverfinu. Þessar sóknir eiga það sameiginlegar að mjög mikill metnaður er lagður í almennt safnaðarstarf, að allir finni sig velkomna – þó áherslur séu mismunandi. Í Seljakirkju er öflugt kvenfélag sem hefur reynst öflugur bakhjarl kirkjunnar. Í báðum kirkjum eru barna- unglinga og kirkjukórar – þó tónlistarstefnan sé ólík á milli kirkna.“
Mikill samhljómur meðal allra að leggja allan metnað í að gera starfið sem best
Nú er haustið framundan og sóknarstarfið að fara á fullt – er haust- og vetrardagskráin spennandi í Lindakirkju þetta árið? ,,Starfið í Lindakirkju ótrúlega fjölbreytt og skemmtilegt – og það er svo gaman að finna hvað það er mikill samhljómur meðal allra að leggja allan metnað í að gera starfið sem best – og þess vegna er engin tilviljun að starfið í Lindakirkju hafi fengið mikla athygli. Það er barna- og æskulýðsstarf fyrir börn og unglinga á öllum aldri, fjölgreindarstarf, hádegissamverur á fimmtudögum með fjölbreyttir dagskrá. Auk þess eru vinavoðir skemmtilegt starf þar sem prjónuð eru bænasjöl sem eru svo gefin til þeirra sem á þurfa að halda. Í haust ætlum við svo að setja á stað Karlakaffi, sem verður fyrsta miðvikudagsmorgun í hverjum mánuði. Þar er góður vettvangur fyrir karla til að hittast – og þar fáum við góða gesti með innlegg og í kjölfarið verða vonandi skemmtilegar umræður og að sjálfsögðu verður boðið upp á kaffi og með‘í!“
Fögnum Kirkjudögum í Lindakirkju,
Og nú eru Kirkjudagar framundan í Lindakirkju dagana 25. ágúst til 1. september. Hvað er um að vera á Kirkjudögum? ,,Kirkjudagar voru síðast haldnir fyrir nítján árum og þá á Skólavörðuholtinu. Nú fögnum við kirkjudögum í Lindakirkju, þar sem þjóðkirkjufólk af öllu landinu kemur saman í Lindakirkju til að fagna, njóta, gleðjast, fræðast, syngja, biðja og uppbyggjast með því að taka þátt í allskonar dagskrá fyrir alla aldurshópa. Þeir hefjast með kveðjumessu biskups í Dómkirkjunni 25. ágúst kl 11, en svo verður pílagrímaganga í Lindakirkju þar sem fer fram setning Kirkjudaga. Mánudag til fimmtudags verða málstofur í Lindakirkju og á föstudeginum Sálmafoss með þátttöku kóra af öllu landinu og sungnir verða valdir sálmar í ýmsum útsetningum. Á laugardeginum verður fjölbreytt dagskrá í Lindakirkju; hoppukastalar, völundarhús, fyrirlestrar, kynningar og margt fleira. og Kirkjudögum lýkur með vígslu nýs biskups í Hallgrímskirkju. Verið öll vekomin á kirkjudagana og njóta þar fjölbreyttar dagskrár sem má finna á heimasíðu lindakirkju; lindakirkja.is.“
Liverpool tapaði ekki leik í marga mánuði eftir Liverpool-messuna
Heyrðu, þú kemst ekki hjá þessari spurningu, en það gleður sjálfsagt mjög marga og jú, kannski aðra síður að þú ert mikill stuðningsmaður Liverpool og hefur haldið sérstaka Liverpool-messu í Seljakirkju. Ætlar þú að halda uppteknum hætti í Lindasókn, verða sérstakar Liverpool-messu í boði og er þetta mestu ,,halleljúa“ messur sem þú heldur? ,,Þessi LIverpool – messa var nú meira ævintýrið. Það var þannig vorið 2019 að ég var að bera á pallinn hjá mér, Liverpool hafði unnið Barcelona kvöldið áður 4-0 – og komist þannig, nokkuð óvænt, áfram í meistarakeppni Evrópu. Hugurinn leitaði til messu næsta sunnudags og ég hugsaði með mér: „þetta er lærdómur fyrir okkur öll, við eigum aldrei að gefast upp þó vonin sé veik.“ Og svo fór ég að hugsa til þess að Jurgen Klopp, hin geðþekki Þjóðverji og þáverandi þjálfari Liverpool hafði talað mjög um hve kristnin væri honum mikilvæg. Þar að auki rímar Liverpoolsöngurinn You‘ll never walk alone vel við boðskap kristninnar, því Jesús sagði: „Ég er með ykkur alla daga, allt til enda veralda“ og úr þessum þankagangi varð Liverpoolmessan til. Ég reiknaði ekki endilega með mörgum, en Liverpoolmenn ákváðu að fjölmenna og fylltu Seljakirkju og úr varð einstök stund. Og þess má til gamans geta að Liverpool tapaði ekki leik í marga mánuði eftir að Liverpool messan var haldin;“ segir hann og brosir.
Ein af hans hinstu óskum hans var sú að þessi endemis Liverpool prestur kæmi hvergi nálægt jarðarförinni hans
Hefur þetta nokkuð haft áhrif á kirkjusóknina að sóknarpresturinn sé svona gallharður Liverpool-maður? ,,Jah, það er nú spurning. Ég frétti af því að fáum mánuðum eftir messuna að einn ákafur aðdáandi Mancehster United hefði kvatt þennan heim – og ein af hans hinstu óskum væri sú að þessi endemis Liverpool prestur kæmi hvergi nálægt jarðarförinni hans. Mér skilst að séra Pálmi Matthíasson hafi séð um útförina – sem er miklu harðari Liverpoolmaður en ég.“
Mér líst mjög vel á áherslur Arne Slot
Hvernig líst þér annars á tímabilið fyrir hönd Liverpool? ,,Þetta fer vel af stað hjá okkar mönnum, bæði undirbúningurinn og fyrsta umferðin. Mörgum þótti sárt að horfa á eftir Klopp á meðan öðrum þótti vera kominn tími á breytingar. Ég er bjartsýnn að eðlisfari og mér líst mjög vel á þessar áherslur Arne Slot, sem er að hreyfa við liðinu og láta menn spila nýjar stöður og styrkleikar þeirra koma enn betur í ljós.“
En aftur af starfinu í Lindasókn og kirkjunni yfir höfuð, fyrir hvern er kirkjan og hefur starf hennar breyst mikið á undanförnum árum? ,,Ég hef fylgst með starfi Lindakirkju allt frá því að sóknin var stofnuð árið 2002. Fyrst um sinn var aðstaðan frekar takmörkuð, minnti helst á lítinn sumarbústað en var með helgihald í Lindaskóla. En allt frá upphafi var lögð áhersla á að byggja upp þetta skemmtilega safnaðarstarf. Aðstaðan varð svo öll betri eftir að kirkjan og safnaðarheimilið byggðist upp Og þó að byggingin sé enn ekki fullkláruð mæta þangað fleiri hundruð manns í hverri viku. Og alltaf verið að bæta aðstöðuna. Nú er til dæmis verið að safna fyrir lyftu til þess að gera aðstöðuna og aðgengið enn betra. „
Sjaldan verið eins mikilvægt eins og á okkar tímum að sinna andlegu hliðinni
Og er gott fyrir alla að mæta í kirkju, sama á hvaða aldri þeir eru, að sækja messur og stunda sóknarstarfið? ,,Ég held að það hafi sjaldan verið eins mikilvægt eins og á okkar tímum að sinna andlegu hliðinni. Aldrei hefur áreitið verið eins mikið úr öllum áttum og þess vegna er svo gott að koma í helgidóminn, eiga stund með sjálfum sér og Guði í góðu samfélagi, syngja, nærast af Guðs orði og góðri hugleiðingu. Maður er aldrei of ungur eða gamall til að temja sér slíkt – og ég fullyrði að það er góð hugmynd að byrja nýja viku á að mæta í kirkju; til þess að þakka allt það góða sem hefur og biðja fyrir því sem veldur manni áhyggjum og hugarangri.“
Hér er valinn maður í hverju rúmi
Og ertu spenntur að breyta aðeins til og hefja störf í nýrri sókn? ,,Ég er þegar byrjaður og fann það frá fyrsta degi að hér er valinn maður í hverju rúmi; einstakt samstarfsfólk. Ég er þegar búinn að hitta fermingarbörnin og foreldra þeirra, bænastundarfólkið á fimmtudögum og hlakka svo sannarlega til að hitta alla þá sem koma í Lindakirkju. Hér er vel tekið á móti, boðið upp á gott kaffi og hlýjar móttökur. Verið velkomin til okkar í Lindakirkju,“ segir Ólafur Jóhann að lokum.