Leikskólinn Aðalþing hlýtur Orðsporið 2022

Leikskólinn Aðalþing í Kópavogi hlaut Orðsporið 2022, en Dagur leikskólans var haldinn 6. febrúar sl., og hefðbundið er að veita Orðsporið, hvatningarverðlaun leikskólans, í tengslum við þennan ánægjulega dag.

Haraldur Freyr Gíslason, formaður Félags leikskólakennara, og Sigurður Sigurjónsson, formaður Félags stjórnenda leikskóla, afhentu Herði Svavarssyni leikskólastjóra í leikskólanum Aðalþingi viðurkenninguna nú í byrjun febrúar.

Leikskólinn fær Orðsporið fyrir framsækið skólastarf og metnað er kemur að starfsþróun og umbótastarfi. Aðalþing hefur ráðist í mörg þróunarverkefni enda stefna skólans að vera rannsóknarleikskóli í fararbroddi.

Aðalþing státar af háu hlutfalli réttindakennara í starfsmannahópnum

Aðalþing státar einnig af háu hlutfalli réttindakennara í starfsmannahópnum en réttindakennarar hafa undanfarin misseri verið á bilinu 50 til 60 prósent starfsmanna sem sinna uppeldi og menntun í leikskól-anum. Meðalfjöldi réttindakennara við uppeldi og menntun í leikskólum landsins var 28 prósent árið 2020.

Í leikskólanum eru 120 börn á aldrinum eins til sex ára og starfsmenn eru 30 talsins. Leikskólastjóri er Hörður Svavarsson en eigendur Aðalþings eru dr. Guðrún Alda Harðardóttir og Sigurður Þór Salvarsson.
Þetta er í níunda skipti sem Orðsporið er veitt í tengslum við Dag leikskólans. Að Orðsporinu standa Félag leikskólakennara, Félag stjórnenda leikskóla, skóla- og barnamálaráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga og Heimili og skóli.

Orðsporið var afhent í leikskólanum Aðalþingi föstudaginn 4. febrúar sl. Á myndinni eru Sigurður Sigurjónsson, formaður FSL, Haraldur Freyr Gíslason, formaður FL, Hörður Svavarsson leikskólastjóri, dr. Guðrún Alda Harðardóttir, Sigríður Einarsdóttir, Herdís Ágústa Matthíasdóttir og Agnes Gústafsdóttir

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar