Líflegar umræður á Vatnsdroparáðstefnu

Ungir sýningarstjórar, 17 börn á aldrinum 8-15 ára, heldu ráðstefnu laugardaginn 18. febrúar síðastliðinn í Salnum í Kópavogi þar sem þau buðu til sín sérfræðingum til að ræða málefni sem tengdust undirbúningi listasýningar sem þau munu sýningarstýra í vor í menningarhúsunum í Kópavogi. Verkefnið er hluti af alþjóðlega barnamenningarverkefninu Vatnsdropanum sem Kópavogsbær stofnaði til með H.C. Andersen safninu í Danmörku, Múmín safninu í Finnlandi og Ilon‘s Wonderland í Haapsalu í Eistlandi.

Á ráðstefnunni sköpuðust líflegar umræður um margt sem skiptir okkur hjartansmáli í nútíma samfélagi. Ungu sýningarstjórarnir lögðu fram vel undirbúnar spurningar og meðal þess sem kom fram var að við getum öll lært um hringrásarhagkerfið af náttúrunni, að þátttaka barna skiptir miklu máli, að börn fái tækifæri til að taka þátt í listum, að börn séu öll jöfn og þurfi að fá jöfn tækifæri, að raddir barna fái að heyrast núna því þau séu ekki bara framtíðin heldur nútíðin. Ungu sýningarstjórarnir fengu þau góðu ráð að gæta þess á sýningunni sem þau setja upp í vor að öllum gestum sé sýnd virðing, að hafa texta á fleiri einu tungumáli og passa að öllum gestum líði vel. Einng að þegar listamenn séu að skapa þá skiptir mestu máli að vera í góðu skapi. Þau ræddu líka um að það sé ekki erfitt að taka á móti flóttafólki, það að hjálpa öðrum veitir ánægju og að listir geti haft áhrif á samfélagið.
Að lokum var bent á að krakkar gætu gert hvað sem er ef þau æfa sig og að þann lærdóm má draga úr barnabókmenntum að börn eru oft miklu klárari en fullorðnir.

Eitt meginstef Vatnsdropans er að tengja saman boðskap og gildi sígildra skáldverka barnabókahöfunda á borð við Tove Jansson, Astrid Lindregn og H.C. Andersen við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Þessir höfundar eiga það allir sameiginlegt að brýna fyrir lesendum að bera virðingu fyrir náttúrunni, rétta þeim sem minna mega sín hjálparhönd og takast á við erfiðleika með bjartsýni að vopni. Verkefninu lýkur með listsýningu Ungra sýningarstjóra 13. maí næstkomandi í menningarhúsunum í Kópavogi.
Sýningarstjórahópinn skipa: Aldís Rós Andrésdóttir, Brynja S. Jóhannsdóttir, Emil Ólafsson, Friðrika Eik Z. Ragnars, Hekla Bjarkey Magnadóttir, Héðinn Halldórsson, Inga Bríet Valberg, Íris Anna Elvarsdóttir, Karen Sól Heiðarsdóttir, Katrín Ólafsdóttir, Matthildur Daníelsdóttir, Saga Ásgeirsdóttir, Sophie Eik Karlsdóttir Stock, Stefanía Rós Sigurðardóttir, Þorbjörg Gróa Eggertsdóttir, Þorbjörn Úlfur Viðarsson, Vaka Margrét Gylfadóttir og Valmundur Rósmar Eggertsson

Ungu sýningarstjórarnir buðu til sín þjóðþekktum einstaklingum úr ólíkum áttum til að ræða þær áherslur sem þau munu vinna með í Vatnsdropanum í vetur og snúa að sameiginlegum gildum höfundaverka hinna norrænu rithöfunda við Heimsmarkmið nr. 5 um jafnrétti kynjanna og nr. 10 um sjálfbærar borgir og samfélög ásamt umhverfismálum.
Gestir Ungu sýningarstjóranna á ráðstefnunni voru:
Arndís Þórarinsdóttir
rithöfundur
 
Freyr Eyjólfsson
verkefnastjóri hringrásarhagkerfisins hjá Sorpu
 
Guðbjörg Gissurardóttir
Í Boði náttúrunnar
 
Gylfi Þór Þorsteinsson
aðgerðarstjóri hjá Félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu
 
Hildur Hákonardóttir
myndlistarkona
 
Sigyn Blöndal
réttindasérfræðingur hjá UNICEF á Íslandi
 
Vigdís Jakobsdóttir
listrænn stjórnandi Listahátíðar í Reykjavík
 
,,Þetta er þriðja árið í röð sem við fáum til okkar Unga sýningarstjóra til að setja upp sýningar, og vinna að smiðjum tengdum Vatnsdropanum. Ráðstefnan er mikilvægur undirbúningur að þeirri vinnu. Mikil eftirspurn er eftir þátttöku í Vatnsdropanum og nú vita öll börn í Kópavogi um hvað hann snýst. Verkefnið hóf göngu sína fyrir liðlega fjórum árum og hefur margfaldast að vexti og umfangi. Hugmyndafræðin að baki Vatnsdropanum er endalaus uppspretta fyrir börnin og við munum ljúka þessu fallega verkefni með útgáfu á aðferðarfræði sem aðrar menningarstofnanir geta nýtt sér í framtíðinni,“ segir Soffía Karlsdóttir, forstöðumaður menningarmála í Kópavogi og upphafsmaður Vatnsdropans.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar